Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 18:09:41 (7587)

2001-05-11 18:09:41# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[18:09]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það eru tvö atriði varðandi ræðu hv. þm. sem ég vil koma inn í umræðuna núna í andsvari og þakka henni fyrir málefnalega ræðu. Það er varðandi sveigjanleg starfslok og ákvæði sem er í skýrslu nefndarinnar um það. Frekari tryggingafræðilegir útreikningar þurfa að fara fram varðandi þau og ég hyggst flytja um það efni frv. á haustþingi. Málið var einfaldlega ekki tilbúið á þessum skamma tíma til að leggja það fyrir á vorþingi en ég hyggst bæta úr því.

Varðandi svo kynninguna á málinu er frv. flutt í beinu framhaldi af tillögum skýrslunnar og það er í samræmi við hana. Það kann að vera að það megi lesa út úr þessari kynningu eitthvað hliðstætt og hv. þm. gerði en það ber að lesa út úr þessu nákvæmlega það sem er í skýrslunni. Hins vegar vil ég taka fram að ekki er verið að blekkja neinn með þessari kynningu því að það var búið að kynna fulltrúum aldraðra og öryrkja skýrsluna áður en þessi blaðamannafundur var og fundað sérstaklega með þeim um það þannig að ég hef ekki komið að neinu leyti aftan að þeim í þessu máli. Þeim var kunnugt um öll efnisatriði varðandi þetta. Ég vil taka það fram.

Varðandi ummæli um næstu skref þá vil ég skoða nákvæmlega hvernig má halda áfram endurskoðun almannatryggingalaga og mun koma að því aftur í seinna andsvari.