Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 13:58:43 (7691)

2001-05-14 13:58:43# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Þetta er alveg einstaklega ómaklegur og ómerkilegur málflutningur, en það er gott að hann skuli koma fram í ræðu hv. þm. Sjálfstfl., Kristjáns Pálssonar, því að það er þetta sem þingmenn stjórnarliðsins og forustumenn eru að segja hérna á göngunum og á götunni og eru að hringja í menn til þess að biðja þá að hlýða ekki kalli frá forustu sinni og félögum. Það er ágætt að fá hérna fram hvernig íhaldið, pólitíkin er að reyna að grafa í sundur samtök sjómanna til þess að veikja þá enn meir og koma þeim enn frekar á knén.

Og talandi svo um það að ríkisstjórnin sé heilög og með allt sitt á þurru. Hún frestaði deilunni með lögum þegar loksins var að komast skriður á viðræður fyrr í vetur ---- að eigin sögn --- og svo þekkjum við framhaldið. Og að ætla að halda því fram að sjómenn hafi þar með fengið að beita samtakamætti sínum í friði til þess að knýja á um lausna þessara mála er svo fráleitt að það tekur engu tali. Jafnvel hv. þm. Kristján Pálsson ætti ekki að reyna að segja það og er þá mikið sagt.