Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 11:07:42 (7673)

2001-05-14 11:07:42# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[11:07]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um kjaramál fiskimanna og fleira, eins og það heitir --- tiltölulega látlaus titill --- sem þegar hefur reyndar orðið tilefni til skoðanaskipta um vinnubrögð ríkisstjórnar og meiri hluta hér á Alþingi og fundarstjórn forseta. Ég ætla ekki að bæta miklu við það. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns og vísa til þess sem áður var fram komið.

Ég leyfi mér þó að segja, vegna þess að hv. formaður þingflokks Sjálfstfl., hv. 3. þm. Reykn., Sigríður Anna Þórðardóttir, kemur oft upp og leggur gott til þegar rætt er um þingstörfin og annað því um líkt, að reglan er ævinlega sú að hún reynir að finna ágreiningsfleti, sprungur til að reka í fleyga og sár til að klóra í ef hún mögulega getur. Hún taldi það hafa verið hreint gjörsamlega til skammar að þingmenn stjórnarandstöðunnar töldu sér misboðið laugardaginn var og mótmælti því. Hún taldi að þeir hefðu orðið þinginu til skammar. Það var helst á hv. þm. að heyra.

En framkoma ríkisstjórnarinnar og forseta þingsins hefur væntanlega verið til sóma. Var það ekki, herra forseti? Er þá ekki þar með rétt að gagnálykta að það hafi verið til sérstakrar fyrirmyndar hvernig menn ætluðu að standa að málinu á laugardag, að halda leyndum upplýsingum um stórpólitískt mál, um sprengju sem átti að henda hér inn í þingstörfin á síðustu sólarhringunum sem þingið átti að starfa og hafa m.a. upp úr krafsinu að réttur væri af þingmönnum tekinn til að mótmæla, réttur sem menn hafa samkvæmt þingsköpunum? Nákvæmlega það hefði gerst, herra forseti, hefðu engir þingmenn stjórnarandstöðunnar verið hér í þingsalnum á laugardaginn var. Ekki þarf að fara um það fleiri orðum að menn hefðu orðið af því tækifæri sem settur fundur í Alþingi býður upp á, að ræða um vinnubrögð, störf þingsins, fundarstjórn forseta og annað í þeim dúr.

Sjálfsagt finnst mönnum þetta allt í lagi og jafnvel bara til sóma. Það getur vel verið að menn séu þeirrar skoðunar að menn séu til vandræða þegar þeir nýta sér rétt af þessu tagi. Oft fær maður það á tilfinninguna, herra forseti, að núverandi meiri hluti og þeir sem völdin hafa séu svo megnaðir af þeirri hugsun að völdin séu þeirra einna, að þeir líti á málflutning stjórnarandstöðunnar sem truflun á hinum eðlilega framgangi valdsins. Allt sem snýr að rétti minni hlutans og möguleika hans til að láta álit sitt í ljós er til leiðinda og vandræða. Það skín alls staðar í gegn, hvort sem í hlut á hæstv. forsrh., formaður þingflokks Sjálfstfl. eða, því miður, sjálfur forseti þingsins eins og hann kom fram í þessu máli.

Það er ljóst, herra forseti, að ríkisstjórnin undir forustu hæstv. sjútvrh. er gjörsamlega búin að klúðra þessum málum. Ófarir hæstv. sjútvrh. í þessum málum í vetur og ríkisstjórnarinnar eru slíkar að það er leitun að öðru eins. Eru menn þó auðvitað ýmsu vanir, því miður, vegna þess að erfiðlega hefur gengið á undanförnum árum og má segja undanfarinn áratug að leysa mál útgerðar og sjómanna. Þar kemur að sjálfsögðu til að um mjög sérstakar aðstæður er að ræða. Þar kemur annars vegar til hlutaskiptakerfið og hins vegar hið mikla návígi sem sjómenn eru í, hvað varðar kjör sín, við lög um stjórn fiskveiða og alla sjávarútvegsstefnuna. Það gerir að verkum að sjómenn hafa á undanförnum árum ekki getað samið um kjör sín í formi einfaldra samninga um krónur og aura eða prósentur eins og stéttir venjulegra launamanna sem fyrst og fremst semja um upphæðir í krónum. Málin eru flóknari í þessu tilviki og það hljóta allir að þurfa að viðurkenna.

Þetta samspil hefur leitt til þess að menn hafa setið uppi með hörð átök og inngrip löggjafans eða meiri hlutans hér. Þróunin hefur orðið sú að það er sama við hvern er talað sem til þekkir, allir upplifa það þannig að útgerðarmenn hafi jafnan getað treyst á að þegar harðnar á dalnum sé þeim komið til bjargar og flotinn sendur aftur til veiða með lögum. Af þeim sökum efast menn mjög um raunverulegan vilja útvegsmanna til að axla ábyrgð af samningum við viðsemjendur sína. Það er mjög dapurlegt ástand og mjög dapurleg sambúð einnar atvinnurekendastéttar við starfsmenn sína, að ná aldrei að gera við þá kjarasamninga á eðlilegum nótum.

