Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:20:37 (7564)

2001-05-11 16:20:37# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:20]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef ég veit rétt, hygg ég að í neyslu fjölskyldunnar vegi landbúnaðarvara ekki nema u.þ.b. 8% núorðið og hefur það farið lækkandi miðað við annan kostnað. En hv. þm. má þó aldrei gleyma því að þegar við skoðum verð á landbúnaðarvörum hér og í mörgum nálægum löndum, á Norðurlöndum t.d., þá erum við ekkert langt frá því verðlagi. Hinu skulum við halda fram hér að auðvitað erum við að framleiða miklar úrvalsafurðir, einhverja mestu gæðavöru heimsins og þess vegna eru þær kannski á hærra verði.

Svo er það þetta hjá þessari litlu þjóð sem er fámenn að hér virðast allir hlutir vera dýrari en annars staðar þegar farið er að reikna það út. En í raun hefur þessi þjóð það mjög gott. Auðvitað þurfum við að leita allra leiða til þess að lækka verð á matvælum. Þar skattar ríkið líka matvælin og hækkar verð. Við verðum líka að viðurkenna að þegar farið er út að borða á Íslandi þá stingur kannski annað meira í stúf, hv. þm., og það er hve rauðvínið sem við drekkum með steikinni er dýrt á Íslandi en ódýrara annars staðar. Og hvaða hönd heldur þar um? Hvaða hönd stjórnar verðlaginu þar? Það er hv. þm. og flokkurinn hans og minn.