Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:06:59 (7546)

2001-05-11 15:06:59# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það frv. sem við ræðum hér um breyting á tollalögum og hæstv. fjmrh. mælti fyrir snýst aðallega um landbúnaðarmál og verðlag á grænmeti eins og rækilega hefur komið fram í umræðunni.

Reyndar var nokkuð athyglisvert að heyra hversu feginn og kampakátur hæstv. fjmrh. var gagnvart öllum þeim athugasemdum sem hér var velt upp í andsvörum og greinilegt að hæstv. fjmrh. leiddist það ekkert sérstaklega þótt dregin væri athygli að þeirri óvenjulegu stjórnsýslu sem að þessu leyti er við lýði, þ.e. að tollamálin heyra undir hæstv. fjmrh. og hann mælir hér fyrir frumvörpum um breytingar á þeim lögum, en málið varðar hins vegar fyrst og fremst framkvæmd sem er á hendi landbrh. og mætti út af fyrir sig margt um það segja. Það á sér allt saman langan sögulegan bakgrunn sem ýmsir þekkja.

Herra forseti. Þetta frv. er til komið í framhaldi af því umróti sem varð í kjölfar skýrslu Samkeppnisstofnunar um verðlag og viðskiptahætti í grænmetisversluninni hér. Þá gengu menn í hita leiksins snöfurmannlega fram, m.a. hæstv. landbrh. sem hafði stór orð uppi um nauðsyn þess að taka þarna hressilega til hendi, að því er manni skildist nánast samstundis. Síðan fór þetta í hægagang. Ég segi nú ekki að þetta hafi lent niður á hraða snigilsins og alls ekki steinvölunnar. En ég hygg að ef þetta hefði verið reiðtúr þá hefði verið hægt að lýsa þessu sem ferðalagi á hægu tölti í mesta lagi. Það tók allmargar vikur að hnoðast á þessu í starfshópi og lætur nærri að segja megi að fæðst hafi lítil mús þegar fjallið loksins tók jóðsóttina.

Þegar rætt er um verðlag á grænmeti þá hafa að sjálfsögðu margir samverkandi þættir þar áhrif á. Þar má náttúrlega í fyrsta lagi nefna það sem sérstaklega var til umfjöllunar í skýrslu Samkeppnisstofnunar, þ.e. viðskiptahætti heildsala sem versla með grænmeti, þeirra sem selja innlenda framleiðslu og/eða flytja grænmeti inn. Þetta eru í aðalatriðum sömu aðilarnir og ekki nema þrír sem eitthvað kveður að, ef ég man rétt. Þarna er vissulega einn þátturinn á ferðinni sem hefur umtalsverð áhrif, hvernig staðið er að málum í þessu efni, þ.e. millistigið á milli framleiðendanna sjálfra og smásöluverslunarinnar, hvort sem um er að ræða innlenda eða erlenda framleiðendur. Viðskiptahættir þarna hafa mikil áhrif og þar hefur sannarlega reynst vera pottur brotinn. Ég held að enginn deili um það að þarna hafi verið pottur brotinn og menn hafi fært sig heldur hressilega upp á skaftið í því að taka til sín hagnað í skjóli einokunar eða fákeppnisaðstöðu. Deilan stendur frekar um það hversu gróflega menn hafi nýtt sér aðstöðu sína í þessum efnum og hversu alvarleg brot á góðum viðskiptaháttum og samkeppnislögum það hafi verið.

