Frumvarp um lög á verkfall sjómanna

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 17:31:00 (7610)

2001-05-12 17:31:00# 126. lþ. 121.92 fundur 538#B frumvarp um lög á verkfall sjómanna# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[17:31]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja virðulegan forseta fyrst: Er virkilega rétt að til standi hér á eftir að dreifa frv. um lög á verkfall sjómanna án þess að svo mikið sem þingmenn, stjórnarandstaðan, sé vöruð við því að það standi til? Mér er ekki kunnugt um að með boðun þessa þingfundar hafi fylgt nein skilaboð um að slíkt væri í vændum. Það er hrein óhæfa, herra forseti, í vinnubrögðum og framkomu við okkur þingmenn.

Ég sé mig knúinn til þess að mótmæla þessum vinnubrögðum mjög harkalega, hvað varðar bæði þetta sem lýtur að lágmarkskurteisi og mannasiðum í samskiptum innan þingsins og svo hinu sem snýr að efni þessa máls.

Þetta er ákaflega óskynsamlega og ógæfulega að verki staðið af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Þetta er ólýðræðislegt. Þeir frestir sem byggðir eru inn í þingsköpin hvað varðar framlagningu mála og bil milli umræðna og annað því um líkt, herra forseti, eru það ekki að ástæðulausu. Þeir eru einmitt til þess að ekki sé hægt í skjóli nætur eða myrkurs að smygla góssi í gegnum þingið heldur hafi menn eðlilegan aðgang að málum, eðlilegan tíma til þess að kynna sér þau og þar fram eftir götunum. Ég mótmæli því þessum vinnubrögðum mjög harðlega, herra forseti, og spái því að það verði þeim til lítillar sæmdar og lítillar gæfu sem ætla að vinna málum sínum brautargengi með þessum hætti. Auðvitað sannar þetta það sem því miður hefur legið í loftinu, að útvegsmenn gætu gengið að því vísu þegar þeim hentaði að ríkisstjórnin mundi skera þá niður úr snörunni, enn einu sinni brjóta á rétti sjómanna, verkfallsrétti og samningsrétti með þeim hætti sem nú virðist vera í vændum, herra forseti.

Ég mótmæli þessu og tel þetta dapran dag í sögu þingræðis og lýðræðis á Íslandi.