Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 16:50:17 (7570)

2001-05-11 16:50:17# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, PHB
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[16:50]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á tollalögum. Við fyrstu sýn er þetta frv. nánast óskiljanlegt og mjög ógagnsætt. Í fyrirspurn til hæstv. fjmrh. las ég upp úr 40. gr. stjórnarskrárinnar og ég ætla að endurtaka það, með leyfi forseta:

,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.``

Ef grg. með frv. er lesin þá stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Breytingar þessar veita landbúnaðarráðherra aukið svigrúm til að fjölga þeim grænmetistegundum sem unnt er að flytja inn á lægri tollum eða án tolla.``

Síðar stendur:

,,Með þessari breytingu verður til dæmis unnt að lækka verðtoll um 25% en magntoll um 75% eða fella þá alveg niður.``

Og enn stendur:

,,Samkvæmt frumvarpinu fær landbúnaðarráðherra aukið svigrúm til að ákveða að hve miklu leyti tollar verða felldir niður og fer tekjutap ríkissjóðs eftir því að hve miklu leyti hann nýtir það svigrúm.``

Herra forseti. Ég fæ ekki séð hvernig það fer saman við ákvæði stjórnarskrárinnar, sem ég las hérna áðan, að hæstv. landbrh. geti spilað á tollkerfið eins og á hljóðfæri, hækkað og lækkað tolla, fellt þá niður o.s.frv. Ég vil því að hv. efh.- og viðskn. sem fær þetta mál til skoðunar skoði þetta sérstaklega, hvort öll þessi framkvæmd fái yfirleitt staðist í ljósi þeirra breytinga sem gerðar hafa verið á stjórnarskránni.

Herra forseti. Þegar ég var í sveit hefði engum dottið í hug og þótti stórmerkilegt að menn mundu einhvern tíma á Íslandi framleiða sveppi og kalla það landbúnaðarframleiðslu. Þá voru þetta bara kallaðar gorkúlur en nú er þetta orðin mjög verðmæt framleiðsla, reyndar bara einn framleiðandi og þessi eini framleiðandi nýtur tollverndar. Ég er dálítill aðdáandi sveppa og þeir kostuðu alltaf um 600 kr. og nú eru þeir komnir í 650 kr. Reyndar í gær, kannski í ljósi umræðunnar, fann ég sveppi á 550 kr. og keypti náttúrlega nokkra.

Annað grænmeti eins og paprika og því um líkt var ekki framleitt á Íslandi. Síðan taka sig til einhverjir framtakssamir menn og hefja framleiðslu á þessu grænmeti og heimta verndartolla. Ný framleiðsla fer sem sagt gang og menn heimta strax verndartolla til að hækka verð á þessari vöru innfluttri erlendis frá. Enda sagði hæstv. landbrh. að það væri honum að meinalausu og mjög eðlilegt að þær vörur sem íslenskir bændur framleiddu ekki nytu ekki tollverndar, þar er tollur felldur niður. Það sem hæstv. landbrh. er að segja er að á meðan engum bónda dettur í hug að framleiða grænmeti, þá fá neytendur þetta grænmeti ódýrt. En um leið og einhverjum bónda dettur í hug að framleiða grænmetið, þá skulu neytendur fá að borga það dýrum dómum.

Skyldi þetta auka velvild neytenda í garð bænda? Það stórefa ég.

Herra forseti. Það er slæmt að hæstv. landbrh. fer úr salnum. Herra forseti. Landbúnaðurinn er vernduð atvinnugrein og þar af leiðandi sjúk. Þegar menn búa við svo mikla verndun eins og landbúnaðurinn hefur búið við í áratugi þá hverfur öll ábyrgð af rekstri. Þeir sem reka fyrirtækin illa, reka bú sín illa, þeim er bjargað og menn komast upp með að fara út í framkvæmdir sem engan veginn borga sig. Þetta kerfi er jafnvont fyrir bændur og fyrir neytendur.

Núna þegar menn komast að því að það er dýrt að framleiða grænmeti á Íslandi þá kemur krafan um að lækka raforkuverðið. Í einhverju rómantísku augnabliki segja menn að þetta sé græna stóriðjan en þetta er að sjálfsögðu ekki græn stóriðja vegna þess að þessi starfsemi er dreifð um allt land og þeir aðilar, grænmetisbændur, kaupa ekki rafmagnið á einu bretti. Þeir eru fjöldamargir og það kostar heilmikið að selja þeim rafmagn. Hæstv. landbrh. sagði að grænmetið yxi undir íslenskri sól og regni. Það er bara ekki rétt. Það er ekkert regn inni í þessum gróðurhúsum, ekki nema úr slöngum og sólin kemur í gegnum gler. (Landbrh.: Hvaða sól?) Það getur vel verið að það sé sól en það er búið að taka heilmikið af geislum úr henni.

