Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:01:56 (7641)

2001-05-14 10:01:56# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), GAK
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:01]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Um kl. 16.30 sl. laugardag bárust mér þau boð þar sem ég var staddur vestur á Ísafirði að boðað væri til áríðandi fundar í Alþingi vegna útbýtingar nýrra þingskjala. Ekki lágu fyrir upplýsingar hjá starfsmönnum þingsins um hvaða mál væri að ræða en á sama tíma og þeim sem hér stendur voru ekki veittar upplýsingar um hvað stæði til voru fréttir komnar inn á visir.is um að verið væri að leggja fram frv. á Alþingi sem bannaði aðgerðir sjómanna til þess að knýja fram þolanlegan kjarasamning milli deiluaðila.

Herra forseti. Svona vinnubrögð hjá forseta þingsins finnst mér óþolandi. Þau sýna í raun þá lítilsvirðingu að sjálfsagt sé að láta málefni leka til fréttamanna á sama tíma og þingflokksformönnum stjórnarandstöðunnar er neitað um upplýsingar. Ætlar hæstv. forseti að halda því fram við þjóð sína að hann hafi ekki vitað í upphafi fundar hvað væri að gerast eða var það samherjahjartað í forsetanum sem var svo skemmt að hann mátti ekki mæla og sat í ræðustól steinþegjandi og vildi ekki greina frá málum?

Herra forseti. Í sjónvarpinu vestur á fjörðum var mikill leiðindasvipur á hæstv. virðulegum forseta Alþingis í vinnunni hér í stólnum enda sjálfsagt fundist að þingmenn væru með óþarfauppsteit. Þeim kæmi málið ekki við.

Herra forseti. Ég mótmæli vinnubrögðum þínum sl. laugardag. Vel má vera ljóst að ríkisstjórnin og framkvæmdarvaldið ráða öllu í hv. Alþingi.