En það er fleira sem kemur til, herra forseti. Í öðru lagi má nefna og ekki síst álagningu smásöluaðilanna og þá tekur nú kannski ekki endilega miklu skárra við því að þar hefur líka orðið gífurleg samþjöppun og ljóst er að verðlagningin ræðst að verulegu leyti af þeirri aðstöðu sem nokkrar stórar keðjur í smásöluverslun eru í hvað varðar annars vegar innkaupin frá sínum birgjum og hins vegar þau tröllatök sem þeir hafa á smásölumarkaðnum í gegnum það að ráða hilluplássinu í verslununum og ráða þar með lífi og dauða framleiðenda eða söluaðila með því einu að ákveða hvort þeir fái að selja vöru sína í þeirra verslunum eða ekki. Það skyldi nú ekki koma á daginn að þarna væri ekki síður ástæða til að fara rækilega yfir hlutina og þarna væri að leita drjúgs hluta skýringa á því hversu gríðarlega hátt verð á ýmsu grænmeti hefur farið á Íslandi á undanförnum missirum því að á daginn kemur nefnilega, þegar það er borið saman, að í sumum tilvikum stendur verðið á innfluttu grænmeti sem alls ekki er framleitt hér ekkert síður upp úr að teknu tilliti til tolla heldur en því innlenda. Þetta hygg ég að hafi m.a. verið að koma í ljós í nýlegri verðkönnun sem gerð var, að vísu ekki mjög viðamikilli, þar sem borið var saman verð á grænmeti og ávöxtum hér á landi, í Danmörku og víðar. Ekki er þar við innlenda framleiðendur eða þann hluta heildsöluverslunarinnar sem flytur vöruna frá innlendum framleiðendum til smálsölustigsins að sakast þegar í hlut eiga ávextir sem alls ekki vaxa hér. Þetta er því annar meginþáttur málsins, herra forseti.

Í þriðja lagi þýðir auðvitað ekki að taka þetta úr samhengi við það að aðstæður til framleiðslu hér eru sérstæðar. Það eru væntanlega engin ný sannindi fyrir menn að þeir geti þurft að búast við því að hér séu aðstæður þannig að framleiðslukostnaður að breyttu breytanda verði eitthvað meiri og til viðbótar kemur lítill markaður, ákaflega lítill ef við berum hann saman við þó ekki sé nema nágrannalöndin, hin Norðurlöndin. Allt hlýtur þetta að vera hluti af því sem þarna þarf að skoða ef menn vilja fá fram raunhæfa og sanngjarna mynd af ástandinu og ræða þetta eins og þetta kemur efnislega fyrir, fremur en að fara upp á háu nóturnar og mála dekkstu litina sem þeir finna í pússi sínu á vegginn. Á móti kemur svo að gæði framleiðslunnar eru almennt viðurkennd mikil hér o.s.frv.

Fjórði þátturinn í þessu, og það er það sem hér á við, er að sjálfsögðu spurning um pólitíska ákvörðun eða niðurstöðu, eru tollarnir. Annars vegar eru tollar sem lagðir eru á innflutt grænmeti og þá það grænmeti sem alls ekki er hér á markaði og alls ekki er framleitt hér og hins vegar tollarnir og tollverndin sem innlend framleiðsla nýtur og birtist í háum tollum sem lagðir eru á samkeppnisvöruna þann tíma ársins sem innlenda framleiðslan er á markaði eða fullnægir eftirspurn á innlendum markaði. Menn þekkja að það varð niðurstaðan á sínum tíma þegar Íslendingar gerðust aðilar að GATT að sú vernd sem innlend framleiðsla áður naut í skjóli hreinna innflutningsbanna var færð yfir í þessa tollvernd. Það var niðurstaða þeirra samninga. Hér er sá þáttur á ferðinni og það er spurning um pólitískar ákvarðanir hvernig menn vilja hafa það. Vilja menn víkja í grundvallaratriðum frá þeirri niðurstöðu sem þá varð, taka afleiðingunum af því eða gera eitthvað til mótvægis í því sambandi?

[15:15]

