Vinnubrögð við fundarboð

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:18:49 (7654)

2001-05-14 10:18:49# 126. lþ. 122.91 fundur 540#B vinnubrögð við fundarboð# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:18]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Að gefnu tilefni og vegna yfirlýsinga hæstv. forsrh. áðan um að hér kæmi fram gagnrýni á að þingmenn fengju þingskjöl í hendur, þá erum við ekki að gagnrýna að hafa fengið þingskjöl í hendur. Við erum að gagnrýna að hafa ekki fengið vitneskju um hvað til stæði að gera til þess að tryggt væri að við fengjum þessi þingskjöl í hendur. Það sem gerðist hér þennan laugardag var að þingmenn stjórnarflokkanna voru boðaðir til fundar í þinghúsinu til þess að gera þeim grein fyrir frv. og hvað til stæði að gera. Stjórnarandstaðan fréttir þetta hins vegar á skotspónum og í fjölmiðlum.

Varðandi hlut hæstv. forseta þá vil ég beina þeirri spurningu til hans hvort hann telji ekki ástæðu til þess að svara því úr forsetastóli þegar beint er til hans spurningum sem lúta að starfi hans, stjórn þingfundar og störfum þingsins. Og ég spyr hvort hæstv. forseti þingsins ætli ekki að svara þeirri gagnrýni sem ég setti hér fram áðan og ábendingum og spurningum um að samhliða hafi farið fram þingfundur og starf í nefndum. Ég óska eftir svörum um þetta.

Ég ætla hins vegar ekki að gera að umræðuefni upphlaup hæstv. forsrh. hér áðan en minna hann á eigin ráðleggingar, að mönnum sé hollt að reyna að halda ró sinni.