Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:26:01 (7659)

2001-05-14 10:26:01# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, sjútvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:26]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira.

Því miður er nauðsynlegt að mæla fyrir þessu frv. Eftir sex vikna sjómannaverkfall, lengsta verkfall sjómanna í 20 ár og sennilegast, að því er mér er tjáð, lengsta allsherjarverkfall sjómanna í sögunni er engin von um að leysast muni úr verkfallinu. Þrátt fyrir að hluti deiluaðila hafi náð samkomulagi tjá aðrir deiluaðilar mér að engin von sé um að samkomulag náist á þeim tíma sem getur talist ásættanlegur miðað við lengd verkfallsins sem þegar er orðin. Og það er staðfest af orðum sáttasemjara að staðan í deilunni sé nú sú versta sem verið hefur.

Ljóst er að þetta verkfall hefur haft gríðarleg áhrif á þjóðlífið allt. Það er farið að hafa veruleg áhrif á heimilin í landinu, á fjárhag heimilanna í landinu. Það hefur gríðarleg áhrif á landsbyggðina, sérstaklega hinar veikari byggðir sem byggja á sjávarútvegi. Það hefur áhrif á fiskverkafólkið sem ekki hefur hráefni til vinnslu og er farið að fara á atvinnuleysisskrá. Þetta hefur veruleg áhrif á markaðsstarf fyrirtækja okkar á erlendri grundu og mikið er í hættu þar sem mikið starf hefur verið unnið á undanförnum árum og mikil verðmæti eru fólgin í því. Verkfallið hefur auk þess stórkostleg áhrif á útflutningstekjur þjóðarinnar sem dragast að sjálfsögðu verulega saman því að um er að ræða atvinnugrein sem skilar á milli 40 og 50% af heildarútflutningstekjum þjóðarinnar. Þar af leiðandi hefur þetta áhrif á stöðu krónunnar, á gengið, eins og menn hafa séð og þar með á efnahagsmál okkar allra.

Í þessu umhverfi og þessu ljósi er nauðsyn á því að flytja þetta frv. Ég hefði heldur kosið að það hefði ekki verið gert og aðilar hefðu náð saman og leyst deiluna í heild. En því miður var verkfallið orðið of langt og það var deiluaðilum ljóst frá upphafi að þeir hefðu ekki óendanlegan tíma til þess að komast að niðurstöðu í þessu máli.

Efnisatriði frv. eru á þann veg að í 1. gr. frv. er bundinn endir á verkföll og verkbönn í atvinnugreininni.

Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að hafi deiluaðilar ekki náð saman fyrir 1. júní nk. tilnefni Hæstiréttur þrjá menn í gerðardóm sem skuli fjalla um þau atriði kjaramála fiskimanna sem deilt hefur verið um.

[10:30]

Í 3. gr. er síðan gerð grein fyrir þeim atriðum sem gerðardómur þarf að hafa til hliðsjónar. Nauðsynlegt er að slík atriði séu tiltekin í frv. til þess að gerðardómur hafi eitthvað til þess að byggja á í upphafi starfs síns og væri frv. og lagasetningin gölluð ef ekki væri gert ráð fyrir því.

Í frv. gert ráð fyrir að Kvótaþing verði lagt niður og er það í samræmi við óskir þeirra deiluaðila sem náð hafa samkomulagi og samið í deilunni. Jafnframt er í III. kafla frv. gert ráð fyrir breytingum sem af því leiða á lög um stjórn fiskveiða. Í IV. kafla eru breytingar á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna til þess að styrkja Verðlagsstofuna í því að fylgja eftir þeim atriðum samningsins sem þar að lúta. Önnur atriði frv. eru síðan afleidd af þeim atriðum sem hér hafa verið nefnd.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það að verulega miklu máli skiptir að fiskiskipaflotinn komist aftur af stað til þess að hann geti farið að nýta fyrir þjóðarbúið þær tímabundnu veiðar sem fram undan eru, bæði hvað varðar karfa á Reykjaneshrygg og norsk-íslensku síldina og yrði stór skaði af því ef ekki tækist að nýta þessar afurðir til að styrkja stöðu efnahagslífsins. Því skiptir máli að Alþingi hraði störfum sínum við þetta frv. því að þó að um sé að ræða sérstaklega mikilvægt mál þá er hvorki þetta mál né önnur tengd því ókunnug þingmönnum og því ætti að vera hægt að hraða störfum nefnda og þingsins til að hægt sé að afgreiða málið sem fyrst og flotinn komist af stað. Það skiptir miklu máli fyrir þjóðarbúið að þingheimur allur sýni ábyrgð hvað þetta varðar.

Að lokinni 1. umr. legg ég til, herra forseti, að málinu verði vísað til hv. sjútvn.