Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 12:36:08 (7676)

2001-05-14 12:36:08# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[12:36]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Þetta var mjög merkileg ræða. Hér kom talsmaður Framsfl. og hvatti hæstv. sjútvrh. og ríkisstjórnina til dáða í baráttunni gegn sjómönnum og réttlætti að þeir yrðu sviptir samningsrétti. Ég held að enginn maður velkist í vafa um að þessi kjaradeila er mjög alvarleg. Hún kemur þjóðfélaginu öllu við. En það er meira en að segja það að svipta íslenskt launafólk þeim rétti sem það býr við í lýðræðisþjóðfélagi.

Hv. þm. Hjálmar Árnason segir að ekki standi til að taka af mönnum samningsrétt vegna þess að þeir hafi frest til mánaðamóta til að reyna að ná samkomulagi. Síðan hefur hann útlistað það á hvern hátt gerðardómi er gert að starfa. Hann á að starfa á forsendum samnings sem þegar hefur verið gerður og tekur til fjögurra og hálfs árs. Þegar frv. er lesið og skoðað kemur að sjálfsögðu í ljós að stétt sjómanna, íslenskir sjómenn, eru sviptir samningsréttinum.

Ég vildi hins vegar spyrja hv. þm. sérstaklega: Er samhengi á milli inngripsins í marsmánuði, sem hv. þm. réttlætti einnig, og hins að kjaradeilan hefur dregist á langinn? Hefur þetta inngrip ekki einmitt orðið til að lengja þessa kjaradeilu, einfaldlega vegna þess að útvegsmenn gátu gengið að því sem vísu að ríkisstjórnin mundi skera þá niður úr snörunni eins og hún hyggst núna gera, að sjálfsögðu með dyggum stuðningi þingmanna Sjálfstfl. og Framsfl.?