Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:29:54 (7609)

2001-05-12 17:29:54# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um störf þingsins vegna þess að við erum kvödd saman til að verða vitni að því að hér er verið að dreifa frv. til laga sem á að binda endi á verkfall sjómanna. Við höfum áður spáð því að þetta yrði það sem útgerðarmenn hafa verið að bíða eftir, það sem þeir vilja og hafa allaf getað gengið að sem vísu. Ég verð að segja, herra forseti, að ég mótmæli fyrir hönd Samfylkingarinnar, fyrir hönd okkar allra í þinginu mótmæli ég þessum vinnubrögðum. Þetta eru vinnubrögð sem ekki er við unandi, herra forseti, og það er alveg skelfilegt til þess að vita að ríkisstjórnin skuli grípa til þeirra án þess að hafa nokkurt samráð við stjórnarandstöðuna. Menn eru jafnvel gripnir upp úr sundlaugum í borginni til að geta mætt til þingfundar og verið vitni að þessum ósköpum. Hvernig stendur á þessu, herra forseti? Hvar eru þeir sem eru ábyrgir fyrir þessu? Hvar eru þeir? Er það kannski svo að í liði stjórnarinnar eru menn líka ósammála um þetta?

Herra forseti. Ég mótmæli þessum vinnubrögðum. Mér finnst þetta fráleitt. Mér finnst þetta vanvirða við þingið.