Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:12:26 (7559)

2001-05-11 16:12:26# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. ráðherra spyr mig hvar ábyrgðin á verðmynduninni liggi, hvar ábyrgðin liggi á því að verðlag á grænmeti er svo hátt sem raun ber vitni, hvar ábyrgðin liggi á því að það er með rangingum búið að hafa af íslenskum neytendum sem svarar tveimur milljörðum og skuldir þeirra hækka um 1 milljarð að auki vegna þessarar háttsemi.

Ábyrgðin liggur á þremur stöðum. Hún liggur hjá smásölunum sem í krafti samþjöppunar, sem nánast er orðin að einokun, hafa hrammsað til sín mun meira en þeim er siðferðilega útdeilt.

Í öðru lagi liggur ábyrgðin hjá heildsölunum sem hafa haft með sér ólöglegt samráð sem er ekkert annað að dómi samkeppnisráðs en samsæri gegn hagsmunum neytenda.

Í þriðja lagi liggur ábyrgðin hjá landbrn.

Það er alveg ljóst að í skjóli þeirrar túlkunar sem landbrn. hefur haft á tollákvæðum þá tókst heildsölunum að stunda þessa háttsemi sína. Er það ég sem held þessu fram? Já. En í hvaða krafti? Í krafti þess sem segir í skýrslu samkeppnisráðs. Svo kemur hæstv. ráðherra og segir í reynd að ég fari með rangt mál þegar ég vísa í tiltekið bréf, svar frá hæstv. ráðherra í september. Má ég, herra forseti, lesa upp úr fréttatilkynningu sem er dagsett 3. apríl 2001 og ber yfirskriftina Álit samkeppnisráðs um samkeppnishamlandi ákvæði í lögum og reglum um innflutning á grænmeti. Þar segir, með leyfi forseta:

,,... í svari landbúnaðarráðuneytisins við fyrirspurn frá Samkeppnisstofnun frá því í september sl. kom fram að ekki sé vitað til þess að fyrirhugaðar væru breytingar á núverandi tollafyrirkomulagi.``

Hver er spurður? Landbrn. Hver svarar? Landbrn. Hver er í forsvari fyrir landbrn. og ber ábyrgð á öllu sem þaðan gengur út? Því getur hæstv. landbrh. svarað.