Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:19:23 (7492)

2001-05-11 11:19:23# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:19]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta um dagpeningana var eina skýringin sem ég fékk á þessum tveimur málum sem ég nefndi þegar ég fór að inna menn eftir því af hverju þessum tilboðum hefði verið tekið, að það hefði ráðið úrslitum vegna þess hversu mjótt var á mununum í þessum tilboðum. Hins vegar er ekki hægt og ég ætla ekki að halda því fram að þetta sé einhver heilagur sannleikur eða pottþétt niðurstaða.

Ég vil líka segja að enda þótt þingmenn Samfylkingarinnar í nefndinni hafi ekki gert athugasemdir við að horfið væri frá þessu máli, sem virðist nú einboðið að menn þurfi að hverfa frá, þá segir það ekki neitt um það að maður geti ekki gert athugasemdir við það og spurt eftir því hverjir hafi verið kallaðir á fund nefndarinnar. Ég tel fulla ástæðu til að það komi fram hvað stjórnvöld ætla sér í framhaldinu, af því að nú er þessi leið lokuð. Ég held að það hafi ekki verið vegna þess að við hefðum ekki getað boðið út t.d. viðhald varðskipanna bara á EES-svæðinu ef við hefðum viljað. Stjórnvöld tóku einfaldlega þá ákvörðun að hafa útboðið víðtækara en svo. Það hefði verið hægt að hafa það á EES-svæðinu. Við þurfum ekkert að ganga lengra. En það var ekki aftur tekið eftir að búið var að taka ákvörðun um að hafa það opið. Menn þyrftu að velta því fyrir sér hvort það gæti þá verið leiðin að menn hefðu fyrirvara hvað þetta varðar þannig að EES-samningurinn verði, eins og ég sagði áðan, ekki vopn í höndunum á einhverjum allt öðrum en eiga aðild að honum.