Tollalög

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 17:25:06 (7580)

2001-05-11 17:25:06# 126. lþ. 120.47 fundur 731. mál: #A tollalög# (grænmetistegundir) frv. 86/2001, landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[17:25]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ef það er þörf á að tala af virðingu um stjórnmálaflokkana, þá held ég að banka mætti í kollinn þegar menn tala eins og hv. þm. gerir hér. (ÖS: Þú kallaðir mig aumingja.) Aumingja. Ég nefndi ekki aumingja á nafn, tengdi það ekki nafni hv. þingmanna. (ÖS: Þú gerðir það víst.) Ég nefndi ekki aumingja á nafn. Ég sagði aumingja Samfylkingin. (ÖS: Þetta er þér til skammar.) Ég nefndi ekki aumingja á nafn. Það var þín fullyrðing. Hins vegar blöskrar mér málflutningur hv. þm. og get ekki annað en gert athugasemdir við hann og geri kröfu um að einhver annar úr Samfylkingunni verði hér. Ég talaði um að varaformaðurinn sem hefur þó eitthvert vit á grænmetismálum og landbúnaðarmálum verði við næstu umræðu um þessi mál því að sérfræði þessa hv. þm. er með þeim hætti að ekki er hægt að hlusta á þetta bull.

Hvað varðar alþjóðasamningana vil ég segja að svörin frá Brussel eru kannski líka lengi á leiðinni, ekkert síður en úr landbrn. (Gripið fram í.) Já. Þetta er ekkert einfalt mál. Og það liggur fyrir að í stuðningi við íslenskan landbúnað erum við kannski komnir upp undir þakið. Hvað eigum við mikið gert? Þetta eru spurningar sem ég hef rætt við mína menn um að finna út úr og fara yfir ef til beins stuðnings, framleiðslustyrkja, ætti að koma.

Ég las það fyrr í dag að hér hafi verið skipuð svokölluð grænmetisnefnd þar sem eru aðilar atvinnulífsins, bænda, verkalýðshreyfingarinnar o.s.frv. sem fjalla um þessi mál, og þeir ætla að skoða þetta enn þá frekar núna. Hv. þm. var svo prúður fyrri part dagsins að hann sagðist vera sáttur við það sem hér væri að gerast og skyldi glaður bíða þeirrar niðurstöðu. En síðan ærist hann í lok dagsins og þá er allt ómögulegt. Þetta er enginn málflutningur og engin leið að búa við þau gífuryrði sem hv. þm. hefur tamið sér sem að auki heitir nú orðið stjórnmálaforingi. Ég harma það að menn geti ekki talað með meiri ró og meiri þekkingu í þessari umræðu.

Það kann vel að vera að það veki umhugsun að ég geti ekki svarað því hér hvort þetta þýðir í niðurfellingu tolla 50, 70 eða 100 millj. En þarna greinir menn á og það á eftir að koma í ljós eins og ég sagði áðan hvaða tillögur þeir aðilar gera sem alltaf koma að þessum málum með landbrh. og leggja málið upp í hendur hans. Þá á ég við fulltrúa fjmrh., viðskrh. og landbrh. sem þarna koma að.

Að öðru leyti vil ég þakka fyrir ræðu hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar hér fyrr í dag og allar þær málefnalegu umræður sem hér hafa verið í dag og helst gleyma því offorsi og stælum sem hann viðhafði í seinni ræðu sinni.