Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:32:48 (7534)

2001-05-11 14:32:48# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:32]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að segja að það frv. sem hér liggur fyrir er með endemum óskýrt. Ákaflega erfitt er að átta sig á hvað er nákvæmlega verið að leggja til með því. Ég átel þessi vinnubrögð, herra forseti. Ég tel að það hefði verið miklu betur fallið til að greiða fyrir umræðunni að menn gætu beinlínis lesið út úr frv. hvaða tegundir það eru sem verið er að veita hæstv. landbrh. heimild til að fella niður tolla af eða lækka.

Ég kem þó aðallega upp, herra forseti, til að henda á lofti lítinn bolta sem hæstv. fjmrh. varpaði upp. Hann sagði að hér væri hann að mæla fyrir frv. sem heimilaði landbrh. breytingar á ákvörðun tolla. Herra forseti. Er það ekki talsvert umhendis að það skuli vera hæstv. landbrh. eða landbrn. sem fer með framkvæmd á þessari grein tollalaganna? Ég spyr hæstv. fjmrn.: Telur hann ekki tíma til kominn, jafnvel þó við vindum okkur ekki í það á þessu vorþingi, en e.t.v. síðar, að breyta þessu þannig að framkvæmdin verði einfaldlega hjá viðskrn., sem er ráðuneyti neytendamála, eða hjá fjmrn.?