Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:02:22 (7544)

2001-05-11 15:02:22# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:02]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gerist hér eins og oft áður að rökræðan leiðir gott af sér og svo er með hv. þm. eins og klárinn að það er mikilvægt að hafa beislið upp í honum og vera staddur þar sem hann er í rökræðum. Ég þakka honum fyrir þessi ummæli og nú finn ég að við verðum samherjar á ný. (Gripið fram í.) Við höfum hlotið svipað uppeldi í æsku og þá veit hv. þm. það sem ég var að ýja að áðan að það er verið að snúa út úr ummælum mínum. Það var einmitt þetta sem ég var að tala um.

Ég er talsmaður þess að fólk borði meira af grænmeti og styð það heils hugar. Við eigum frábærlega gott grænmeti og heimurinn á það í rauninni. Ég hygg að við Íslendingar séum sammála því að okkar fólk í þessari grein hefur staðið sig mjög vel og menn vilja auðvitað sjá lækkað verð á því grænmeti --- og sé ég að glaðnar yfir hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur hér við dyrnar --- þannig að kannski erum við þrátt fyrir allt samherjar. Hér er um að ræða tollamál sem er fyrsta skref á mikilvægri leið, þ.e. að reyna að bregðast við ákveðinni gagnrýni og ýmsu sem hefur komið upp á. Ég vil þó segja hér um málflutning hv. þm. áðan að það sem mér finnst hafa komið mjög fram í rannsóknarblaðamennsku Morgunblaðsins, sem hefur verið mjög góð, er að smásalan ber þungar byrðar í þeirri hækkun sem orðið hefur frá 1995. Það á ekki bara við grænmetið. Það á ekki síður við um ávexti sem hvergi eru tollaðir af hálfu stjórnvalda. Fram hafa komið merkilegar tölur í Morgunblaðinu, í þeirri rannsóknarblaðamennsku, síðustu dagana að mér hefur fundist. En ég hygg að fyrir liggi að bændur hafa ekki fengið hærra verð og þeirra milliliður hefur haldið sig á svipuðum stað. En hækkunin virðist liggja meira í smásölunni.