Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:22:35 (7565)

2001-05-11 16:22:35# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:22]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég held að það sé alveg óhætt að segja að skýrsla Samkeppnisstofnunar sem afhjúpaði kannski mesta samsæri gegn neytendum sem við höfum séð í langan tíma hafi opnað ormagryfju sem þarf að hreinsa til í og það er hlutverk okkar á þingi að standa þannig að málum að hægt sé að taka þannig á því að við búum við eðlilega verðlagningu á þessari mikilvægu neysluvöru, grænmeti. Það er rétt sem hér hefur komið fram að þó hér sé vissulega verið að stíga skref í þá átt þá er auðvitað fjarri lagi að kröfu neytenda sé svarað með þessu frv.

Ég vil vekja athygli á því að það var sennilega á haustdögum í fyrra að fram kom skýrsla á hv. Alþingi sem þingmenn Samfylkingarinnar höfðu kallað eftir með beiðni til hæstv. landbrh. um að hann gæfi Alþingi skýrslu um þróun á verði grænmetis, en tilefni þeirrar skýrslubeiðni var einmitt að leiða í ljós hvaða leiðir væru færar til að lækka verð á grænmeti og auka samkeppni í greininni til að tryggja betur hag neytenda. Því var m.a. lýst í þessari skýrslubeiðni sem við fengum fyrir góðu ári síðan að mikil fákeppni og einokun ásamt gífurlega háum innflutnings- og magntollum hafi haldið uppi háu verði á grænmeti. Í skýrslunni kom og fram að ríkissjóður hefði á árunum 1995--1999 haft um 547 millj. í tekjur vegna verndartolla á grænmeti. Skýrsla þessi, sem því miður var ekki rædd á þinginu en hefði auðvitað verið full ástæða til að gera, lýsti bágri stöðu garðyrkjubænda, miklum kostnaði milliliða í grænmetisverðinu, háu raforkuverði til ylræktar, lítilli grænmetisneyslu Íslendinga og gífurlega háu grænmetisverði vegna verndartolla. Það kom einmitt fram í þeirri skýrslu að frá ágúst til nóvemberloka 1999, á aðeins þremur mánuðum, hafði grænmeti hækkað um 17--30% umfram aðrar neysluvörur. Í skýrslunni var spurt mjög afdráttarlaust þeirrar spurningar hvort ekki mætti ætla að mikil fákeppni, einokun og markaðsráðandi staða á grænmetismarkaðnum ríkti. En því var til að svara að það væri í athugun hjá Samkeppnisstofnun og væri að vænta niðurstöðu þaðan mjög fljótlega og ástæða þess skýrslan var ekki rædd var kannski að eftir þeirri skýrslu var beðið, en hún kom aldrei fram á því þingi eins og allir þekkja og kom ekki fram fyrr en núna fyrir nokkru síðan.

Ég held að það sé afar mikilvægt þegar við ræðum þetta mál að fara inn í aðra þætti sem er mikilvægt að taka á. Þó að þetta frv. gangi aðeins skamma leið þá þarf raunverulega að taka á fjórum veigamiklum þáttum í þessu máli. Það er fyrst og fremst það sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur kannski rætt hvað mest, þ.e. að taka á því sem fram kemur í þessari skýrslu um að 90% af heildsölu á grænmeti hafi í för með sér ólöglegt samráð og samkeppnishömlur og samsæri gegn neytendum. Eins og hér hefur komið fram eru litlir framleiðendur raunverulega undir hælnum á þessum fáu, stóru fákeppnisaðilum sem einoka þennan markað þannig að þar þarf fyrst og fremst að taka á fyrir utan það að afnema þessa tolla og höft, verndartolla sem við erum hér að tala um og magntollana og lækka skatta og síðan að tryggja stöðu og samkeppnishæfni garðyrkjubænda. Ég held að við þurfum að gera það. En mér hugnast að vísu ekki sú styrkjaleið sem hér er verið að nefna og tel að ýmislegt annað gæti komið þar til.

