Afbrigði

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:22:22 (7656)

2001-05-14 10:22:22# 126. lþ. 122.95 fundur 544#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:22]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Skyndileg ákvörðun um að setja lög á sjómenn er fyrir það fyrsta stórpólitískt mál og mikið deilumál, þess held ég að allir hafi mátt vænta. Í öðru lagi er ljóst að þetta raskar öllum þeim áformum sem hér var unnið eftir og tengdust áformum um að ljúka störfum þingsins nú á föstudaginn kemur. Af þessum sökum einum þarf náttúrlega ekki að rökstyðja það frekar hversu fautaleg framkoma ríkisstjórnarinnar undir forustu hæstv. forsrh. og forseta þingsins var í garð stjórnarandstöðunnar að, að því er virðist, leyna hana vísvitandi upplýsingum um hvað í vændum var sl. laugardag. Það er með öðrum orðum, herra forseti, ekki óskað eftir samstarfi við stjórnarandstöðuna um þetta mál. Það er algjörlega kristaltært. Þvert á móti er valin sú leið að gera þetta með eins illu og nokkur kostur er.

Ríkisstjórnin verður þá auðvitað að sitja uppi með það að hún velur sér þau vinnubrögð að vilja gera hlutina með valdi og ofbeldi og eins illu og henni er nokkur kostur og best er að hún fái að súpa seyðið af því. Ég greiði atkvæði gegn því, herra forseti, að standa svona að málum.