Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 14:06:46 (7697)

2001-05-14 14:06:46# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, BH
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[14:06]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Stjórnarandstaðan á hinu háa Alþingi hefur, bæði í dag og eins síðasta laugardag, farið mjög ítarlega yfir og mótmælt harðlega þeim vinnubrögðum sem hv. þm. stjórnarandstöðunnar mættu í tengslum við framlagningu þess máls sem hér liggur fyrir og ég ætla í sjálfu sér ekki að gera frekar að umtalsefni, þ.e. meðferð málsins hingað til á hinu háa Alþingi, en einbeita mér frekar að efnisatriðum frv. og aðdraganda þeirra laga sem hér á að setja.

Rétt er að rifja það upp áður en vikið er frekar að efnisatriðum frv. að hæstv. ríkisstjórn hefur freklega hlutast til um málefni samningsaðila í þessari deilu. Gerði það síðast með framlagningu frv. þegar aðeins tæpir þrír sólarhringar voru liðnir frá því að verkfall hófst. Þegar því var frestað með lögum frá Alþingi einmitt á þeim tíma, herra forseti, þegar margir í hópi samningamanna töldu að skriður væri að komast á viðræður þá lagði hæstv. ríkisstjórn fram frv. til þess að fresta verkfalli um tvær vikur. Ég tel, herra forseti, að það hafi verið þá sem kannski stærsti skaðinn var skeður á milli samningsaðila því þá var mjög, má segja, dreginn krafturinn úr mönnum og skemmdi þessi frestun að mínu mati tvímælalaust fyrir möguleikum manna til að ná samningum þar á eftir. Þannig að hæstv. ríkisstjórn er ekki að koma að þessu máli fyrst núna með framlagningu þessa frv. og ég tel rétt að ítreka það hér.

Það frv. sem hér liggur fyrir felur ekki aðeins eftirfarandi í sér, eins og fram kemur í 1. gr.:

,,Verkfall aðildarfélaga Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, auk verkbanna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna gagnvart aðildarfélögum í Alþýðusambandi Vestfjarða, svo og verkföll og verkbönn og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, er óheimilt frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms skv. 2. og 3. gr.`` --- heldur er einnig kveðið á um eins og komið hefur fram að gerðardómur skuli vera settur upp í málinu hafi aðilar skv. 1. gr. ekki náð samkomulagi fyrir 1. júní 2001. Og það ákvæði frv. sem ég tel vera hvað alvarlegast og er ekki í nokkrum vafa um, herra forseti, að stangist á við fjölda alþjóðasamþykkta, félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og fleiri ákvæði sem ég mun rekja hér síðar, er 3. gr. frv. sem kveður á um hvernig gerðardómurinn skuli í rauninni taka ákvörðun sína. Það er að mínu mati mjög frekleg íhlutun í félagafrelsið. Ekki bara það að gripið sé inn í deilur samningsaðila með þeim hætti að setja gerðardóm með lögum heldur það að gerðardómurinn er ekki frjáls að því að komast að niðurstöðu og það er hlutur sem skiptir mjög miklu máli. Stjórnvöld eru með öðrum orðum að segja gerðardómi fyrir fram til um það hvernig hann eigi að leysa þessa deilu. Það stenst að mínu mati ekki þau lög og samninga sem heimila þó í vissum undantekningartilvikum að slíkar ráðstafanir séu gerðar að setja gerðardóm jafnvel þó að einhver mundi segja að þessar forsendur væru fyrir hendi.

Í 3. gr. skal gerðardómur við ákvörðun sína í fyrsta lagi taka mið af samningi um breytingar á þessum tiltekna kjarasamningi sem hér hefur margsinnis verið nefndur og ekki aðeins það, heldur skal hann líka ákveða gildistíma ákvarðana sinn og hafa í því sambandi hliðsjón af gildistíma þessa sama samnings sem er hvorki meira né minna en fjögur og hálft ár.

Herra forseti. Sá þáttur málsins, hversu langur gildistími þessarar íhlutunar mundi verða, tel ég einnig vera mjög ótvírætt brot á alþjóðasamþykktum og öðrum ákvæðum um félagafrelsi sem ég mun rekja hér á eftir. Það er ekki aðeins að ég lýsi yfir vanþóknun minni á því að stjórnvöld skuli grípa inn í deiluna með þeim hætti sem hér er gert, heldur ekki síður, herra forseti, hvernig það er gert. Það tel ég algjörlega óverjandi, herra forseti.

