Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:29:18 (7533)

2001-05-11 14:29:18# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, fjmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:29]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breyting á tollalögum, nr. 55/1987, með síðari breytingum, en það mál hefur verið tekið á dagskrá í dag með afbrigðum eins og kunnugt er.

Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á tollalögum og viðauka IVB með lögunum. Breytingar þessar, ef samþykktar verða, munu veita landbúnaðarráðherra aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum sem unnt er að flytja inn til landsins á lægri tollum en nú er eða algerlega án tolla.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að orðalagi 6. gr. A í lögunum verði breytt til að taka af öll tvímæli um að landbúnaðarráðherra geti lækkað eða fellt niður magn- og/eða verðtoll samkvæmt tollskrá um þau prósentustig sem tilgreind eru í ákvæðinu en fram að þessu hefur framkvæmdin verið sú að magn- og verðtollar hafa verið lækkaðir um sama hlutfall hverju sinni. Með þessari breytingu verður til dæmis unnt að lækka verðtoll um 25% en fella magntollinn alveg niður.

Breytingar þær sem eru lagðar til á viðauka IVB við tollalög eru þær að heildartollkvótar á grænmeti sem landbúnaðarráðherra hefur til úthlutunar eru auknir auk þess sem bætt er inn nýjum vörulið, 0708, ertur og belgaldin. Miðað er við að heildartollkvótar í tonnum nemi ríflegu heildarmagni árlegs innflutnings í viðkomandi vöruliðum samkvæmt innflutningstölum á grænmeti fyrir árin 1999 og 2000.

Tilgangur þessa frv. um breytingar á tollalögum er að sjálfsögðu sá að stuðla að lækkun á grænmetisverði til neytenda hér á landi. Það hefur komið fram af hálfu landbrh. að verði frv. að lögum muni hann beita heimildinni til þess að lækka tolla á grænmeti sem er ekki framleitt hér á landi en í framhaldi af því verði unnið að frekari greiningu á verðmyndun á grænmeti og þeim fjölmörgu þáttum sem að þeim málum lúta.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um þetta frv. á þessu stigi málsins en vænti þess að málið fái góða umfjöllun í efh.- og viðskn. sem ég legg til að þessu máli verði vísað til. Auk þess væri eðlilegt að landbn. fengi einnig aðstöðu til að líta á málið. Því er nefnilega þannig háttað að þessum þætti í tollalögum er þannig fyrir komið að enda þótt tollalög heyri undir fjmrn. er framkvæmd þessa þáttar hjá landbrh. og því eðlilegt að landbn. komi einnig að því að skoða frv. eins og reyndar var þegar þessum ákvæðum var komið fyrir í lögum fyrir nokkrum árum.

Virðulegur forseti. Ég legg til að málinu verði að lokinni umræðunni vísað til efh.- og viðskn. og 2. umr.