Það sem ríkisstjórnin gerði líka sl. vetur eru augljóslega reginmistök. Flestir sem ég hef talað við úr röðum sjómanna um helgina eru þeirrar skoðunar að hefði ríkisstjórnin ekki frestað verkfalli í vetur væri þessi deila búin með samningum. Það voru afdrifarík mistök að grípa þá inn í af tveimur ástæðum. Þá var orðinn talsverður þrýstingur og komin hreyfing á málin. Má ég minna á, herra forseti, yfirlýsingar ráðherra sjálfra um það, svo kostulegt sem það er, sem rök fyrir því að fresta verkfallinu að það væri kominn skriður á samningaviðræður. Er þá ekki eðlilegt að álykta að ef menn hefðu ekki frestað þá hefði sá skriður leitt til þess að menn hefðu samið? Í dag eru flestir þeirrar skoðunar.

Þetta voru líka mistök, herra forseti, vegna þess að þetta gaf tóninn um að ríkisstjórnin væri þarna til staðar með lögin sín ef útvegsmenn þyrftu á að halda. Allan tímann síðan hefur það legið í loftinu að þetta væri bara spurning um tíma, hvenær ríkisstjórnin kæmi og skæri útvegsmenn niður úr snörunni, á forsendum sem þeim hentar, forsendum sem eru eitur í beinum þeirra sjómannasamtaka sem ekki gátu sætt sig við niðurstöðu á þeim nótum sem naumur meiri hluti vélstjóra samþykkti um helgina.

[11:15]

Í öðru lagi, herra forseti, eru það efnisatriði þessa frv., þessa bandorms, sem gera mikið meira en að setja bara niður verkfallið sem slíkt. Þetta er ekki frestunaraðgerð. Þetta er ekki lögfesting sáttatillögu eða einhvers grundvallar sem aðilar deilunnar hafa sjálfir unnið og verið komnir langt áleiðis með. Nei, þetta er ekki svoleiðis. Þetta er lögfesting á samningi í ákveðnum skilningi sem liggur fyrir að er algjörlega óaðgengilegur fyrir þann hluta sjómanna, yfirgnæfandi meiri hluta sjómannastéttarinnar sem er ekki búinn að semja. Það liggur alveg fyrir. Hér er óvenjuharkalega og fantalega gengið fram gagnvart þeim sem enn þá eiga í deilu tekið einhliða á málum.

Gerðardómnum eru lagðar upp forsendur. Hann fær ekki að vinna hlutlaust að sínum úrlausnarefnum --- nei, ónei, látum það nú vera þó það væri þá gert --- heldur er hér settur gerðardómur sem á að gera miklu meira en ákveða laun í venjulegum skilningi, kauptryggingu eða því um líkt. Svo litið sé í 2. gr., herra forseti, á gerðardómurinn sem svo er fjallað um í síðari mgr. 2. gr. að ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna í þeim samtökum sem nefnd eru í 1. gr., þ.e. Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandinu:

,,Atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila.``

Gerðardómurinn á að fara inn í það efnislega að skilgreina þennan grunn verðmyndunarinnar. Það er býsna flókið mál. Það þarf að leita að góðum sérfræðingum sem hafa eitthvert vit á sjávarútvegi, hvernig hlutirnir ganga þar fyrir sig. Þetta er ekki bara spurning um krónur og aura. Þetta er spurning um allt það ferli sem ræður verðmyndun á fiski og síðan hefur áhrif á kjör sjómanna í gegnum hlutaskiptakerfið.

En gerðardómurinn á að vera meira. Þetta þurfa að vera algerir sérfræðingar í öllu sem fram fer um borð í fiskiskipum því hann á í b-lið að ákveða atriði sem varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptastjórn. Gerðardómurinn á að fara ofan í það sem allir vita að eru gríðarlega vandasöm mál og hafa verið ásteytingarsteinn og legið í loftinu núna undanfarin mörg missiri að þyrfti einhvern veginn að leiða til lykta en er hægara sagt en gert og varðar mikla hagsmuni.

Kauptrygging og launaliðir, látum það nú vera því það er kannski það sem menn mundu halda undir venjulegum kringumstæðum að gerðardómur í kjaradeilu ætti að fást við, kauptryggingu og launalið. En það er bara eitt af mörgum atriðum sem þessi gerðardómur þarf að fara ofan í. Hann á að fara ofan í slysatryggingu, helgarfrí fiskimanna á netaveiðum, atriði er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna og, g-liður: önnur atriði sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál. Hann á sem sagt meira og minna að hafa þetta allt undir, þessi gerðardómur.

