Ársreikningar

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 12:01:46 (7508)

2001-05-11 12:01:46# 126. lþ. 120.26 fundur 685. mál: #A ársreikningar# (ársreikningaskrá) frv. 58/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál. um breyting á lögum um ársreikninga, með síðari breytingum, með fyrirvara, ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur. Markmið frv. er að setja fullnægjandi lagastoð fyrir starfrækslu ársreikningaskrár, stofnun sem fengið er það hlutverk að taka á móti, geyma og hafa til birtingar fyrir almenning ársreikninga skilaskyldra félaga og hafa eftirlit með því að ársreikningar þessara félaga séu í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga.

Fram kom hjá umsagnaraðila sem mætti á fund nefndarinnar að hann teldi að þarna væri gengið mun lengra í að skylda aðila til birtingar á ársreikningum en væri almennt á Evrópska efnahagssvæðinu. Nefndin fór yfir það og ræddi töluvert um það og varð það niðurstaða hennar að svo væri ekki. Meiri hluti nefndarinnar taldi engu að síður ástæðu til að einfalda 11. gr. og fella úr henni ákveðin ákvæði sem ég er ekki sátt við, en 11. gr. felur það í sér að ársreikningaskrá skuli gera úrtakskannanir og athuganir á ársreikningum, samstæðureikningum og skýrslum stjórna í því skyni að sannreyna að þessi gögn séu í samræmi við ákvæði þessara laga. Hún getur krafist þeirra upplýsinga hjá hverju félagi sem nauðsynlegar eru í þessu sambandi.

Og síðan segir:

,,Í því skyni að sannreyna hvort félög uppfylli ákvæði laganna um stærðarmörk til að mega skila samandregnum ársreikningum og samstæðureikningum hefur ársreikningaskrá heimild til að fá aðgang að eftirfarandi upplýsingum hjá ríkisskattstjóra:`` --- Og það eru þeir þrír töluliðir sem nefndir eru í 11. gr. sem meiri hluti nefndarmanna, aðrir en þeir sem skrifa undir með fyrirvara, vildu að felldir yrðu út. Í fyrsta lagi að skila eigi upplýsingum um veltufjárhæðir úr virðisaukaskattskrám eða heildarveltu samkvæmt ársreikningi eða skattframtali, í öðru lagi samtölu eigna samkvæmt eignarhlið ársreiknings eða skattframtali og í þriðja lagi fjölda starfsmanna samkvæmt uppgjöri til staðgreiðslu.

Ég tel enga sérstaka ástæðu til að fella þetta hér út. Ég tel að við eigum að setja þau ákvæði inn í lög sem nauðsynlegar eru fyrir skattyfirvöld til að sinna þessu verkefni sem þeim er fengið varðandi þessar ársreikningaskrár. Í umsögn frá ríkisskattstjóra kemur fram að þjónusta við almenning sem felst í því að veita aðgang að skilaskyldum gögnum og upplýsingum úr þeim hefur farið vaxandi og ég vil ekkert gera sem torveldar það að skattyfirvöld geti sinnt þessu hlutverki eins vel og kostur er. Því mun ég sitja hjá við þessa brtt. sem fram kemur á þskj. 1219 en að öðru leyti munum við, hv. þm. Margrét Frímannsdóttir og ég, styðja þetta frv.