Af því að við erum að tala hér um tollana þá hafa verið hér á flökti ýmsar tölur um hvað þetta í raunverulega þýðir til neytenda, hvað ríkissjóður er að skila miklu til baka af þessum tollum að því er varðar grænmetið. Hæstv. landbrh. hefur hér nefnt tölur allt upp í 100 millj. En laugardaginn 5. maí tjáir hann sig í fjölmiðli um þetta mál. Það eru ekki nema örfáir dagar síðan. Þá talaði hæstv. landbrh. um að verið væri að lækka tolla eða fella alveg niður tolla á 30--40 tegundum grænmetis þegar frv. yrði orðið að lögum og hæstv. ráðherra segir að tollalækkunin mundi leiða til þess að tekjur ríkissjóðs af tollum á grænmeti lækkuðu um 60--70 millj. Mér finnst verulegu máli skipta fyrir neytendur hvort við erum að tala um 60--70 millj. eða 100 millj. Nóg hefur verið haft af þeim. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur nefnt hér töluna 2 milljarða sem hefur verið okrað á þeim sem neyta grænmetis.

Það er hárrétt sem hér kemur fram að mjög mikilvægt er að hæstv. landbrh. beiti til hins ýtrasta þeirri heimild sem hann mun fá frá þinginu. En hvað erum við að tala um mikið, herra forseti? Hvor talan er réttari, talan sem hæstv. ráðherra nefndi fyrir síðustu helgi, þ.e. 60--70 millj., eða þær 100 millj. sem hann nefnir í ræðustól nú? Á því er verulegur munur. Það hefur verið nefnt að heildartollatekjur ríkisins séu um 150 millj. á ársgrundvelli. Nú væri gott að enn auðveldara væri að átta sig á hvað sé verið að afnema eða fella mikið niður af þessum tollum. Ég vitnaði í upphafi máls míns í skýrslu sem kom fram á síðasta þingi. Þar koma fram tölur um heildarinnflutning á fersku grænmeti í tonnum talið. Talað er um fjögur ár, þ.e. 1995, 1996, 1997 og 1998. Að meðaltali eru það um 5.000 tonn á ári sem heildarinnflutningur á fersku grænmeti hefur verið. Hvað gætum við verið að tala um mikið, herra forseti, og ég spyr hæstv. ráðherra að því, í tonnum talið? Hæstv. ráðherra hefur nefnt það í krónum talið hvað verið sé að lækka tollana mikið. Hann hefur nefnt hér tvær mismunandi tölur eins og ég hef bent á. Hvað gætum við verið að tala um? Við erum að tala um 30 tegundir af grænmeti. En hvað gætum við verið að tala um þegar við tölum um þetta í innfluttu magni, t.d. í tonnum talið? Þar eru þekktar stærðir og ráðherrann hefur greint frá því um hvaða grænmetistegundir hér sé að ræða þannig að ég mun kalla eftir því í efh.- og viðskn. sem ég á sæti í og mun fá þetta mál til skoðunar hvað við erum að tala um mikið í því sambandi og spyr hæstv. ráðherra hvort hann geti greint frá því hér við þessa umræðu.

[16:30]

Það hefur komið fram opinberlega að hér sé um að ræða nokkrar tegundir sem eru algengar og ráðherrann hefur nefnt, en einnig er talað um að hér sé um að ræða mjög sjaldgæfar tegundir sem lítið eru notaðar og þá mun það ekki skila sér mikið til neytenda. Það er því afar mikilvægt að það komist vel til skila hvað við erum að tala um í þessu sambandi.

Mig langar að nefna eitt, herra forseti, af því að hæstv. ráðherra hefur komið inn á það að hann telji afar mikilvægt í þeim aðgerðum sem væntanlega eru fram undan, og ég verð auðvitað að treysta því að hæstv. ráðherra vinni hratt og vel í þessu efni, að fara þurfi ofan í verðmyndunina á grænmeti, hve mikið framleiðendurnir fái og hve mikið milliliðirnir fái. Hæstv. ráðherra nefnir að hann hafi kallað eftir því hjá Samkeppnisstofnun að hún upplýsi um það, og ég spyr hæstv. ráðherra: Mun hann ganga eftir því að efh.- og viðskn. fái þessar upplýsingar núna við afgreiðslu málsins? Telur hæstv. ráðherra, af því að hann hefur verið að búast við þessu á síðustu dögum, að við getum vænst þess að fá þetta við umfjöllun málsins í efh.- og viðskn.?