Látum það nú vera eins og áður var sagt. Segjum að menn sæju enga aðra lausn í sjónmáli. Auðvitað hefði verið hugsanleg niðurstaða að menn hefðu samið um gerðardóm. Það hefur verið gert. En dettur einhverjum í hug að sjómenn hefðu einhvern tímann skrifað upp á að sá gerðardómur skyldi þvingaður til þess að ganga út frá hlutum í úrskurði sínum sem þeim eru algjörlega andstæðir? En það er það sem hér er gert.

Í 3. gr., herra forseti, kemur fram að gerðardómurinn skuli við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum ,,taka mið af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001 og öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á undanförnum mánuðum að því leyti sem við á.``

Með öðrum orðum, herra forseti, á gerðardómurinn að vera bundinn meira og minna því það er erfitt að túlka þetta orðalag örðuvísi en svo að gerðardómurinn sé meira og minna bundinn af samningi sem vélstjórar hafa gert, naumur meiri hluti þeirra samþykkt, 160 manns eða eitthvað nálægt því, sem eru fáein prósent af sjómannastéttinni í landinu og í mjög harðri andstöðu við hina því að forsvarsmenn sjómannasamtakanna og Farmanna- og fiskimannasambandsins hafa lýst því yfir að þetta sé algjörlega óaðgengilegt fyrir þá. Ætlar svo hæstv. sjútvrh. að reyna að halda því fram að það sé með sanngjörnum hætti gengið frá þeim grundvelli sem gerðardómurinn á að starfa samkvæmt að skipa honum að ganga út frá þessu?

Svo getum við auðvitað, herra forseti, farið aðeins yfir þennan samning Vélstjórafélagsins sem út af fyrir sig er bara eins og hann er og best að hver og einn taki afstöðu til hans. Ég er engin sérfræðingur í því að lesa út úr honum. En ég sé þó strax að í 2. gr. þess samnings er komið inn á mönnunarákvæðin sem eru náttúrlega eitt af stóru málunum og þannig ákvæði að það liggur alveg fyrir að þeirri niðurstöðu hafa sjómenn og farmenn marghafnað. Þar er í raun og veru í aðalatriðum gengið að kröfum útvegsmanna eins og þeir settu þær fram í byrjun um að a.m.k. helmingurinn af öllu sem sparast við fækkun í áhöfn komi beint til þeirra. Það er gengið frá því hér. Það er þá ekki um mikið að semja lengur. Það er þá ekki mikil þörf fyrir þennan gerðardóm ef þetta er frágengið þannig á grundvelli kröfugerðar útvegsmanna. Það er í aðalatriðum þannig sem þetta er.

En hér segir, með leyfi forseta, í þessum breytingum á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og LÍÚ og Vélstjórafélags Íslands --- og þá er ég að tala um tölulið 2.2:

,,Séu sett um borð ný tæki, búnaður eða eigi sér stað hagræðing sem hefur í för með sér vinnusparnað sem leiðir til að færri menn geti sinnt skipsstörfum og um það er skriflegt samkomulag milli áhafnar og útgerðar að færri menn séu á skipi en kveðið er á um í kjarasamningi þessum þar sem ástæður eru tilgreindar, skal hlutur eða hlutir þeirra sem á vantar skiptast að hálfu milli þeirra sem á skipinu eru í réttu hlutfalli við skiptahlutfall þeirra. Hinn helmingurinn skal ganga óskertur til útgerðarinnar.``

Hinn helmingurinn skal ganga óskertur til útgerðarinnar. Er það ekki búin að vera krafa útgerðarinnar lengi? Ég man ekki betur. Þeir hafa sennilega ekki haft hugmyndaflug til þess að fara fram á meira og fá 75%. Ætli sjútvrh. hefði ekki bara skellt því inn ef þeir hefðu áttað sig á því í LÍÚ? Þeir ættu að heimta 3/4 en ekki bara helminginn af ávinningnum. En hæstv. sjútvrh. varð ekki flökurt af að setja inn sem forsendur gerðardómsins að hann skyldi ganga þarna út frá kröfum LÍÚ.

Síðan er í tölul. 2.1 stórkostlegt atriði sem hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson segir mér að þýði að ef kokkurinn veikist og það er farið út án þess að hann sé um borð, þá fái útgerðin hluta af hlutnum þó hinir í áhöfninni taki á sig vinnuna og eldi matinn. Nei, þá skal útgerðin samt græða á því að kokkurinn er veikur í landi. (Gripið fram í.) Ég held það sé rétt að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson útskýri þetta aðeins betur fyrir okkur enda manna færastur til þess. En mér þótti þetta kostulegt og ég vitna hér til þess sem hann sagði mér lauslega áðan um þetta kostulega atriði.

