Landhelgisgæsla Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 11:38:00 (7498)

2001-05-11 11:38:00# 126. lþ. 120.21 fundur 673. mál: #A Landhelgisgæsla Íslands# (smíði varðskips) frv. 64/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[11:38]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst eiginlega að þjóðirnar í þessum ríkjum séu búnar að svara þessari spurningu fyrir mig. Þær telja að þeim sé akkur í því að verða fullgildur þátttakandi í þessu stóra markaðssvæði af tveimur ástæðum. Af öryggissjónarmiðinu, sem við höfum rætt um og erum nánast sammála um, og hins vegar líka vegna þess að staðan í þessum ríkjum er þannig að þær telja að viðkomandi íbúar geti framleitt vöru með minni tilkostnaði en íbúar hinna ríkjanna sem fyrir eru, þessara gömlu, ríku ríkja, og selt á markaði þar. Það geti þess vegna lyft atvinnustigi og velferð í viðkomandi ríkjum. Það er þar sem þeir eru á eftir og að því leyti til tel ég að svarið sé játandi, að það muni verða þessum ríkjum til hagsbóta.

Hins vegar vil ég einnig benda hv. þm. á að smáu þjóðarbrotin í Evrópu finna styrk í heild stærðarinnar. Katalónar og Baskar vilja vera í Evrópusambandinu vegna þess að þeir fá aukið sjálfræði og aukna virðingu fyrir tungu sinni. Evrópusambandið hefur nánast bjargað gelískunni í Írlandi. Ef Evrópusambandið hefði verið til fyrir hundrað árum væri núna lifandi tungumálið sem menn töluðu í Skotlandi en er meira og minna glatað í dag.

Grundvallarspurningin sem við þyrftum að svara, og ég varpaði fram til hv. þm. áðan, er þessi --- og ég fellst fyllilega á það að við höfum afsalað okkur fullveldi við það að gerast aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu --- en spurningin er þessi: Mundum við afsala okkur meira fullveldi með því að gerast aðilar að Evrópusambandinu? Ég held ekki. Ég held að við mundum endurheimta svolítið af því fullveldi sem við höfum tapað vegna þess að við fáum að láta rödd okkar heyrast og við mundum hafa svolítil áhrif þar innan sem við höfum ekki í dag.