Raforkuver

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:23:30 (7532)

2001-05-11 14:23:30# 126. lþ. 120.46 fundur 722. mál: #A raforkuver# (stækkun Nesjavallavirkjunar) frv. 80/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:23]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni inn í þingið enn eitt málið sem er keyrt með ógnarhraða þó svo að við gerum okkur grein fyrir því að það hafi verið unnin undirbúningsvinna varðandi stækkun orkuversins á Nesjavöllum úr 60 MW upp í 90 MW. Ég tel ekki ástæðu til þess nú við 1. umr. að gera alvarlegar athugasemdir því við höfum ekki séð hvað hangir á spýtunni í þessu máli. En ég vil gera alvarlegar athugasemdir við það að hér komi inn mál með klukkutíma fyrirvara, stórmál þar sem á hangir að framleiða á orku til að fóðra stóriðju í Hvalfirði. Það er eitt með öllu hér. Mér finnst að við getum ekki unnið á þennan hátt. Hér er e.t.v. einnig við Reykjavíkurborg að sakast en hv. Alþingi getur ekki látið bjóða sér að hér séu tekin inn stórmál með örfárra klukkutíma fyrirvara og á hangir að það á að fara að selja raforku í stórum stíl til stóriðju. Ég vil að þetta komi fram við 1. umr.

Ég geri ráð fyrir að við fáum góðan tíma til að ræða þessi mál í nefnd, málinu verður vísað til nefndar. Ég geri alvarlegar athugasemdir við þessa aðkomu og það hast sem er á öllum málum í sambandi við þetta.