Hitt, herra forseti, sem varðar forsendur gerðardómsins og þessa dæmalausu 3. gr. og ég ætla að koma inn á, er það að gerðardómurinn, og það finnst mér vera algjörlega til að bíta höfuðið af skömminni, því ætlaði ég ekki að trúa þegar ég las það, á ekki aðeins að taka mið af eða vera bundinn af samningi vélstjóra, þessara 160 vélstjóra, hvað varðar efnisatriði heldur líka tímalengdinni. Það segir hér, herra forseti, í síðustu mgr. 3. gr. svohljóðandi:

,,Ákvarðanir gerðardómsins skv. 1. mgr. skulu vera bindandi frá gildistöku laga þessara`` --- ég hélt það hefði verið nóg frá því úrskurðinn fellur --- ,,og skal gerðardómurinn hafa lokið störfum fyrir 1. júlí 2001.``

Úrskurðurinn verður sem sagt afturvirkur aftur að gildistöku þessara laga. Einhvern tímann þótti það ekki góð latína að vera með mikið af svona afturvirkum ákvæðum. (Gripið fram í.) Já, ef úrskurðurinn þýðir svo lækkun launa verður sú launalækkun afturvirk. En það hefur flogið fyrir að í sumum tilvikum munu menn lækka í launum út á þennan samning Vélstjórafélagsins.

,,Hann [þ.e. gerðardómurinn] skal ákveða gildistíma ákvarðana sinna og hafa í því sambandi hliðsjón af gildistíma samnings um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.``

Þetta þýðir að gerðardómurinn er ekki aðeins bundinn efnislega af vélstjórasamningnum heldur líka hvað tímalengdina varðar, fjögur og hálft ár. Hvað þýðir það á mannamáli, herra forseti? Það á að svipta sjómenn samnings- og verkfallsrétti, taka af þeim þessi mannréttindi í næstum hálfan áratug. Þá má eiginlega leggja samtök þeirra niður á meðan. Er það ekki, herra forseti? Það er lítið með það að gera fyrir eina stétt að reyna að skipuleggja sig og reka samtök ef menn ætla að fara þannig að þessum helga rétti að hann sé af mönnum tekinn í næstum hálfan áratug með lögum.

Þarna, herra forseti, er farið svo gróflega offari gagnvart öllu sem getur talist verjandi, réttlætanlegt eða sanngjarnt í þessum efnum að ég veit ekki hvernig í ósköpunum menn ætla að standa fyrir því. Til hvers er vísað þegar af mönnum eru tekin stjórnarskrárvarin og lögvarin réttindi? Til hvers þarf að vísa til þess að það standist, herra forseti? Jú, þjóðarheillar, það sé þjóðarvá fyrir dyrum og þess vegna verði löggjafinn að upphefja þessi réttindi. Það sé réttlætanlegt vegna þess að svo mikið sé í húfi.

Gott og vel. Segjum að menn verði þeirrar skoðunar að þetta hafi verið í algjörum hnút og þvílíkir þjóðarhagsmunir að veði að réttlætanlegt geti verið að fara inn í þessa deilu og setja hana með einhverjum hætti niður. En ætlar einhver í þessum sal að reyna að halda því fram að menn sjái það fjögur og hálft ár fram í tímann að sjómenn megi ekki hafa samningsrétt? Ætlar hæstv. sjútvrh. að koma upp og rökstyðja það á árinu 2005 verði það áfram nauðsynlegt að lög upphefji samnings- og verkfallsrétt sjómanna? Það er það sem hér er verið að tala um. Ætlar hæstv. sjútvrh. að mæta fyrir dómstólum þessa lands eða annarra og réttlæta að það hafi verið óumflýjanlegt að hafa þetta nákvæmlega svona?

Gagnvart stjórnarskránni og landslögum er hér um að ræða mjög helg réttindi, félagafrelsi, verkfalls- og samningsrétt sem er settur rammi fyrir í stjórnarskránni og síðan í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, vinnumarkaðsaðgerðir og fleiri hluti, plús það að Ísland er aðili að a.m.k. tveimur viðamiklum alþjóðasamþykktum þar sem þessi réttur er varinn og við höfum þjóðréttarlega skuldbundið okkur til að virða hann. Þetta eru samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar frá 1987 og 1998.

Ég, herra forseti, spái því að menn séu ekki búnir að sjá fyrir endann á hvernig þetta kunni að fara, verði þessi ósköp einhvern tímann að lögum og fari menn síðan út í það, sem ég held að menn hljóti þá að gera, að láta reyna á þetta fyrir dómi. Hér er verið að ganga svo miklu lengra. Ég man aldrei eftir tímalengd sem er neitt í nágrenni við þetta. Eða ætlar hæstv. sjútvrh. að koma upp og upplýsa okkur um fordæmin, upplýsa okkur um fordæmin?

