Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 10:36:38 (7664)

2001-05-14 10:36:38# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[10:36]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er svo í þessu frv. að gerðardómnum, ef til kemur, er gert að taka mið af samningi vélstjóra, ekki aðeins hvað varðar efnisatriði heldur líka tímalengd. Sá samningur gildir í fjögur og hálft ár. Verði þetta frv. að lögum gengur það frá mörgum stórum deilumálum og álitamálum á sviði sjávarútvegs sem hafa einmitt verið undir í starfi svonefndrar endurskoðunarnefndar. Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. sjútvrh. hvort það sé þá í rauninni ætlun hans í framhaldinu að blása það starf meira og minna af ef svo fer að lögfestur verður, ekki bara þessi kjaralega umgjörð sjávarútvegsins í næstum hálfan áratug, heldur líka gengið frá mörgum grundvallaratriðum sem varða viðskipti með veiðiheimildir, verðlagningu afla og annað því um líkt. Er þá ekki í rauninni sjálfhætt með það starf? Er það þjóðarsáttin sem ríkisstjórnin hefur í hyggju að innsigla að lokum um sjávarútvegsmál sem er á ferðinni í þessu frv.?

Ég held að óhjákvæmilegt sé að hæstv. sjútvrh., annaðhvort í svörum hér nú eða síðar í umræðunni og þá helst sem fyrst, skýri þetta samhengi mála því það þarf ekki að skoða frv. lengi til að sjá að þar eru veigamikil efnisatriði á ferð sem menn hafa einmitt og ekki hvað síst bundið vonir við að yrði tekið á í endurskoðunarnefndinni og í breytingum á sjávarútvegsmálum.

Hitt vil ég spyrja hæstv. sjútvrh. um, og í raun og veru mótmæla, að hæstv. ráðherra gerðist svo ósvífinn að setja hér þrýsting á menn um það að ekki er nú nóg hvernig þetta frv. er fram komið, herra forseti, heldur á líka helst að skammta mönnum tíma til að fjalla um það hér á þinginu. Því að hæstv. ráðherra lét að því liggja að menn bæru mikla ábyrgð ef þeir leyfðu sér að ræða þetta mál eitthvað að ráði og rúlluðu því ekki hér í gegn því að það mundi tefja fyrir því að flotinn kæmist á sjó. Er það sem sagt eindregin afstaða hæstv. sjútvrh. að menn eigi að neita sér um að lögvarinn rétt sinn til að ræða þetta mál eða hvert var hæstv. sjútvrh. að fara?