Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 19:06:37 (7600)

2001-05-11 19:06:37# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[19:06]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. kallar á langa ræðu í þinginu en ég ætla ekki að fara að lengja þessa umræðu og ætla að koma með athugasemdir í andsvari.

Ég verð að mótmæla því, sem hv. þm. sagði, að frv. ríkisstjórnarinnar í kjölfar öryrkjadómsins væri til að auka sjálfstæði kvenna. Það getur vel verið að það hafi verið eitthvað í áttina en við skulum gera okkur grein fyrir því að næstum því allir sem lenda í þeim skerðingarreglum sem gilda enn um maka eru konur. Það eru 98% eða næstum alfarið konur sem verða fyrir þeim skerðingum sem ríkisstjórnin heldur enn við lýði í sambandi við tekjutrygginguna.

Varðandi það að ríkið eigi að framfæra alla sem komast yfir ákveðinn aldur þá hefur enginn verið að halda því fram. Þess vegna erum við með tekjutengingar gagnvart eigin tekjum einstaklinga og það er sátt um það. Þær hafa verið of miklar en það er leiðin sem við verðum að fara og ætlum að fara til að enginn þurfi að búa við fátækt, til að enginn þurfi að búa við örbirgð þó að hann verði gamall og geti ekki séð sér farborða og eigi lítinn rétt annars staðar.

Hv. þm. talaði um það í ræðu sinni að verið væri að veita aukið fjármagn til almannatrygginganna. Ég verð að segja að þó að hér sé verið að setja rúman milljarð inn í tryggingakerfið er það staðreynd að ekki hefur verið staðið við þau lög sem gilda um þennan hóp þar sem er ákvæðið um að upphæðir almannatryggingabótanna skuli fylgja launaþróun. Ekki hefur verið staðið við það og með þessari viðbót er enn þá sá verst setti með tvö þúsund kr. lægri bætur en ef almennri launaþróun hefði verið fylgt.

Að síðustu: Það er bull, herra forseti, það er bull að þeir sem eru verst settir á Íslandi, þ.e. öryrkjarnir eða lífeyrisþegarnir, séu betur settir hér en á Norðurlöndunum. Við getum farið út í langa umræðu um það. Ég er með allar tölurnar á hreinu og menn geta borið saman upphæðirnar.