Samningur Vélstjórafélagsins er einhver lengsti samningur sem ég man eftir. Ég man ekki oft eftir því að hafa heyrt talað um samning sem er næstum hálfur áratugur. Ég sé að hristir hausinn úti í sal fyrrum formaður í verslunarmannafélagi ef ég man rétt, hv. þm. Sverrir Hermannsson. Hann var verkalýðsleiðtogi á hinni öldinni og þekkir til þessara hluta og man heldur ekki fordæmi þess eða alla vega ekki mörg. (SvH: Og starfaði undir gerðardómi.) Og starfaði undir gerðardómi í næstum hálfan áratug. Er náttúrlega með hreinum ólíkindum, herra forseti, að menn skuli láta sér detta þvílíkt í hug.

Þetta eru atriði, herra forseti, sem ég ætla ekki tímans vegna að fara rækilegar ofan í. En það hlýtur að þurfa að gera. Það hlýtur þingnefnd að þurfa að gera, að kalla til sín sérfræðinga á sviði samningsréttar og stjórnsýsluréttar og fara yfir okkar þjóðréttarlegu skuldbindingar í þessum efnum, því það er náttúrlega lítil huggun þó hæstv. ríkisstjórn yrði með allt niður um sig einhvern tímann á næstu missirum eftir málaferli. Auðvitað á að reyna að afstýra því að menn fari út í hreina óhæfu hvað lagasetningu af þessu tagi snertir.

[11:30]

Oft eru þessir hlutir umdeilanlegir og getur sýnst sitt hverjum. Þá er það spurning um að þetta fari það hófsamlega fram og ekki með þvílíku offorsi að slíkt sé á engan hátt verjanlegt eða réttlætanlegt. Það sýnist mér vera gert hér, herra forseti.

Þá ætla ég lítillega að nefna, herra forseti, að þetta frv. er óvenjulegt að því leyti sem inngrip í kjaradeilur því að hér er ekki bara verið að setja niður deiluna með einfaldasta mögulegum hætti, hér er ekki með einföldum hætti til skamms tíma verið að setja þessa deilu niður með því að frysta ástandið eða fresta eða lögfesta sáttatillögu eða annað því um líkt. Nei, hér eru í fyrra laginu á ferðinni þau dæmalausu gerðardómsákvæði sem ég hef hér farið yfir en að hinu leytinu er þetta frv. sem breytir einum, tvennum, þrennum, fernum lögum á sviði sjávarútvegs. Í II. kafla eiga að falla úr gildi lög um Kvótaþing, sem eru hluti af núverandi kjaraumgjörð sjómanna, því þau eru þannig til komin að þau voru sett í tengslum við lausn síðustu kjaradeilu. Einnig að því leyti er einhliða hent út hlutum sem var verið að reyna að koma á til þess að sætta menn við hlutina síðast.

Hér er í öðru lagi talsverð breyting á lögum um stjórn fiskveiða, lögum nr. 38/1990, og þar eru sömuleiðis á ferðinni, herra forseti, ákvæði sem ... Ég vildi gjarnan að hæstv. sjútvrh. hlustaði og ræddi ekki við aðstoðarmann sinn sem er ekki venjan að hafa langt inni í þingsölum, vel að merkja. Hann er ekki kjörinn enn á Alþingi, þessi ungi maður, þó hugur hans standi eflaust til þess. Ég vildi að hæstv. ráðherra færi aðeins yfir með okkur ákvæði 6. gr. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða, þ.e. stjórn Fiskistofu. Hvað er Fiskistofa? Jú, Fiskistofa er opinber stjórnsýslustofnun á sviði sjávarútvegs og hefur fyrst og fremst hlutverk hvað varðar stjórn fiskveiða og eftirlit með þáttum þar. Hún er í raun og veru eftirlitsstofnun, nánast löggæslustofnun. Er þá mjög gáfulegt að draga hana inn í hluti sem hér á að fara að gera með 6. gr., að láta hana vera einhvers konar lögreglu í sambandi við kvótaviðskipti? Halda menn að það muni auka tiltrú sjómanna á Fiskistofu og því sem hún er að gera ella? Ég hef miklar efasemdir um að þarna sé gæfulega að verki staðið, að færa inn til Fiskistofu þetta hlutverk um viðskipti með aflaheimildir og nánast lögregluhlutverk á því sviði.

Svo er í 2. mgr., herra forseti, vandinn leystur með þessum venjulega hætti að ráðherra skal með reglugerð ákveða með hvaða formi tilkynningar um Fiskistofu um flutning aflamarks skuli vera og fleira í þeim dúr. Ekki er ég viss um að það þyki heldur mjög góð latína.