Þau ákvæði sem við erum að tala um að kunni að vera brotin og ég er ekki í nokkrum vafa um að eru brotin, eru ákvæði um svokallað félagafrelsi. Félagafrelsið er verndað í 74. gr. stjórnarskrárinnar og þar er kveðið á um rétt manna til að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi og sett eru sérstök skilyrði fyrir því hvernig starfsemi félags verði stöðvuð. Meðal annars er talað um það í stjórnarskránni að menn hafi rétt til þess að stofna stéttarfélög og vera aðilar að stéttarfélögum. Frá árinu 1995, þegar það ákvæði var sett inn í stjórnarskrá, hefur þetta félagafrelsisákvæði ef eitthvað er verið styrkt verulega frá því sem var áður fyrr, þar sem sérstaklega er vikið að stéttarfélögum og stjórnmálafélögum.

Í alþjóðlegum mannréttindasamningum er félaga- og fundafrelsið verndað í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 21. og 22. gr. samnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Rétturinn til að stofna stéttarfélög er síðan að auki sérstaklega verndaður í 8. gr. samnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi og í 5. og 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Við erum því að tala um slíka samninga hér. Það er sem sagt fjöldi alþjóðlegra samninga sem ég tel að a.m.k. 3. gr. brjóti alveg klárlega í þessu frv. Að auki er rétt að nefna samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, nr. 87 og 98, sem fjalla m.a. um félagafrelsi og koma mjög oft til umræðu í tengslum við það og er gjarnan tekið mið af þeim samþykktum þegar Mannréttindadómstóll Evrópu er að fjalla um hvort brotið sé á þessum ákvæðum mannréttindasáttmálans.

Félagafrelsi má síðan greina í tvo þætti, annars vegar jákvætt félagafrelsi og hins vegar neikvætt. Með neikvæða félagafrelsinu eigum við við réttinn til að standa utan félaga en jákvæða félagafrelsið, sem þetta frv. mundi tengjast, varðar rétt einstaklingsins til að ganga í eða stofna félög. Í jákvæðu félagafrelsi felst réttur einstaklinga til að hafa með sér félög í því markmiði að vernda sameiginlega hagsmuni sína og leggja rækt við sameiginleg markmið hvort sem er af efnahagslegum, faglegum, pólitískum, tómstundalegum, menningarlegum eða af öðrum toga. Verndin felst í að hindra opinber stjórnvöld í að hafa hamlandi áhrif á stofnun eða starfsemi slíkra samtaka.

[14:15]

Í raun er það oftast svo þegar fjallað er um hugsanleg brot stjórnvalda á félagafrelsisákvæðum að við erum að tala um réttinn til þess að fá að nota eiginlega slík samtök og að þau fái að starfa eðlilega án íhlutunar stjórnvalda.

Síðan er það þannig, herra forseti, varðandi félagafrelsið að inngrip stjórnvalda í þetta félagafrelsi þarf að vera á mjög miklum takmörkunum reist. Það er mjög afmarkað í mannréttindasáttmálum hvenær stjórnvöldum sé heimilt að grípa inn í þetta svokallaða félagafrelsi. Og hvernig það megi gera og hvenær, í hvaða tilvikum, er nánar rakið í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þar segir, með leyfi forseta:

,,1. Rétt skal mönnum að koma saman með friðsömum hætti og mynda félög með öðrum, þar á meðal að stofna og ganga í stéttarfélög til verndar hagsmunum sínum.

2. Eigi skal réttur þessi háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi vegna þjóðaröryggis eða almannaheilla, til þess að firra glundroða eða glæpum, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða réttindum og frelsi. Ákvæði þessarar greinar skulu eigi vera því til fyrirstöðu að löglegar takmarkanir séu settar við því að liðsmenn hers og lögreglu eða stjórnarstarfsmenn beiti þessum rétti.``

Það er því mjög klárlega dregið fram í 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu hvenær stjórnvöldum geti verið heimilt að grípa inn í deilur af þessu tagi.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur auk þess sagt að við túlkun á þýðingu og sviði þessa ákvæðis verði að taka tillit til túlkunar hinna tveggja aðalsamþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar á þessu sviði, þ.e. samþykkta nr. 87 og 98 sem hér voru nefndar áðan. Mannréttindasáttmálinn fylgir því í raun þeim túlkunum sem hafa verið notaðar í tengslum við þessar tvær greinar í samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.

