Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 13:54:23 (7689)

2001-05-14 13:54:23# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[13:54]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það hendir að mönnum verður það á að skjóta eins og í aðra löppina á sér í stuttum ræðum. En það er sjaldgæft að heyra menn skjóta undan sér báða fæturna í stuttri ræðu og tveimur svörum við andsvörum eins og hv. þm. gerði áðan. Hann var í fullkominni mótsögn við sjálfan sig aftur og aftur þegar hann var annars vegar að lýsa nauðsyn þess að sjómenn og útvegsmenn leystu sín mál sjálfir í samningum og hins vegar að það hefði ekki verið verjandi að leyfa þeim að klára það. Hvernig eiga sjómenn að ná samningum ef þeir fá aldrei frið til þess? Það eru ævinlega komin lög á loft. Þetta er annað frv. á þessum vetri sem grípur inn í þessa deilu. Samt hrósar hv. þm. stjórnvöldum fyrir að hafa setið sérstaklega á sér og verið með kjarnyrtar yfirlýsingar um að þeir mundu ekki blanda sér í deiluna. Það er mjög trúverðugt þegar við erum hér einmitt að ræða annað frv. frá hæstv. ríkisstjórn á þessum vetri sem grípur inn í málin.

Herra forseti. Auðvitað eru þessar ræður þingmanna Sjálfstfl. og stjórnarliða, sem hafa verið að gera hosur sínar grænar fyrir sjómönnum og fylgi við sjávarsíðuna á undanförnum missirum, svo aumkunarverðar að það er eiginlega ekki hægt annað en hafa samúð með þeim, blessuðum mönnunum, að þeir skuli leggja það á sig að flytja þessar ræður. Svo sér maður að sumir sem mikið hafa talað fyrir málstað sjómanna gegnum tíðina hafa ekki þor í það og eru fjarverandi.

Hv. þm. viðurkenndi að dálítið harkalegt væri að taka samningsréttinn af sjómönnum í fjögur og hálft ár og í raun væru þeir að leggja sín samtök niður og rústa þau. En er það ekki ríkisstjórnin og meiri hluti hennar sem ætlar að taka samningsrétt af sjómönnum í fjögur og hálft ár? Sjómannasamtökin sjálf báðu ekki um það. Það er auðvitað ekki hægt að stilla hlutunum svona upp.

Svo koma menn, innan salar og utan, og læða því út að sjómenn hafi ekki getað samið í heil tíu ár og jafnvel einstakir forustumenn þar hafi aldrei náð að klára kjarasamninga. (Forseti hringir.) Þetta höfum við verið að heyra að undanförnu, herra forseti. Það er ómaklegur málflutningur að gera lítið úr forustumönnum sjómanna með þessum hætti.