Þarna eru breytingar á lögum um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefndina. Hún er nú ekki slegin af. Við verðum sjálfsagt að þakka fyrir að þeim skyldi ekki detta í hug að slá hana af. (Gripið fram í: Styrkt, styrkt.) Styrkt eitthvað, já. Enda verður væntanlega ekki vanþörf á að hún geti sinnt hlutverki sínu þegar búið er að slá af Kvótaþingið og ganga frá málum eins og stefnir í, samanber þær formúlur um viðmiðunarverð á fiski í viðskiptum aðila sem samningur Vélstjórafélagsins gengur út á.

Síðan er reyndar verið að breyta enn fleiri lögum, herra forseti, þó smávægilegt megi telja og samkvæmt venju er slatti af ákvæðum til bráðabirgða þannig að þetta sé allt saman fullkomnað, þannig að bandormurinn sé fullkomnaður. Breyting er í einu slengi á einum fimm, sex lögum og slunkur af ákvæðum til bráðabirgða svo þetta sé allt saman í réttu horfi. Verður gaman að vita hvað þau eru orðin mörg, ef allt væri talið, ákvæðin til bráðabirgða í lögunum um stjórn fiskveiða og öðrum tengdum lögum. Þau skipta einhverjum tugum, herra forseti, og segir sína sögu um þann bútasaum og þau ósköp sem gengið hafa yfir í þeim málum á undanförnum árum.

Herra forseti. Um mönnun flotans mætti margt segja. Það fór í þessari kjaradeilu eins og stundum áður að þegar útvegsmönnum var farið að leiðast þófið komu gömlu góðu fréttirnar um háa, háa skipstjórahlutinn. Þá var farið og sótt dæmi um það sem allra mesti aflaskipstjórinn hefði á fengið mesta aflaskipi flotans sem er með mestu aflaverðmætin, ef hann hefði verið hvern einasta dag ársins eða svo gott sem á sjó. Svo var reiknaður út hásetahluturinn og þessu slengt í fréttirnar til þess að sýna fólki þvílíkur hátekjulýður þetta væri sem væri með þessa heimtufrekju, svona svipað og gert var í öryrkjamálinu í vetur. Þá var farið í að sýna mönnum fram á hvílík heimtufrekja þetta væri í öryrkjunum. Þetta væri hátekjulið meira og minna. Gift meira og minna forstjórum. Það ætti ekki að vera að hafa samúð með slíku liði og þeim væri ekki of gott að væru sett á þá lög.

Svipað er þetta núna með sjómennina. Reidd voru fram dæmin um allra hæstu aflahlutina á metskipum flotans og þau reiknuð til ársins eins og menn slepptu engum einasta degi, engum einasta túr. Þetta er auðvitað notað til þess að segja mönnum að hér væri hátekjustétt á ferð sem þyrfti ekki að vorkenna.

Nú vitum við auðvitað að þetta er ekki svo. Í fyrsta lagi eru menn ekki hvern einasta túr á sjó og skárra væri það nú. Eða er einhver hér sem langar sérstaklega í það hlutskipti að vera frá fjölskyldu sinni úti á sjó kannski 300, 320 daga á ári, dag og nótt, mánuð í senn? Nei, ég geri ekki ráð fyrir því. Ætli mönnum sé þá of gott að vera annan mánuðinn heima á móti? Þá lækkar þetta um helming eða svo gott sem.

Svo eru ekki öll skipin metaflaskip. Ætli sé ekki slatti af sjómönnum að berjast um á kvótalitlum eða jafnvel kvótalausum skipum og hafa einhvern mismun á leiguverði og söluverði í hlut? Það gengur upp og ofan á veiðunum eins og við vitum.

Ætli það sé ekki þannig líka, herra forseti, að það sem væri meiri ástæða til að hafa áhyggjur af um þessar mundir á Íslandi en háum launum sjómanna væri skortur á sjómönnum? Það væri t.d. sú staðreynd að það er engin aðsókn að Sjómannaskólanum. Segir það ekki einhverja sögu um að menn séu a.m.k. ekki ofhaldnir af launum sem leggja þetta fyrir sig úr því það höfðar ekki meira en raun ber vitni til ungs fólks að sækja sér menntun og hasla sér völl í þessari grein enda gætir þeirrar tilhneigingar í talsverðum mæli að erlendur mannskapur sé að koma inn á flotann? Þeir eru að verða þó nokkrir, t.d. vélstjórarnir, af því það fást ekki menn á Íslandi. Ekki eru það sérstök rök fyrir því að það sé vandamál í sjálfu sér að launakjörin séu of góð eða réttindakjör og annað því um líkt og er auðvitað fjarri lagi.