Sá þáttur málsins, herra forseti, sem þetta frv. fjallar um er í raun og veru aðeins hliðargrein á þessum meiði. Hér er eingöngu verið að tala um tolla eða tollaleysi grænmetistegunda sem í aðalatriðum eru ekki framleiddar hér. Það er að sjálfsögðu algjörlega hrein pólitísk ákvörðun hvort menn vilja fella þá tolla niður og leggja þannig eitthvað af mörkum til að lækka verð þessa vöruflokks og þá í gegnum þær tilteknu tegundir sem í hlut eiga því til annars tekur þetta ekki. Ég vil segja strax fyrir mitt leyti að ég tel einboðið að gera það við þessar aðstæður og þó fyrr hefði verið. Ég sé ekki að það eigi í raun og veru að vera neinum til armæðu eða vandræða nema þá ræflinum ríkissjóði sem missir einhverjar örlitlar tekjur en þær eru hreint smámál í þessu sambandi. Þetta leggur vissulega pínulítið af mörkum til þess að sá vöruflokkur sem slíkur í heild sinni, ef við segjum að meðaltali, lækkar eitthvað í verði en tiltölulega mjög lítið. Grænmetis- og ávaxtainnkaupakarfa fjölskyldunnar í heild mun að sjálfsögðu ekki lækka um stórar upphæðir þó að þessar breytingar nái fram að ganga. Ýmsir munu sjálfsagt segja að hér sé tiltölulega lítið að gert og tæpast í samræmi við væntingar sem stórkarlalegar yfirlýsingar t.d. hæstv. landbrh. í hita leiksins hér á dögunum, gátu gefið fyrirheit um. Ég fæ það best séð, herra forseti, að aðrir þættir málsins séu algjörlega óútkljáðir. Þessum litla titti hafa menn landað og er sennilega undir stærðarmörkum og væri víðast hvar bara sleppt aftur í ána. Annað er óútkljáð. Ég heyrði a.m.k. ekki hæstv. ráðherra eða þá hæstv. ráðherra sem hér hafa tekið þátt í umræðunum í sjálfu sér úttala sig neitt um aðra þætti málsins. Það hefði verið mjög fróðlegt að heyra hvað ríkisstjórnin er að öðru leyti að hugsa sér í þessu sambandi. Þá kemur sú spurning hvað menn ætla að gera gagnvart verðlagningu innlendu framleiðslunnar og innfluttu samkeppnisvörunnar þann hluta ársins sem hún er hér á markaði. Ef menn draga úr þeirri vernd sem innlenda framleiðslan nýtur í formi tolla þá hefur það að sjálfsögðu áhrif á samkeppnisstöðu þeirrar framleiðslu, það er augljóst mál. Sérstaklega er það algjörlega ljóst ef innflutt framleiðsla kæmi inn án nokkurra tolla á þeim tímum ársins þegar hún er alódýrust, þegar offramleiðsla er á markaði í Evrópu þá yrði verð á þessari vöru mjög lágt hér. Það tekur mjög djúpa dýfu ákveðinn hluta ársins á mörkuðum á meginlandi Evrópu þegar mest umframframleiðsla er á ferðinni og menn afsetja vöru nánast á gjafverði, jafnvel verulega undir meðaltalskostnaðarverði ársins en betra er að fá eitthvað fyrir vöruna en ekki neitt og menn losna þá í öllu falli við tilkostnað og vandræði sem því eru samfara að farga henni sjálfir. En það neyðast evrópskir bændur til að gera í talsverðum mæli í góðum árum þegar framleiðslan fer hvað mest fram úr eftirspurn.

Þetta þurfa menn að ræða, herra forseti, alveg eins og það liggur fyrir. Mér finnst heldur ómerkilegt að reyna að nálgast þessa hluti öðruvísi en þeir ósköp einfaldlega liggja fyrir og blasa við öllum sem vilja kynna sér málið. Geri menn þetta, dragi umtalsvert úr verndinni, þá verða menn að gera annað tveggja, að sætta sig við afleiðingarnar fyrir innlendu framleiðsluna og/eða grípa til einhverra aðgerða henni til stuðnings á móti. Bæta samkeppnisskilyrði hennar þannig að hún eigi sér einhverja lífsvon. Þar hafa menn nefnt hluti eins og þá að lækka raforkuverð til innlendu grænmetis- og garðyrkjuframleiðslunnar og það er að sjálfsögðu hið besta mál að gera það. Og það er auðvitað til skammar að þessi, við getum sagt, litli vísir að grænni stóriðju sem við eigum í formi grænmetisframleiðslunnar og þá einkum og sér í lagi í gróðurhúsunum í þessu tilliti, skuli t.d. ekki fá raforkuverð á svipuðum kjörum og þessi erlenda sorabræðsla sem við landsmenn niðurgreiðum rafmagnið til með okkar peningum. En því er ekki að heilsa. Þótt ekkert annað kæmi til en bara slíkur samanburður og slíkar grundvallarástæður ætti innlenda garðyrkjan auðvitað að eiga kost á raforkuverði á eitthvað svipuðum kjörum. Það bara, því miður, herra forseti, breytir allt of litlu. Það er eingöngu hluti framleiðslunnar sem er með einhvern kostnað sem nokkru nemur í formi raforkuverðs og lýsing og önnur raforka vegur ekki þungt þegar þetta er tekið saman í heildina. Það er því oft mikið ofmat á ferðinni á þeim þætti að samkeppnisskilyrðum innlendrar grænmetisframleiðslu almennt verði gjörbreytt bara með því einu að lækka rafmagnið eitthvað til hennar. Sá þáttur vegur ósköp einfaldlega allt of lítið til þess.

