Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:23:04 (7494)

2001-05-11 11:23:04# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:23]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég er sammála nálgun hv. þm. Ögmundar Jónassonar að því leyti að ég tel að við eigum í vaxandi mæli að láta reyna á það hvað felst í óljósum skilmálum sem við höfum gengist undir.

Ég ætla að taka dæmi af frv. sem hv. þm. hefur flutt með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni og e.t.v. öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og varðar lögbindingu á hámarkshlut í fjármálastofnunum. Hv. þm. hafa flutt hér frv. sem miðar að því að koma í veg fyrir óhóflega samþjöppun og fákeppni. Mér finnst hugmyndin sem hv. þm. hafa sett fram í því frv. mjög jákvæð og ég er að verulegu leyti fylgjandi þeirri nálgun, eins og kom fram í ræðu minni í gær um bankamálin.

Samfylkingin hefur kosið að fara svipaða leið en samt aðra, m.a. vegna þess að við tókum mið af því að fram hefur komið yfirlýsing frá ESA sem gefur til kynna að sú aðferð sem birtist í frv. hv. þingmanna kynni að fara í bága við þær skuldbindingar sem við höfum. Eftir því sem ég hef hugsað þetta mál betur, vegna þess að mér líst vel á leiðina sem kemur fram í frv. hv. þingmanna, þá hef ég eiginlega komist að þeirri niðurstöðu að auðvitað eigum við sem höfum gerst aðilar að samkomulagi eins og þessu að láta á það reyna hvort jafnvel þessi eftirlitsstofnun kunni að hafa rangt fyrir sér, vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að þarna sé um talsvert mikilvægt mál að ræða.

Eins kann að vera rétt hjá hv. þm. að það eigi að láta reyna þarna á ákveðna hluti sem tengjast þessu tiltekna máli sem við erum að ræða hér. Ég held samt að hv. þm. hafi reitt til höggs að rangri pólitískri keilu þegar hann var að kenna samningnum um EES um niðurstöðu þessa máls. Ég tel að hv. þm. Jóhann Ársælsson hafi skýrt það mætavel. Vera kann að sá samningur hafi knúið okkur til þess að fara í útboð á Evrópska efnahagssvæðinu. En það voru íslensk stjórnvöld sem tóku þá ákvörðun að útboðið skyldi vera víðtækara og þegar upp var staðið er niðurstaðan sú að við tókum tilboði frá landi utan Evrópska efnahagssvæðisins.

Þar fyrir utan er ég líka þeirrar skoðunar, og byggi það á röksemdum sem komu fram hjá forsvarsmönnum í íslenskum skipaiðnaði, að við höfum líka verið of lin í túlkun okkar á ákvæðum um það hvernig ætti að haga útboðinu. Ég tel að það hefði verið með ýmsum hætti, eins og forsvarsmenn iðnaðarins bentu á, hægt að haga útboðinu þannig að meiri líkur hefðu verið á því að innlendir aðilar fengju verkið heldur en fólust í þeirri útboðsaðferð sem var viðhöfð. Ég byggi þetta á fullyrðingum sem komu fram hjá forsvarsmönnum í þessari iðngrein. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Jóhanni Ársælssyni að það er auðvitað nokkuð umhendis að menn skuli vera að fjalla um svona mál í allshn. án þess að kalla á þessa menn til þess að fá upplýsingar þeirra. Ég held að þetta skipti ákaflega miklu máli, ég tala nú ekki um þegar íslenska ríkið þarf e.t.v. síðar að fara í einhver svipuð verkefni.

Mér finnst hins vegar nokkuð fróðlegt og gaman að eiga orðastað við hv. þm. um eðli alþjóðlegra samninga vegna þess að mér finnst gæta nokkuð djúprar þverstæðu í þeim röksemdum sem hv. þm. flytur stundum hér í þessum sal. Hann leggst gegn alþjóðavæðingunni sem hefur í för með sér miklu auknara markaðsfrelsi sem ég tel, ef rétt er á málum haldið, að geti leitt til aukinnar velferðar. Það er m.a. ástæðan fyrir því að hv. þm. geldur varhug við aukinni alþjóðavæðingu eða aukinni hnattvæðingu og oft og tíðum virðist mér sem sá varhugur sé ástæðan fyrir því að hv. þm. er ekki bara á móti Evrópska efnahagssvæðinu og aðild okkar þar heldur líka mögulega að framtíðaraðild okkar að Evrópusambandinu sjálfu.

