Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:37:12 (7622)

2001-05-12 18:37:12# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Mér þykir nú vænt um að heyra að hæstv. forseti hefur fengið málið því það var eins og það væri frá honum tekið hér fyrr á þessum fundi þegar hæstv. forseti svaraði ekki spurningum sem þingmenn báru fyrir hann. Hæstv. forseti sýndi þingmönnum með því einstakt virðingarleysi við stjórn þingsins, við fundarstjórn sína, og henni mótmæli ég. Þetta var slök fundarstjórn af hálfu hæstv. forseta og ég geri alvarlegar athugasemdir við hana.

Herra forseti. Ég mótmæli í öðru lagi þeim leiðindavinnubrögðum sem hæstv. forseti lætur hér viðgangast eða stendur fyrir eftir atvikum, hvernig það eigi að orðast. Ég mótmæli þeirri mannréttindaskerðingu sem hér á að læða inn á dagskrá Alþingis á þennan hátt í þessu frv. gagnvart sjómönnum og að það eigi að svipta þá með þessum aðferðum samnings- og verkfallsrétti og setja á þá lög, að því er virðist við fljóta athugun á þessu frv., með einstaklega fantalegum hætti. Ég vil vekja athygli virðulegs forseta á því að hér er ekki verið að dreifa einföldu frv. um stöðvun verkfalls sjómanna. Hér er verið að dreifa bandormi sem á að breyta mörgum lögum á sviði sjávarútvegsmála, fella úr gildi heil lög, t.d. um Kvótaþing. Þetta plagg hefur því ekki orðið til á nokkrum mínútum, herra forseti. Og það afhjúpar algjörlega framkomuna við þingmenn og þingið að við fáum hér í hendur frv. sem greinilega hefur tekið langan tíma að semja og samt átti að vinna að þessu með þessum hætti, að læða því hér inn á útbýtingarfundi án þess að aðvara þingmenn um það. Ég sé það á hæstv. forseta að hann er ekki stoltur af þessum vinnubrögðum. Það er kannski von að hann sé þögull og e.t.v. fer best á því að hæstv. forseti sé þögull við þessar aðstæður því hvað ætti hann svo sem að segja, virðulegur forsetinn, þegar menn standa frammi fyrir vinnubrögðum af þessu tagi?

Ég hlýt líka að harma mjög það sem hæstv. sjútvrh. lætur hafa sig í eða gerir hér eða stendur fyrir. Þetta er ekki gæfulega fram gengið hjá einum hæstv. ráðherra, nýlega komnum í það embætti. Hann er ekki að sá til farsældar í störfum sínum (Forseti hringir.) með vinnubrögðum af þessu tagi.

Herra forseti. Ég mótmæli þessu öllu saman, þessari óvenjulegu og fráleitu fundarstjórn og framkomu við þingið. Ég held að stjórnarandstaðan neyðist til þess að endurskoða verulega samskipti sín við virðulegan forseta þegar við megum ítrekað sæta hlutum af þessu tagi þegar harðnar á dalnum. Þá kemur í ljós hverjir ráða hér lögum og lofum um þinghaldið. Ég hlýt að taka undir það að þetta er heldur dapurlegt dæmi þess hvernig Alþingi Íslendinga er í gíslingu framkvæmdarvaldsins og störfum þess er hagað eftir því sem aðilum úti í bæ virðist henta.