Þá hlytu að þurfa að koma til einhverjar aðrar aðgerðir og þær eru vissulega ýmsar mögulegar sem gætu lotið að því að reyna að gera öll aðföng til slíkrar framleiðslu sem ódýrust og styðja við bakið á henni af ýmsum öðrum ástæðum. Fyrir því eru fullnægjandi rök að mínu mati. Og sá sem hér stendur er ekkert feiminn við að tala fyrir því að innlend gæðaframleiðsla á þessu sviði yrði þá studd með tiltækum og leyfilegum ráðum sem auðvitað þarf að fara rækilega yfir hver eru. Og hver eru þau rök? Jú, þau eru í fyrsta lagi manneldislegs eðlis. Enginn vafi er á að það þarf að reyna að lækka þessa vöru og hún þarf að vera í boði af miklum gæðum og á viðráðanlegu verði.

Í öðru lagi er auðvitað æskilegt eða hvað, má enn þá tala þannig um hlutina að æskilegt sé að þetta sé innlend framleiðsla, og sú verðmætasköpun, þekking, atvinna, og annað sem henni tengist hér í landinu sé til staðar? Ekki léttist róðurinn í byggðamálum ef menn rústa niður garðyrkjunni. Ég sé ekki að það þjóni göfugum tilgangi nema þá að færa þá fórn eins og fleiri á altari ofurtrúar og ástar sinnar á markaðnum, heimsmarkaðnum, hinum hnattvædda markaði, að þetta sé bara eins og náttúrulögmál, eins og norðanvindurinn og verði að hafa sinn gang eins og sagt er í Grikklandi. Ég er ekki þeirrar skoðunar og er ekkert feiminn við að mæla fyrir því að þessi grein innlends landbúnaðar fengi stuðning rétt eins og sumar aðrar gera og rétt eins og gert er nánast alls staðar á byggðu bóli. Með sárafáum undantekningum er landbúnaður alls heimsins styrktur með ýmsum hætti vegna þess að þar koma til bæði manneldisleg rök, fæðuöryggi þjóða, byggðarleg rök o.s.frv.

Við erum ekki í þeirri aðstöðu hér á Íslandi að búa við svo hagstæð framleiðsluskilyrði að við getum reiknað með því að þessi grein okkar spjari sig án nokkurs stuðnings í samkeppni við þrælniðurgreiddan landbúnað nágrannalandanna. Það getum við gert í fiskveiðum okkar og það eru til þjóðir sem þurfa að gera slíkt hið sama í sínum landbúnaði eins og Nýsjálendingar af því að þeir hafa ekki úr öðrum atvinnugreinum að flytja verðmæti til að greiða hann niður eða styðja hann, en við erum í annarri aðstöðu og búum við önnur skilyrði hér.

Herra forseti. Ég hefði því gjarnan viljað heyra einhverjar fréttir af stöðu málsins í almennu samhengi og vita að eitthvað meira væri að gerast í þeim efnum heldur en þetta lítilræði í raun og veru sem hér er á ferðinni, sem þegar upp er staðið mun ekki teljast sæta miklum tíðindum og má segja að sé sjálfsagður hlutur og það minnsta sem menn gætu gert til að sýna viðleitni í kjölfar þess sem á dagskrá hefur verið í þessum efnum að undanförnu. En ég ætla að vona að einhver vinna sé einhvers staðar lötrandi á þessum vegum, hvort sem hún fer á hægu tölti, með hraða snigilsins eða liggur kyrr eins og steinvalan. Vonandi verður eitthvað af þessu að frétta innan tíðar, herra forseti. Það er að sjálfsögðu ekki efni til annars en að hleypa þessu máli áfram og stuðla að framgangi þess því að um það gildir eins og fleira af svipuðum toga að það litla sem er er þó heldur til bóta.