Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 15:44:03 (7553)

2001-05-11 15:44:03# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÞBack (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Þuríður Backman (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski að taka úr einum vasa og setja í annan en ég held að við stöndum frammi fyrir því að velja, þegar við erum að tala um íslenska framleiðslu, á milli þess að hafa áfram verndartolla eða, ætlum við að afnema þá, að bændur fái framlög í staðinn. Það má kalla það bein framlög. Með hvaða hætti sá styrkur yrði er ég ekki tilbúinn að segja til um núna. Við getum bara kallað það beina framleiðslustyrki.

Bændur verða að geta staðið jafnfætis þeim sem flytja inn afurðir sínar. Grænmetið er að mestu flutt inn frá Evrópu og eins og hér hefur komið fram fer verðið á því niður úr öllu þegar framleiðslan er hvað mest í nágrannalöndum okkar. Það er dýrara fyrir erlenda framleiðendur að farga vörunni en selja hana á mjög lágu verði. Íslenskir framleiðendur geta aldrei mætt þeirri samkeppni vegna þess að hér eru framleiðsluskilyrði erfiðari.

Hvað fákeppnina varðar þá tek ég undir að það sem átti að verða allra meina bót, hagræðing og vörn hins íslenska neytanda, þ.e. stórmarkaðir sem nú eru orðnir risafyrirtæki og fákeppni sem enginn ræður orðið við, heldur ekki niðri verði í landinu heldur sýnir sig að þau fyrirtæki geta haldið verðlagi háu.