Vinnubrögð við fundarboðun

Laugardaginn 12. maí 2001, kl. 18:51:50 (7630)

2001-05-12 18:51:50# 126. lþ. 121.91 fundur 537#B vinnubrögð við fundarboðun# (um fundarstjórn), SJS
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 126. lþ.

[18:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hafi þessar umræður á einhvern hátt verið ómaklegar í garð hæstv. forseta þá er það vegna þess að hæstv. sjútvrh. hefur komið illa fram við hæstv. forseta og ekki upplýst hann um það hvað væri að gerast. Þetta var einhver allra skrautlegasta málsvörn sem ég hef lengi heyrt, þegar hæstv. sjútvrh., sem er ítrekað á undanförnum dögum búinn að undirstrika vilja sinn til þess að deiluaðilar leysi málin sjálfir, kemur hér og segir að auðvitað hafi hann ekki þorað annað en láta undirbúa lagasetningu. Hún er nokkuð vel undirbúin. Eins og ég vakti athygli á áðan, þá er þetta bandormur sem gerir viðamiklar breytingar á mörgum lögum á sviði sjávarútvegs. Það hefur meira að segja unnist tími til þess síðan síðdegis í dag að fá umsögn fjárlagaskrifstofu fjmrn. þannig að hér hefur verið vel að verki staðið. Það er ekkert smáræði sem þeir afkasta núna. Þarna er ekki hraði snigilsins.

Nei, herra forseti, vegna þeirra orða sem hæstv. forseti lét falla og vitnaði í þingsköp um þingtæknileg atriði og fresti, þá erum við ekki að ræða um þá hluti. Við erum að ræða um samskiptavenjur. Við erum að ræða um mannasiði og við erum að ræða um stórpólitískt mál. Þessi umræða snýst ekki um tæknilegt mál. Hún snýst um þá mannasiði að stjórnarandstaðan frétti það ekki síðust allra að grípa eigi til afdrifaríkra aðgerða af því tagi að setja lög eftir þessa löngu og erfiðu deilu.

Þegar verkfalli sjómanna var frestað í vetur þá voru þó viðhafðir þeir lágmarksmannasiðir að kalla í forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna snemma þann dag. Við fengum nokkurra klukkustunda frest til að skoða málið áður en gert var heyrinkunnugt hvað í vændum væri. Þá var a.m.k. sýnd einhver viðleitni en það sjá auðvitað allir þau vinnubrögð sem hér eru á borð borin.

Herra forseti. Ég ítreka mótmæli mín við því hvernig allt þetta ber að. Ég harma að hæstv. forseti skuli vera þátttakandi í þessu með þeim hætti sem við höfum orðið vitni að, gengisfelli sjálfan sig með því að svara ekki einu sinni spurningum og sýni ekki viðleitni í þá átt að sýna þingmönnum þá virðingu að svara þeim. Ef hæstv. forseti hefði fyrr á fundinum sagt að hann hefði því miður ekki upplýsingar til að geta svarað spurningunum þá hefði það verið svar í sjálfu sér, ekki beysið að vísu en þó einhver viðleitni til að gera grein fyrir stöðu mála. En hæstv. forseti sat sem dumbur væri og virti menn ekki þeirrar virðingar að svara spurningum þeirra. Ég man aldrei eftir því að forseti á Alþingi hafi staðið þannig að málum.