Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:01:54 (7572)

2001-05-11 17:01:54# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:01]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. spurði mig hvort það væri þess virði að hafa hér bændur. Að sjálfsögðu vil ég hafa bændur. Ég vil hafa bændur sem eru stoltir, frjálsir og standast samkeppni. Til þess þurfa þeir að kynnast markaði og hafa frelsi, sem þeir hafa ekki í dag. Allt okkar landbúnaðarkerfi gengur út að taka af mönnum frumkvæði og frelsi. Það hefur komið bændum mjög í koll, enda eru fáar stéttir í landinu með eins lág laun, sérstaklega sauðfjárbændur sem hafa verið verndaðir hvað mest.

Hvort hér eru garðyrkjubændur er önnur saga. Efalaust eru til ýmsar tegundir grænmetis, rófur, kál og annað slíkt, sem bændur gætu framleitt hér ódýrar en annars staðar, jafnvel blóm. Hins vegar er líka til grænmeti sem hreinlega borgar sig ekki að rækta á Íslandi vegna legu landsins. Það er fráleitt að ætla sér að að breyta legu landsins með því að byggja upp eitthvert verndartollakerfi.

Mér þætti fráleitt ef íslenskir bændur ætluðu t.d. að fara að framleiða banana eða appelsínur sem þeir gætu efalaust. Það er fráleitt. Það er ekki sama hvað bændur gera. Það er einmitt það sem hv. þm. þarf að skoða sérstaklega. Það brýtur niður atvinnugreinina að vernda hana til að gera hvaða vitleysu sem er.