Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 13:38:33 (7524)

2001-05-11 13:38:33# 126. lþ. 120.1 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[13:38]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Við teljum rangt að selja hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka, nánast hvernig sem á málin er litið. Bankar eru í senn fjármála- og þjónustustofnanir fyrir fyrirtæki og almenning. Við teljum brýnt að tryggja kjölfestu í fjármálalífinu með öflugum þjóðbanka. Með því er tryggð þjónusta við alla landsmenn í dreifbýli jafnt sem þéttbýli og komið í veg fyrir að saman þjappist vald og fjármagn með einokunareignarhaldi á fjármálastofnunum í landinu á sama hátt og gerst hefur annars staðar í efnahagslífinu. Slíkt fyrirkomulag tryggir auk þess þjónustu við alla landsmenn og stuðlar að fjölbreytni og samkeppni í atvinnurekstri. Þess vegna höfum við lagt áherslu á að hér sé starfræktur öflugur þjóðbanki sem þjóni landsmönnum öllum.

Ríkisbankarnir hafa fallið um 11% í verði frá áramótum eða um 5 milljarða. Þetta er því ekki rétti tíminn til sölu ef menn á annað borð ætla að fara út á þá hálu braut. Það viðurkenna allir. Hins vegar er ríkisstjórnin að skuldbinda sig með yfirlýsingum til að selja þessar gullkýr þjóðarinnar á næstu tveimur árum, væntanlega án tillits til verðlags á markaðstorgi bankanna. Þetta brýtur gegn stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem talað er um hámarksverð en látum það vera. Við erum vön því að ríkisstjórnin brjóti eigin loforð og fyrirheit. Verra er að stefna hennar stríðir bæði gegn hagsmunum þjóðarinnar og heilbrigðri skynsemi.