Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 18:17:58 (7591)

2001-05-11 18:17:58# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[18:17]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hefur kynnt frv. til laga um breytingu á lögum um almannatryggingar og lögum um félagslega aðstoð.

Mig langar til að geta þess í upphafi að nokkur nýlunda er að hæstv. ráðherra kynnti hagsmunaaðilum og stjórnarandstöðunni frv. áður en hann kynnti það fyrir blaðamönnum og það finnst mér virðingarvert. Ég vona að það verði öðrum ráðherrum til eftirbreytni því að ég efast ekki um að hæstv. heilbrrh. muni halda þeirri vinnureglu áfram enda er svo stutt síðan hann var sjálfur óbreyttur þingmaður. Herra forseti, ég treysti því þó svo hann heyri ekki til mín, að hann viti hug okkar til þess hve mikils við mátum að hann fór þessa leið.

En nokkur orð um frv. Það er rétt sem hér hefur komið fram að viðbrögð Morgunblaðsins eftir þessa kynningu eru auðvitað viðbrögð ákveðinna blaðamanna en mig langar, hæstv. forseti, til að lesa stutta tilvitnun í orð hæstv. ráðherra, Jóns Kristjánssonar, í Morgunblaðinu frá 9. maí, með leyfi forseta:

,,Mestu máli skiptir að hér eru bætt kjör þeirra sem verst eru settir og einnig er dregið úr skerðingu til öryrkja vegna atvinnutekna, þar sem 40% tekna þeirra eru teknar til hliðar áður en til skerðingar kemur. Þetta hefur verið áhersluatriði af þeirra hálfu og er að mínum dómi afar mikilvægt. Það þýðir að tekjur öryrkja verða ekki skertar þó að þeir fari út á vinnumarkaðinn eftir getu og aðstæðum hverju sinni.``

Herra forseti. Þetta frv. er viðbrögð við svokölluðum hæstaréttardómi, öryrkjadómi, sem var kveðinn upp í janúarmánuði. Við þeim dómi var brugðist með breytingu á lögum og nú var í rauninni verið að ganga skrefinu lengra en þá var gert og draga úr þeim mismun sem er á milli bóta þeirra sem búa einir og þeirra sem eru í sambúð. Þetta er skref í þá átt.

Eftir að þau lög voru sett var það kynnt að endurskoðun á almannatryggingalöggjöfinni yrði hraðað til að bæta enn frekar kjör öryrkja og taka tillit til bóta ellilífeyrisþega. Einhvern veginn liggur það í loftinu að sú kjarabót sem hér er kynnt hafi orðið þó nokkrum vonbrigði svo ekki sé meira sagt, sérstaklega þegar fréttatilkynning eins og þessi sem ég var að lesa upp er síðan ekki rétt, þar sem maður gæti túlkað það þannig að 40% tekna, sem sé allra tekna öryrkja, væru teknar til hliðar. Þetta er því misvísandi. Ég er ekki undrandi á því að bæði ellilífeyrisþegar og öryrkjar hafi orðið fyrir nokkrum vonbrigðum með þetta frv.

Lagt er til að sérstök heimilisuppbót verði kölluð tekjutryggingarauki og það er ágætismál ef hægt er að einfalda þessa löggjöf. Dregið er úr skerðingu. Skerðing tekjutryggingaraukans lækkar úr 100% niður í 60%. En þegar maður les þetta vel er eingöngu verið að tala um tekjutryggingu og heimilisuppbót. Það er ekki verið að tala um allar bætur.

Við munum örugglega ræða þetta betur og fara vel yfir frv. í heilbr.- og trn. því að það er kannski ekki eins einfalt og það lítur út fyrir að vera þegar maður les það við fyrstu yfirferð. Þetta er ekki langt frv. og ekki flóknar breytingar að sjá en trúlega þarf maður að skoða þetta nokkuð vel til að átta sig á því hvaða bætur þetta eru í raun því að almannatryggingakerfið er eins og margstöguð flík og erfitt að skoða þetta í samhengi við annað.

Einnig eru uppi deilur um það við hvað á að miða þegar við erum að tala um hvort bætur hafi haldið verðgildi sínu, hvort bætur almannatrygginga hafi hækkað eins og laun á almennum vinnumarkaði. Um þetta getum við lengi deilt en fram hefur komið mjög mikil gagnrýni á að grunnlífeyrir hafi ekki hækkað, að þar hafi ekki orðið raunhækkun eins og í almennri launaþróun. Þetta tel ég að hv. heilbr.- og trn. verði að skoða mjög gaumgæfilega og hafa þetta á hreinu því að það er mismunandi túlkun á því hvar við stöndum varðandi þær bætur sem hér er verið að leggja til.

Útgjöldin eru áætluð um 1.350 millj. á ári en af þeirri upphæð mun ríkið fá til baka einhverjar skatttekjur. Við vitum ekki enn hversu háar þær verða, við höfum ekki enn þá fengið þá útreikninga, þannig að þetta eru ekki heildarútgjöld. En kannski þessi upphæð segi okkur enn frekar hvað í raun elli- og örorkulífeyrisþegar hafa dregist aftur úr, ég tala nú ekki um ef ekki hefur orðið raunhækkun á grunnlífeyri. Ég legg því áherslu á að við þurfum að hraða heildarendurskoðun og þó að búið sé að horfa á þetta í 10--15 ár, þá verður að halda áfram þeirri vinnu sem hafin er núna og reyna að einfalda almannatryggingakerfið. Það er mjög flókið og það verður flóknara eftir þessa löggjöf. Það er alveg ljóst varðandi þessar bætur.

Ég vil taka fram að þetta er jákvætt skref. Það er ekki eins stórt eins og ég vænti eftir þá umræðu sem við áttum hér eftir áramótin en ég vænti þess að þetta mál verði skoðað mjög gaumgæfilega í heilbr.- og trn. og við verðum að gefa okkur tíma til að fara vel yfir það þrátt fyrir að tíminn til loka þingsins sé knappur, þá verðum við að reyna að átta okkur á því hvaða bætur þetta eru í raun.