Samt hefur að hv. þm. í þessum sal m.a. álasað Evrópusambandinu fyrir að reisa tollmúra í kringum sig --- ég man ekki betur en ég hafi tekið þátt í umræðum með hv. þm. um það --- sem geri það að verkum að ýmis ríki, t.d. þróunarríki, eiga mjög erfitt með að koma sínum vörum á framfæri þar. Ég man ekki betur en að hv. þingmenn Vinstri grænna hafi m.a. notað þetta sem röksemd gegn Evrópusambandinu. Út af fyrir sig er nokkuð til í þessu. Ég tel að þetta sé ákveðinn ljóður á ráði Evrópusambandsins en um leið, ef menn tefla fram þessari röksemd, eru þeir líka að fallast á að aukið frelsi á markaðnum gæti leitt til aukinnar velferðar, sér í lagi hjá þeim þjóðum sem eiga erfitt uppdráttar og sökum aðstæðna heima fyrir geta framleitt vörur sem hægt er að selja við lægra verði á mörkuðum t.d. í Evrópu en heimaframleiðslan getur. Þetta er ein af þeim þverstæðum sem við þurfum auðvitað að velta fyrir okkur í umræðum um þessi mál.

Ég er sammála hv. þm. um að það sem er að gerast innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er þess eðlis að það þarf að fylgjast ákaflega vel með því. En ég er þeirrar skoðunar, og það er grundvallarafstaða, að aukið frelsi í viðskiptum, ef rétt er á málum haldið, getur leitt og mun leiða til aukinnar velferðar.

Ég held til að mynda, þó að ég sé nú kominn langt út frá efninu, að þær hugmyndir sem eru uppi núna um að búa til sérstakt markaðsbandalag allra Ameríkuríkja muni gagnast ríkjum Suður-Ameríku nokkuð vel. Ég tel að það skipti miklu máli fyrir þau ríki að eiga greiðari aðgang að markaði stóra nágrannans í norðri. Allt um það, herra forseti.

Við hófum þessa umræðu með því að tala um afsal á fullveldi og gagnkvæmar samningsskuldbindingar. Ég er þeirrar skoðunar að jafnvel þó að stefna Vinstri grænna yrði ofan á og okkur tækist, sem ég held reyndar að sé tæknilega ókleift, að gera tvíhliða samning við Evrópusambandið þá mundi það eigi að síður alltaf fela í sér einhvers konar afsal á fullveldi okkar. Við mundum alltaf þurfa að takast á herðar einhvers konar skuldbindingar sem mundu fela það í sér að við mundum ekki ráða okkar ráðum algerlega sjálf og það er langt síðan við höfum gert það. Við höfum undirgengist marga alþjóðlega sáttmála sem hv. þm. hefur ábyggilega fylgt og hefur fært þeim félagsmönnum sem hann hefur eytt obbanum af starfsævi sinni til þess að berjast fyrir, opinberum starfsmönnum, margvísleg réttindi. Nú er ég ekki bara að tala um hinar félagslegu tilskipanir frá EES heldur hvers kyns borgaraleg réttindi sem við njótum á erlendri grundu vegna aðildar að hinum norrænu sáttmálum, t.d. að mannréttindasáttmálum. Má ég minna hv. þm. á að hann hélt sínar mælskustu og fimustu ræður í þessum sölum fyrr á þessu ári sem fjölluðu um málefni öryrkja þar sem beinlínis var verið að dæma í Hæstarétti að því er við töldum þá á grundvelli alþjóðlegra sáttmála. Þátttaka okkar og afsal á fullveldi okkar, því að auðvitað fólst líka í þessu ákveðið afsal á fullveldi, felur því líka í sér ákaflega jákvæða hluti.

[11:30]

En mætti ég, ef við værum ekki í 2. umr., e.t.v. leyfa mér þann munað að spyrja hv. þm. af því að hann telur með réttu að aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu feli í sér fullveldisafsal: Hefur hann skoðað hvað aðild okkar, full aðild að Evrópusambandinu mundi fela í sér? Telur hann t.d. að ef Íslendingar gengju í Evrópusambandið mundi það leiða til aukins afsals á fullveldi? Ég hef skoðað það í mínu eigin hugskoti og ég er þeirrar skoðunar að innganga Íslands í Evrópusambandið mundi ekki leiða til meira fullveldisafsals en þegar hefur átt sér stað með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu.