Almannatryggingar og félagsleg aðstoð

Föstudaginn 11. maí 2001, kl. 19:10:53 (7602)

2001-05-11 19:10:53# 126. lþ. 120.48 fundur 732. mál: #A almannatryggingar og félagsleg aðstoð# (grunnlífeyrir, tekjutryggingarauki, frítekjumark o.fl.) frv. 93/2001, ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 126. lþ.

[19:10]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Vegna umræðu um hvort bæturnar hafi fylgt launaþróuninni þá hafa þær ekki fylgt launavísitölunni sem er sú viðmiðunartala sem við eigum að bera okkur saman við. Ég legg til við hv. formann heilbr.- og trn., sem mun taka málið fyrir strax á morgun, að við köllum eftir því og við skulum fara yfir það í nefndinni hvort þetta hafi fylgt launaþróun, hvort upphæðir almannatryggingabóta hafi fylgt launavísitölunni.

Vegna umræðunnar um stöðu lífeyrisþega á Norðurlöndum og á Íslandi og að halda því fram að t.d. öryrki sem engar aðrar bætur hefur en almannatryggingarnar sé betur settur á Íslandi en á Norðurlöndum, þá ætla ég að nefna tölurnar. Í dag er sá öryrki með 73 þús. kr. Hann hækkar upp í 80 þús. kr. með þessari ráðstöfun sem er vissulega til bóta. Í Noregi er hann með 140 þús. kr. íslenskar --- það eru tölur frá því fyrir ári, ég geri nú ráð fyrir að það hafi hækkað --- og í Danmörku 130 þús. kr. og það eru líka tölur frá því í fyrra. Og leggi nú hv. þm. saman og dragi frá og hvor er nú betur settur, íslenski öryrkinn með 80 þús. kr. eftir þessa hækkun eða lífeyrisþeginn á Norðurlöndunum með hátt á annað hundrað þús. kr. Og það eru bara grunnupphæðirnar sem hann á rétt á. Þetta fengum við upplýsingar um í nefndinni og við erum með tölur um það og allar upphæðir.

Reyndar má geta þess, herra forseti, að fulltrúarnir frá heilbrrn. sem sendu okkur þessar upplýsingar sendu okkur tölurnar um ellilífeyrisþegana en ekki öryrkjana þegar þeir sendu okkur upphæðirnar. En örorkutölurnar eru í NOSOSKO-bókinni og það er enginn vandi að verða sér úti um þær.