Það er líka viðurkennd lagatúlkun á þessu sviði að til þess að hægt sé að víkja frá þessu félagafrelsi þegar verið er að skoða þessar undantekningar þá beri að túlka þær þröngt þannig að ekki er ætlast til að þetta sé gert nema í miklum neyðartilvikum.

Herra forseti. Síðan má spyrja sig að því hvort þau atvik séu uppi í samfélaginu í dag að stjórnvöldum sé heimilt í andstöðu við þessar meginreglur stjórnarskrárinnar og alþjóðlegra samninga að grípa inn í þá deilu sem hér er uppi. Er það nauðsynlegt í því lýðfrjálsa þjóðfélagi sem við búum við í dag að grípa inn í þessa deilu? Er það nauðsynlegt vegna öryggis almennings eða ríkis? Er það nauðsynlegt til að koma í veg fyrir óspektir eða glæpi? Er það nauðsynlegt til verndar heilbrigði eða siðgæði eða til verndar réttindum eða frelsi annarra? Ég held ekki, herra forseti, að svo sé.

Þegar við skoðum frv. sjálft og þær röksemdir sem hæstv. ríkisstjórn hefur fyrir framlagningu þess þá er einna helst að finna þessa réttlætingu hér, herra forseti:

,,Vinnustöðvunin hefur nú þegar valdið miklum skaða fyrir atvinnulíf landsmanna, nýtingu auðlinda sjávar, útflutningshagsmuni og fleiri þætti. Áhrif hennar eru hvað alvarlegust fyrir einstaklinga sem starfa við fiskvinnslu og fyrirtæki og sveitarfélög sem byggja afkomu sína á sjávarútvegi, en að auki hefur hún þegar haft áhrif langt út fyrir þá hagsmuni sem samningsaðilar fjalla um. Skýr merki eru um neikvæð áhrif vinnustöðvunarinnar á efnahagslífið og ef ekkert er að gert mun hún valda óbætanlegu tjóni fyrir þjóðarbúið í heild. Hér eru því ríkir almannahagsmunir í húfi og nauðsynlegt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir þann mikla efnahagsskaða sem áframhaldandi stöðvun fiskiskipaflotans mundi annars valda.``

Þarna höfum við rökstuðninginn, herra forseti, og hann er með öðrum orðum efnahagslegar ástæður, þ.e. fjármunir eru að tapast. En má ekki með sömu rökum, herra forseti, halda því fram að öll verkföll heimiluðu þetta, að allar verkfallsaðgerðir gætu fallið undir þetta, kannski í mismiklum mæli?

Er það ekki svo, herra forseti, að ef við viðurkenndum að efnahagslegar forsendur á borð við þær sem hér er fjallað um væru nægileg ástæða fyrir stjórnvöld til þess að grípa inn í verkfallsaðgerðir þá væri verkfallsrétturinn einskis virði, herra forseti, vegna þess að auðvitað tapast alltaf ákveðin verðmæti í verkföllum? Þau eru viðurkennd sem neyðarbrauð og neyðarúrræði í baráttu launafólks fyrir bættum kjörum og það tapast alltaf verðmæti. Ef við viðurkennum að það séu nægileg rök, herra forseti, þá held ég að við getum eins lagt niður verkfallsréttinn nú þegar.

Herra forseti. Líka má velta því fyrir sér að við höfum séð verkföll standa vikum saman. Minnist ég síðast verkfalls framhaldsskólakennara fyrir ekki svo löngu síðan sem stóð mjög lengi. Ég man eftir fjölda verkfalla í gegnum tíðina sem hafa staðið lengi og ekki hefur verið litið svo á að ástæða væri til að grípa inn í. Þarna er því greinilega ákveðið mat lagt til og ég tel að við það mat sé mjög mikilvægt að túlka það mjög þröngt hvenær stjórnvöld grípa inn í slíka deilu. Ég get ekki séð það, herra forseti, að nægileg rök séu fyrir því í þessu tilviki að grípa inn í deiluna jafnvel þótt staðan hafi vissulega verið alvarleg. En hún hefði kannski ekki verið eins alvarleg í dag ef stjórnvöld hefðu látið vera að grípa inn í deiluna á viðkvæmu stigi eins og gert var í upphafi verkfallsins.