Staðreyndin er sú að hér á í hlut eitthvert hættulegasta og erfiðasta starf sem unnið er í landinu og eru ærin rök fyrir því að búa þessari stétt góð kjör og betri en þau eru í dag og standa betur að ýmsum hlutum sem lúta að þeirra réttindamálum, lífeyrisréttinum og öðru slíku. Það stendur m.a. skammarlega upp á stjórnvöld í þeim efnum sem hafa aldrei efnt loforð sín um að gera Lífeyrissjóði sjómanna kleift að axla byrðarnar af sextíu ára lífeyristökualdri, svo dæmi sé tekið. Það er ekki hærra risið á framgöngu íslenskra stjórnvalda þegar kemur að ýmsum réttinda- og kjaramálum sjómanna en svo að það er um hreinar og klárar vanefndir að ræða á ákveðnum hlutum sem rætt hefur verið um.

Ég er líka þeirrar skoðunar, herra forseti, og læt það koma fram, að ég tel til skammar að ekki skuli fyrir löngu hafa verið gengið þannig frá málum að sjómannsstarfið hér á landi sé skilgreint það sem kallað er hættulegt starf og hefur gildi í ýmsu réttindalegu tilliti og er alþjóðlega viðurkennt hugtak, sambærilegt við --- ja, við getum sagt námagröft eða annað því um líkt sem þekkt er erlendis. Þá leiðir af sjálfu ef menn legðu þessa skilgreiningu til grundvallar að staða sjómanna mundi breytast í ýmsu tilliti þegar verið væri að ganga frá tryggingamálum, slysatryggingum, lífeyrisréttindum, bótum og öðru síku, því út frá þessu er m.a. gengið þegar þeir hlutir eru ákvarðaðir.

Er ekki ástæða, herra forseti, að gera þetta? Svarið er jú. Því miður. Þó ekkert annað kæmi til en að slysatíðni er ein sú mesta enn þá sem þekkist hjá nokkurri atvinnugrein meðal sjómanna, því miður, þó þar hafi sumpart miðað í rétta átt á undanförnum árum.

Herra forseti. Aðeins undir lokin um andrúmsloftið í kringum sjávarútvegsmál hjá hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherra sem hefur nú haft tvö ár sem nýr maður til þess að ná árangri í þeim efnum. Forveri hans er nú kallaður til annarra starfa, mun verma sendiherrastólinn í London, og sjálfsagt orðinn uppgefinn, karlinn. Hæstv. fyrrv. sjútvrh. náði ekki miklum árangri í því að sætta menn, hvorki við sjávarútvegsstefnuna né að vera milligöngumaður um að ná landi í samskiptum útvegsmanna og sjómanna.

Nú kom nýr vöndur og einhverjir hafa sjálfsagt bundið vonir við að hann mundi sópa betur. Og ekki vantaði yfirlýsingarnar fyrir síðustu kosningar um að nú væri það alveg sérstakt markmið stjórnarflokkanna að ná víðtækri sátt. Er það ekki, hæstv. ráðherra, (Sjútvrh.: Víðtækari.) Víðtækari sátt --- þetta er orðið mjög fyrirvarakennt núna --- víðtækari sátt um sjávarútvegsmál. Tvö ár liðin og hver er niðurstaðan? Hún er sú að allt sem heitir eitthvert samkomulag um heildstæða endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar er úti í hafsauga. Það hefur dregist og dregist og dregist og er verið að ýta því áfram. Nú er talað um 31. ágúst og þá komi kannski eitthvað út úr nefndinni og samskiptin við sjómenn ganga eins og raun ber vitni.

Ég held því fram, herra forseti, að þessi lög, ef þau eru sett svona, hljóti að hafa veruleg áhrif á það andrúmsloft sem þá verður eftir og lýtur að endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar í einhverju víðtækara samhengi m.a. vegna þess að kjaramál sjómannastéttarinnar eru svo gjörsamlega samofin við það fyrirkomulag sem fyrir hendi er hvað varðar verðalagningu aflans, hvað varðar viðskipti með veiðiréttinn ef þau eru leyfð o.s.frv. Ég er hræddur að ráðherra komist ekki langt með hluti sem hann er sjálfur búinn að ákveða að negla niður í lög í fjögur og hálft ár eða niðurstöðu gerðardóms sem er lögvarinn.

Það verður líka, herra forseti, væntanlega ekki til þess að skapa mikla sátt um sjávarútvegsmálin ef þingið lýkur störfum án þess að taka á spurningunni um kvótasetningu meðafla hjá krókabátum. Því var frestað í fyrra með sérstökum rökum, sérstakri vísan til þess að endurskoðunarnefndin væri að störfum og hún ætti að fara yfir þetta eins og annað.

