Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 12:49:56 (7683)

2001-05-14 12:49:56# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[12:49]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni að kennaraverkfallið var afskaplega alvarlegt eins og verkföll eru alltaf og áhrif þess eru ómælanleg.

En það er þó kannski sá munurinn á kennaraverkfalli og því sem um ræðir hér að karfinn á Reykjaneshrygg eða loðnan á sínum tíma verða ekki kölluð til veiða á laugardögum eða í styttra páskafrí eða styttra sumarfrí eins og menn reyndu að leysa þá kennsludaga sem féllu niður. Það er munurinn að hér er um verðmæti að ræða sem gefa sig á afmörkuðum tíma og ekki aftur. (Gripið fram í.) Þess vegna er reginmunur þar á.

Þá er líka vert að hafa annað í huga. Er það ekki rétt munað að síðast þegar miðlunartillaga var lögð fram byggði hún m.a. efnislega á því sem útgerðarmenn höfðu fellt en það var sú miðlunartillaga sem lögð var fram? Þess vegna skýtur það nokkuð skökku við þegar hv. stjórnarandstæðingar koma hver á fætur öðrum og tala um að hér sé verið að þjónka útgerðarmönnum o.s.frv. Ég held að þetta dæmi sýni m.a. að það er ekki alveg rétt með farið. Það segir e.t.v. sína sögu líka að útgerðarmenn virðast vera nokkuð ósáttir við þann farveg sem málið er komið í.

En horfum ekki fram hjá því meginatriði sem er hin efnahagslega ábyrgð, það er ábyrgðin gagnvart þegnum landsins og efnahagslegri undirstöðu sem hlýtur að vera meginatriði í málinu.