Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 18:57:40 (7596)

2001-05-11 18:57:40# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[18:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég gæti hugsað mér við aðrar aðstæður að halda langa ræðu til þess að mótmæla þeirri hugmyndafræði sem felst í málflutningi hv. þm., en ég hef ekki tíma til þess eða aðstæður nú. Ég ætla sérstaklega þó að mótmæla einu og það er að það hafi verið samstaða á bak við einhverja lágtekju- eða fátæktarhjálparhugsun í almannatryggingakerfinu á Íslandi í gegnum tíðina. Svo er ekki. Staðreyndin er sú að þar hefur þróunin verið í öfuga átt að undanförnu. Hv. þm. ætti að þekkja t.d. að ellilífeyrir á Íslandi hóf göngu sína sem ótekjutengdur grunnlífeyrir. Þar á ofan kom svo til viðbótar tekjutengd tekjutrygging o.s.frv. En með óhóflegum tekjutengingum sem enduðu og náðu hápunkti sínum í því að allt var orðið tekjutengt núna seint á 10. áratugnum, þar með talið barnabætur að fullu, grunnlífeyrir elli- og örorkubóta o.s.frv., þá voru menn komnir svo langt út í þetta fen að nú eru menn aðeins að byrja að snúa ofan af því. Í hvaða átt? Í þessu frv. m.a. sem hv. þm. fagnar allt til skandinavísku hugsunarinnar að það eigi að vera einhver ákveðinn grunnur og menn eigi að geta bætt eitthvað aðstæður sínar án þess að tryggingabæturnar hverfi þar að fullu á móti. Þegar hv. þm. t.d. fagnar því að nú geti öryrkjar unnið og bætt stöðu sína að 6/10 með þeim breytingum sem hér er verið að gera, þá er verið að fara í þá átt sem hv. þm. talar svo gegn. Það er nefnilega þannig. Hugmyndafræðin sem þarna er á ferðinni er vel þekkt í uppbyggingu tryggingakerfa í heiminum, stundum kennd við Nýja-Sjáland, stundum Ameríku, stundum kölluð rómanskt kerfi og byggir í raun og veru á þeirri fátæktarhjálparhugsun að það eigi eingöngu að bjarga mönnum upp að einhverjum lágmarks framfærslu- eða þurftarmörkum og þar eigi kerfið að enda. Ef það dugir svo ekki til eigi kirkjan að sjá mönnum fyrir súpu o.s.frv.

Það er dapurlegt, herra forseti, að heyra svona ræður á Norðurlöndum á þessum árum.