Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:04:46 (7545)

2001-05-11 15:04:46# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það sem skiptir e.t.v. máli, fyrir utan þau smáatriði sem varða uppeldi okkar tveggja, er að hæstv. landbrh. hefur svarað spurningu sem ég varpaði til hans. Ég spurði hann: Mun hann nýta sér þessa heimild til fulls? Og hæstv. ráðherra kom hingað og sagði að hann mundi nýta sér heimildina, ekki til þess að lækka heldur fella niður tollana á þessum tilteknu 30 tegundum grænmetis. Það er mikilvæg yfirlýsing.

Ég spurði síðan hæstv. landbrh. og vænti þess að hann svari því hér á eftir í umræðunni, hvort hann hefði beitt sér fyrir sérstakri úttekt á verðmyndun á tilteknum tegundum grænmetis. Tilefni spurningar minnar var í fyrsta lagi að hann sagði þetta í DV 6. apríl sl. og í öðru lagi að niðurstaðan sem kemur úr þessari könnun Samkeppnisstofnunar, sem birt var fyrir helgi, rímar ekki alveg við ýmsar þær upplýsingar sem komið hafa fram í fjölmiðlum. Ég tel þess vegna að nauðsynlegt sé að gera mjög rækilega úttekt á þessu máli til þess að það liggi algjörlega fyrir hvar þessi mikla verðhækkun hefur orðið á milli áranna 1995 og 2000. Hér er um ræða miklar hækkanir og komið hefur í ljós að á þessu tímabili hefur önnur matvara hækkað um u.þ.b. 17% meðan grænmeti hefur hækkað um ríflega 30%. Ef grænmeti hefði einungis hækkað um sama hlutfall og önnur matvæli hefðu íslenskir neytendur á þessum tíma greitt 2 milljörðum minna. Þá hefði verðbólgan minnkað minna sem nemur því að skuldir landsmanna væru um einum milljarði minni í dag.