Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:42:17 (7552)

2001-05-11 15:42:17# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:42]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hátt verð á grænmeti á landsbyggðinni er enn frekari hvati til að draga úr innflutningstollum til þess að örva samkeppni og lækka verð til neytenda. Ef við ætlum að reyna að lækka verð til neytenda á landsbyggðinni þá held ég að við gerðum það best með þessum aðferðum. Það er ákaflega erfitt, miðað við það hvernig markaðurinn er samansettur, að sjá fyrir sér að hægt sé að lækka verðið svo einhverju nemi ef áfram á að halda uppi óbreyttri stöðu innlendu framleiðendanna, eins og mér fannst hv. þm. ganga út frá.

Það er einfaldlega svo að 90% heildsölumarkaðarins eru í höndum tveggja og eftir atvikum þriggja aðila. Það þýðir einfaldlega að ekki er hægt að komast hjá einokunartilburðum nema til komi ný samkeppni. Hvaðan kemur hún? Hún getur bara komið frá útlöndum. Til þess að svo verði þarf að vera mögulegt að flytja inn grænmeti. Hvernig gerum við það? Með því að afnema þessa tolla eða lækka þá. Ég vil helst afnema þá.

Ef hv. þm., sem hefur getið sér gott orð á hinu háa Alþingi fyrir framgöngu sína á sviði forvarna og jákvæðrar manneldisstefnu, ætlar að vera sjálfri sér samkvæm og ýta undir neyslu á þeirri hollustufæðu sem framleidd er, hvernig ætlar hún að gera það öðruvísi en að reyna að lækka verðið? Hvernig ætlar hún að lækka verðið ef ekki með því að afnema þessa tolla og örva samkeppnina?