Ég held nefnilega og það er enginn sem heldur öðru fram, að það séu ekki framleiðendurnir eða garðyrkjubændurnir sem hafa verið að hagnast á þessu okri á neytendum. Það hefur skýlaust komið fram að þetta eru fyrst og fremst milliliðirnir. Þess vegna var m.a. kallað eftir því í einni af spurningunum sem fram komu í þessari skýrslu um grænmetismálin sem lögð var fyrir Alþingi í fyrra og ráðherrann svaraði, hvort hann teldi ekki eðlilegt að fara þá leið sem farin hefur verið t.d. með góðum árangri í Frakklandi, að skilaverð til garðyrkjubænda kæmi fram í verðmerkingum grænmetis í verslunum. Þá sæju neytendur svart á hvítu hve mikið grænmetisbændurnir sjálfir fengju í sinn hlut af því verði sem þeir borga fyrir grænmetið í versluninni og helst þyrfti auðvitað að koma fram hvernig verðmyndunin skiptist á þeim vörum sem fólk er að kaupa í versluninni. Ráðherra svaraði þá þessari spurningu orðrétt, með leyfi forseta:

,,Ráðherra er ekki tilbúinn að beita sér fyrir því að á verðmiða grænmetis í verslunum verði skylda til að skrá skilaverð til garðyrkjubænda. Ef það væri gert yrði það afar flókið og ruglingslegt kerfi, t.d. er oft bæði innlent og erlent grænmeti á markaðnum á sama tíma, þá eru dreifiaðilar grænmetis mismunandi. Stundum versla smásölufyrirtæki beint við framleiðendur og stundum við heildsölu- eða dreifingarfyrirtæki. Af þessu má ljóst vera að ekki er einfalt mál að skrá skilaverð til garðyrkjubænda og það gert hefði umtalsverðan kostnað í för með sér, bæði fyrir framleiðendur og neytendur.``

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er hann ekki tilbúinn til að endurskoða þessa afstöðu sína? Þarf þetta að vera svo flókið sem hæstv. ráðherra lýsir í skýrslu sinni? Ég held að ekkert sé eins mikilvægt og aðhald neytenda sjálfra á verðmyndun á vöru og þjónustu, og slíkar upplýsingar sem neytendur fengju held ég að mundu skila sér vel í þeirri herferð sem ég vona að hér sé hafin þar sem stjórnvöld og neytendur bindast samráði um að taka á þessu máli af festu þannig að það skili sér með eðlilegum hætti til neytenda. Um þetta spyr ég.

Ég vil einnig vísa til þess að í þessari skýrslu kemur það fram sem hér hefur verið rætt í umræðunni, þ.e. raforkuverð til ylræktar á Íslandi samanborið við önnur lönd. Gífurlegur munur er á þeim tölum sem þar koma fram, en hér segir að vorið 1998 hafi landbrn. gert í samvinnu við Samband garðyrkjubænda ítarlegan samanburð á raforkuverði til lýsingar í Noregi, Kanada og Íslandi og niðurstaðan varð sú að í Noregi og Kanada var greitt mun lægra raforkuverð til lýsingar en hér á landi og munar þar verulegu. Ég hygg að við séum að tala um, sýnist mér, a.m.k. þrefalt hærra verð hér á landi en í þessum löndum og í þeirri úttekt sem þarna fór fram.

Ég nefni líka, herra forseti, af því að hér hefur verið um það rætt og að vonum, að það gífurlega háa verð sem verið hefur á grænmeti hér á landi hafi raunverulega gengið gegn manneldisstefnu stjórnvalda. Þessar tölur sem birtast hér í skýrslu ráðherrans segja svart á hvítu að grænmetisneysla hafi staðið í stað frá árinu 1995, ekkert aukist. Samt er það svo að ég hygg að æ fleiri séu að breyta neyslu sinni verulega og auki neyslu á grænmeti. Við þekkjum það að sífellt fleiri eru að gerast grænmetisætur og neyta ekki kjöts en fara út í grænmeti, en við erum samt að sjá, herra forseti, að það er óbreytt neysla frá 1995. Hér koma fram mjög athyglisverðar tölur sem eru upplýsingar frá FAO fyrir árin 1992--1994. Þær eru að vísu nokkuð gamlar en þær sýna að neysla í 20--25 löndum sem ég er með fyrir framan mig, er í kílóum talið á íbúa á ári frá 62 kg upp í 229 kg. En hvað erum við með hér á landi? Við erum með rétt um 40 kg á árinu 1998 og í þessum samanburðartölum voru það 44 kg á móti því að það land sem er með lægstu neysluna er með 62 kg og allt upp í 229 kg. Á Norðurlöndum almennt er þessi neysla minni en þessar tölur gefa til kynna. Í Svíþjóð eru það 63 kg á árinu 1998 á hvern íbúa en hér á landi er það langlægst eða um 46 kg. Við þurfum því virkilega að taka okkur á í þessu efni, herra forseti, og því þurfa markmið okkar að vera þau að gera það á þann hátt sem nú er í umræðunni og hér hefur verið ítrekað, herra forseti, þ.e. að taka á verðmyndunarmálinu, uppræta þá fákeppni og einokun sem hér ríkir, afnema þessa verndartolla og óeðlilega skattlagningu á grænmeti og síðan að reyna að styrkja samkeppnisstöðu grænmetisbænda.