Sú hugljómun að endurtaka aftur og aftur að íslensk landbúnaðarframleiðsla sé góð, gæðavara, verður ekkert sannari fyrir það þó að menn segi það oft. Ég minni á súpuketið sem er selt niðursagað eins og spýtur í verslunum. Það er engin gæðavara, herra forseti, enda eru bændur í afskaplega litlum tengslum við neytendur út af allri þeirri verndun sem atvinnugreinin nýtur. Ég fullyrði, herra forseti, að bændur væru betur settir í frjálsu kerfi en án.

Nýjasta útspilið eru niðurgreiðslur, fella niður tolla og niðurgreiða. Ég hélt að menn hefðu fengið nóg af þeirri reynslu sem niðurgreiðslurnar veittu Íslendingum svo þeir mundu ekki þora að nefna það næstu áratugina en samt er það nefnt nú þegar. Svo gerist það merkilega að einhverjir aðilar stofna kjötmjölsverksmiðju, sem er mjög gott framtak. Þeir lenda í þeim hremmingum að bannað er að flytja inn kjötmjöl víðast hvar og þeir geta ekki flutt út vöru sína og þá er heimtað að ríkissjóður hjálpi. Í mig hafa hringt af þessu tilefni þó nokkuð margir aðilar í atvinnurekstri, sem eru í hugbúnaði og ýmsum atvinnugreinum, og hafa lent í svipuðum hremmingum, sumir hverjir eru við gjaldþrot eða stefna í gjaldþrot. Þeir vilja líka fá styrk, að sjálfsögðu.

Af hverju skyldi fyrirtæki sem af tilviljun tengist landbúnaði fá styrk? Þeir menn sem stofnuðu þetta fyrirtæki verða bara að taka áföllum sínum eins og annar atvinnurekstur.

Herra forseti. Fyrir tæpum tveimur árum bað ég hv. efh.- og viðskn., sem ég sat þá í, að kanna af hverju ég væri hættur að kaupa grænmeti. Einn nefndarmaður svaraði mér strax og sagði að ég væri orðinn svo nískur, en það held ég að hafi ekki verið reyndin. Ég held nefnilega að grænmeti sé orðið of dýrt og ég vil nefna sem dæmi: Í gærkvöldi ætlaði ég að kaupa mér papriku. Mér þykir paprika mjög góð. Rauð paprika kostaði í gærkvöldi 850 kr. Síðan keypti ég eina rauðgula á 800 kr. Svo keypti ég nokkra sveppi á 550 kr. Ég fann þá á sérstöku tilboði. Nú er staðan sú að þessi gulrauða paprika mín er mér mjög hugleikin og ég er að hugsa um að gefa henni nafn af því að staðan er orðin sú að grænmetið er orðið svo dýrt að maður verður eiginlega að fara að skíra hvern ávöxt. Sveppirnir, þessir fimm, ég veit ekki hvort ég á að gefa þeim nafn en það liggur við, þeir eru svo dýrir. Þetta er alveg með ólíkindum allt saman. Það eina sem maður getur keypt nú orðið er laukur, hann kostar 70 kr. kg og hefur gert lengi. Hæstv. landbrh. sagði að honum þætti vænt um störfin. Það skal sko halda þessu kerfi af því að honum þykir vænt um störfin þó að störfin skili ekki nokkrum sköpuðum hlut fyrir þjóðarbúið. Það skiptir engu og veldur því að fólk hefur ekki lengur efni á að kaupa grænmeti sem gengur þvert á allar manneldisstefnur.

Herra forseti. Ég vil að hæstv. landbrh. gefi atvinnugreininni ákveðið merki. Hann ætti að spila á hljóðfærið, ætti að fella niður tolla á þremur árum. Hann ætti að segja: Á þremur árum skuluð þið, elskurnar mínar, lifa við það kerfi að hætta að njóta tollverndar. Þá þurfa menn að standa sig og þá gæti komið upp sú staða að menn gætu farið að flytja út því að það er tómt mál að tala um það, herra forseti, sem hæstv. landbrh. er að tala um að hægt væri að flytja út grænmeti sem nýtur tollverndar. Það er tómt mál að tala um nema menn séu búnir að aðlagast því að vera án verndar. Þá geta þeir starfað á alþjóðlegum markaði nema þá náttúrlega að fara út í það að vera með útflutningsbætur eins og menn hafa stundað með afskaplega slæmum árangri í öðrum greinum landbúnaðar.

Nei, herra forseti. Ég held að hæstv. landbrh. ætti að hætta að hugsa um bændur svo sem eins og eina kvöldstund og hugsa þá um neytendur.