Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 14:02:49 (7694)

2001-05-14 14:02:49# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég lít svo á að sjómannasamtökin og LÍÚ hafi hálfan mánuð til þess að ná samningum áður en gerðardómur tekur til starfa. Ég er ekki að segja að hægt sé að ná fram miklum breytingum frá því sem búið er að semja um við vélstjóra. Ég veit ekkert um það. Ég hef samt sem áður heyrt að hægt væri að taka á ýmsum ákvæðum. Ég sé grundvallarmun á því hvort samtökin gera frjálsa samninga, ég kalla það frjálsa samninga sem menn geta gert á næstu tveimur vikum og náð þannig sameiginlegri niðurstöðu heldur en sitja uppi með einhvern gerðardóm eftir einn og hálfan mánuð og þurfa að vinna undir honum í fjögur og hálft ár. Það er mín persónulega skoðun að mér fyndist það alger niðurlæging fyrir þessa aðila að þurfa að sitja undir slíku. (ÖJ: Af hálfu hverra?) (Gripið fram í: Þú ert að bara styðja gerðardóminn.)

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að halda ró sinni því að hv. 4. þm. þarf að veita andsvar öðru sinni.)