Hæstv. ráðherra er gjörsamlega að ómerkja sjálfan sig ef hann gerir ekki a.m.k. það sama aftur úr því endurskoðunarnefndin hefur ekki lokið störfum og þegar tímabundið fyrirkomulag varðandi stjórn veiða á norsk-íslenska síldarstofninum var framlengt í fyrra með vísan til þess að endurskoðunarnefndin væri að störfum. Hæstv. ráðherra hefur haft endurskoðunarnefndina eins og hálfgerða ruslakistu og vísað í hana óútkljáðum málum, frestað því að taka nokkrar ákvarðanir um hluti sem uppi eru. En það á greinilega ekki við nema þegar það hentar.

Af hverju hafði hæstv. ráðherra ekki gildistíma þessa frumvarps þannig að það skyldi falla úr gildi t.d. sex mánuðum eftir að endurskoðunarnefndin hafði lokið störfum þannig að menn væru einnig óbundnir af þessu? Það á sem sagt ekki að leyfa sjómönnum að semja í því nýja umhverfi sem til kann að verða í sjávarútvegi eftir að lögin hafa verið endurskoðuð.

Nei, herra forseti. Það er alveg sama hvernig á það er litið. Þetta er eins ógæfuleg framganga og nokkuð getur verið. Illindin verða alveg sérstök í þessum samskiptum á komandi mánuðum ef þessu verður þröngvað hér fram.

Því miður verður að segjast eins og er, herra forseti, að angi þess máls teygir sig inn í samtök sjómanna. Þar skildu því miður leiðir. Það er dapurlegt. Maður hafði bundið vonir við að sjómannastéttin í heild sinni næði að halda hópinn og þannig hefði staða hennar verið sterkari. Út af fyrir sig breytir engu um þó einn hópur og það fámennur hafi valið aðra leið. Það hafa vélstjórar að sjálfsögðu rétt til að gera. En samningsréttur sjómanna og farmanna er til staðar áfram. Ég held að hæstv. ráðherra, herra forseti, ætti að gá að því að það stendur hvergi neitt í lögum um að hann takmarkist af ákvörðunum einhverra annarra aðila af þessu tagi. Það er bara ekki þannig. Þetta eru mannréttindi. Það eru mannréttindi þeirra sem hafa ekkert nema vinnu sína til að selja að þeir megi bindast samtökum og knýja á um lausn kjaramála sinna.

[11:45]

Svo kemur hæstv. ráðherra hér og segir að verkfallið sé farið að hafa svo mikil áhrif að ekki sé hægt að leyfa því að halda áfram. Einmitt þegar kannski einhver von er til þess að viðsemjendur sjómanna færu að finna hitann í haldinu eru sett lög af því verkfallið er farið að hafa áhrif og þá verður að stoppa það. Ég held að hæstv. ráðherra þyrfti að fara á skóla og læra um hvað þetta snýst. Verkfallið hefur líka áhrif á sjómenn vegna þess að þeir færa fórnir og eru launalausir í landi, herra forseti, þannig að það verkar á báðar hliðar.

Herra forseti. Að síðustu aðeins um vinnubrögð þessarar ríkisstjórnar. Hæstv. forsrh. er greinilega búinn að gera sitt hér í dag. Hann spýttist í ræðustólinn tvisvar til að leggja gott orð inn varðandi störf þingsins og hvarf svo á braut og skilur sjútvrh. sinn einan eftir í súpunni hér, ef svo má að orði komast.

Það sem hefur gerst á þessum sólarhringum frá því á laugardagsmorgun er alveg dæmigert fyrir vinnubrögð ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, alveg dæmigert. Þegar á á að herða eru þau nákvæmlega svona. Nakið valdið brýst fram og þannig á köflum að manni finnst gert í því að undirstrika hverjir hafi valdið og við hverja þurfi ekki að tala, eins og stjórnarandstöðuna. Og að það sé til einhver staðar í hugarfylgsnum þessara manna að minni hluti eigi sér einhvern rétt, það fær maður ekki séð. Það nær jafnvel upp í forsetastólinn, herra forseti, að minni hlutinn á Alþingi sé eitthvað sem ekki skipti neinu máli og þurfi neitt að hugsa um og geri ekkert til þó á honum sé brotinn réttur. Að þessu leyti eru því sjómenn og þingmenn þeir sem minni hlutann skipa lagðir að jöfnu.

Nei, herra forseti, þetta er ákaflega ógæfuleg framganga. Ég vona að þessi lög verði aldrei sett. Helst vildi ég auðvitað sjá þann manndóm hér á Alþingi að þessu frumvarpi yrði hent eða það fellt hér. En í öðru lagi kann að fara svo að sjómenn velji þann kost til að komast undan þessum ólögum að aflýsa verkfallinu sjálfir og þá væru það þvílík fádæmi ef ríkisstjórnin héldi áfram að nudda með þetta frv. að engu tali tekur og ég treysti því að svo verði ekki.