Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:31:13 (7550)

2001-05-11 15:31:13# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:31]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er það ekki svo að nokkur óski sér að þurfa að beita framleiðslustyrkjum eða opinberum stuðningi. Það er náttúrlega búið að koma miklu óorði á allt slíkt. Stuðningur af því tagi er engu að síður staðreynd og í margvíslegu formi víða í kringum okkur. Það vill stundum fara svo að við Íslendingar gerumst kaþólskari en páfinn í ýmsum efnum. Við höfum t.d., eins og hér kom fram fyrr í dag, rústað algjörlega skipasmíðaiðnaði okkar af því að við höfum hvorki þorað að beita þeim úrræðum sem við höfðum möguleg til að stýra verkefnum inn í landið og þaðan af síður þorðum við að beita sambærilegum styrkjum, stuðningi eða vaxtaniðurgreiðslum og nágrannaþjóðir okkar, t.d. Norðmenn, (Gripið fram í: Jón Sig.) sem hirtu af okkur verkefnin í stórum stíl fyrir vikið. Hér er nefndur í salnum fyrrv. viðskrh. sem hafði beinlínis þá lífsskoðun að það ætti alls ekki að standa í þessu hér innan lands, menn ættu að njóta góðs af niðurgreiðslunum í gegnum það að flytja skipin inn í landið.

Varðandi grænmetið þá held ég, og er ekki í nokkrum vafa um það, að ákveðin innlend framleiðsla yrði hér við lýði þó að þessu væri í sjálfu sér öllu sleppt lausu. Ég óttast þó mjög að það yrði eingöngu takmarkaður hluti markaðarins og fyrst og fremst þeir sem ekki þyrftu að horfa eins mikið í verð vörunnar sem gætu, mér liggur við að segja, látið það eftir sér að kaupa innlenda framleiðslu í krafti þess að hún er hágæðavara, holl og góð. Ég vil gjarnan sjá að þetta geti verið almenn framleiðsla fyrir alla landsmenn á viðráðanlegu verði og kjörum en gæðum hennar haldið eftir sem áður. Mér fyndist líka stórkostleg eftirsjá að því kraftaverki, sem það í raun er og hefur verið að þróast hér og er næstum því einstakt á heimsvísu, að framleiða vöru jafnvel allt árið í gróðurhúsum með lýsingu og súrefnisgjöf. Ég hvet þá sem hafa ekki þegar reynt það að fara og heimsækja Hveragerði um hávetur á björtu frostkvöldi og upplifa það að tína þar rósir.