Ég vil líka spyrja, herra forseti, af því að ég var að tala um verðmyndunina, þá talaði ég um skilaverð til garðyrkjubænda og verðmerkingu á grænmeti, að ASÍ hefur lagt áherslu á --- ég hygg að það sé í þessari nefnd eða er ekki svo að ASÍ eigi þar fulltrúa? --- að önnur tillagan komi til framkvæmda þegar í stað, þ.e. að samkeppni á mörkuðum verði efld með verðkönnunum og virkari upplýsingagjöf en verið hefur. Nú má það hafa farið fram hjá mér en ég skil það svo að ASÍ hafi viljað taka það upp samhliða því skrefi sem við erum að stíga með þessu frv. Og hvað er þá að frétta af því? Ef það hefur farið fram hjá mér, þá biðst ég velvirðingar á því, en ég held að það væri mikilvægt að fá það fram. Það kemur heim og saman við þær leiðir sem ég er að tala fyrir að við förum í þessu máli.

Herra forseti. Það er út af fyrir sig ekki ástæða til að tefja þessa umræðu frekar. Við bíðum auðvitað eftir því með óþreyju hvenær næsti áfangi kemur. Er þetta það sem við munum sjá núna á þessu sumri, að þetta sé það eina raunverulega sem muni koma fram? Verður það þá ekki fyrr en á haustdögum sem næsti áfangi kemur eða hvernig hefur þetta verið nákvæmlega kortlagt?

Ég hvet hæstv. ráðherra til þess að ganga fljótt og vel í þetta verk. Komið hafa fram tölur sem segja okkur að ekki er hægt að bíða lengi eftir aðgerðum í þessu efni. Síðast kom fram í fréttum að hótel á Íslandi sem er í alþjóðlegri hótelkeðju greiðir, herra forseti, 75% hærra verð fyrir grænmeti og ávexti en hótel á öðrum stöðum í heiminum. Auðvitað hlýtur þetta að koma niður á ferðaþjónustu okkar þegar svo er. Og þetta er ekkert lítið sem kemur fram í verðinu sem ferðamenn og auðvitað Íslendingar þurfa að greiða fyrir grænmeti.

Herra forseti. Ég á sæti eins og ég sagði í efh.- og viðskn. sem mun fjalla um málið. Ég hef lagt spurningar fyrir ráðherrann sem lúta að því hvað megi vænta að þetta sé mikið magn í tonnum talið sem verndartollar verða lækkaðir eða felldir niður. Ég hef spurt hann um misræmi í tölum sem ráðherrann hefur sett fram hér og í blaðaviðtali eða viðtali við fjölmiðla nýverið. Ég hef spurt hann um verðmerkingar í verslunum og ég hef spurt hæstv. ráðherra um það sem ASÍ hefur lagt áherslu á að gert verði þegar í stað, þ.e. að samkeppni á mörkuðum verði efld með verðkönnunum og virkari upplýsingagjöf en verið hefur og vænti ég þess að hæstv. ráðherra svari þessu við umræðuna en að öðru leyti vil ég segja það að ég mun auðvitað greiða fyrir því að þetta mál fái hraða og góða meðferð og umfjöllun í efh.- og viðskn. en mun auðvitað kalla eftir þeim upplýsingum sem þarf til þess að nefndin geti afgreitt málið fljótt og vel og ég veit að hæstv. ráðherra mun liðsinna okkur í nefndinni að fá fram þær upplýsingar sem við þurfum á að halda.