Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 14:38:47 (7537)

2001-05-11 14:38:47# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. átti sæti í ríkisstjórninni á þeim tíma þegar þetta fyrirkomulag var ákveðið og var nær vettvangi en ég var á þeim tíma. Ég sagði að vísu ekki að það hefði verið gott samkomulag um þetta. Ég sagði að niðurstaðan hefði orðið á þennan veg. En ef það var einhver þjösnaskapur í þessu máli þá var það væntanlega á milli þeirra tveggja ráðherra sem gegndu þessum embættum á þeim tíma og eitthvað rámar mig í það. Eigi að síður varð þetta niðurstaðan og henni hafa menn unað mjög bærilega síðan. Eins og ég segi stendur ekkert sérstaklega til að gera neinar breytingar á því og það yrði þá óháð þessu frv.

Hitt er annað mál að ástæðan fyrir því að þessu er svona fyrir komið er náttúrlega sú að hér er um að ræða tollamál og tollalög heyra undir fjmrn. Óeðlilegt hefði verið að setja sérstök lög um þessi tollamál. Ég held að það sé fyllilega í samræmi við skuldbindingar okkar samkvæmt samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina að fara þessa leið og er auðvitað innanlands- og einkamál okkar hér á Íslandi hvernig þessum málum er fyrir komið að því er varðar verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands.

Hins vegar held ég að málið sem hér er verið að flytja sé efnislega þarft og gott og ég fagna því að hv. þm. er ánægður með innihald þess. Verið er að auka svigrúm til að lækka tolla og þar með verð á tilteknum grænmetistegundum og vonandi leiðir það til þess að neytendur verða almennt sáttari við verðlagningu á þessari vöru. Hins vegar er það líka rétt sem fram kom í máli hv. þm. að miklu fleiri atriði skipta máli í þessu en bara tollarnir. Þar verða menn að horfa til dreifingaraðila sem versla með þessa vöru, bæði í heildsölu og smásölu. Þó svo að þetta eina mál verði vonandi til að stuðla að verðlækkun þá verða fleiri að leggja sitt af mörkum í því efni eins og kunnugt er.