Herra forseti. Ég vil aðeins rifja upp í þessu samhengi, og þá sérstaklega þegar ég er að velta upp þessu mati, hvenær eðlilegt sé að grípa inn í deilu og hvenær það sé heimilt annars vegar og hins vegar hversu langt slík inngrip megi ganga. Það skiptir ekki síður máli, herra forseti. Margoft hefur verið fjallað um það á vettvangi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og víðar þar sem fjallað er um þessi mál að ekki aðeins skuli túlka það þröngt hvenær megi grípa inn í heldur er ekki síður mikilvægt að inngripið sé eins lítið og nái eins skammt og mögulegt er. Það er ekki síst þar, herra forseti, sem ég tel að í tengslum við þessa margumræddu 3. gr. sé hæstv. ríkisstjórn að ganga mun lengra en henni getur nokkurn tíma verið heimilt samkvæmt þeim alþjóðasamningum sem ég nefndi áðan.

Í þessu sambandi ætla ég að rifja upp tilvik sem hafa verið kærð til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og varða lög á verkföll. Fyrra tilvikið sem ég vildi nefna er kæra Alþýðusambands Íslands frá 14. júní 1988. Þá voru sett lög á verkföll og vísað var til ákveðinna, eigum við ekki að segja, langvarandi vandamála í efnahagslífi þjóðarinnar sem þyrfti að reyna að ná tökum á sem ríkisstjórnin beitti fyrir sig í þeirri lagasetningu. Ég ætla ekki að líkja saman því ástandi sem var hér í aðdraganda þjóðarsáttarinnar í efnahagslífinu og því ástandi sem ríkir nú þannig að hafi ríkisstjórnum einhvern tíma verið heimilt að vísa til efnahagsástands þá er kannski svolítill munur á þá og nú. Alþýðusambandið kærði þessa lagasetningu til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagafrelsisnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar komst að ákveðinni niðurstöðu í því máli. Í túlkuninni þar er mjög fróðlegt að skoða hvernig þeir túlkar rétt til frjálsra samninga. Þeir segja m.a., með leyfi forseta:

,,Rétturinn til frjálsra samninga við atvinnurekendur hvað varðar launakjör er ómissandi þáttur af félagafrelsi og ættu verkalýðsfélög að hafa rétt til, með samningum milli aðila vinnumarkaðarins eða öðrum löglegum hætti, að leitast við að bæta lífs- og atvinnuskilyrði þeirra sem verkalýðsfélögin eru fulltrúar fyrir. Stjórnvöld ættu að forðast nokkur afskipti sem hamla á móti þessum rétti eða hindra löglega beitingu hans. Slíkar hömlur mætti telja brot á þeirri reglu að launafólk og atvinnurekendur hafi rétt til að skipuleggja starfsemi sína og móta starfsáætlanir sínar.``

Þeir segja líka, með leyfi forseta:

,,Bæði nefndin um félagafrelsi og sérfræðinganefndin um framkvæmd samþykkta og tillagna hafa viðurkennt að nokkrar takmarkanir megi setja á frelsi aðila vinnumarkaðarins ef brýna efnahagslega nauðsyn þjóðar beri til. Slíkar hömlur skyldi aðeins setja í undantekingartilvikum og aðeins að því marki sem nauðsynlegt er án þess að þær standi lengur en í eðlilegan tíma og ætti jafnframt að gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda lífskjör launafólks.``

Herra forseti. Ég held að þessi þáttur sé mjög mikilvægur og nákvæmlega þessi túlkun, að þeir segja með öðrum orðum að ef heimilt gæti verið vegna efnahagslegra forsendna, sem ber að túlka mjög þröngt, er það alveg klárt að slíka heimild ber aðeins að nota í eins skamman tíma og mögulegt er. Þar er alveg klárt, herra forseti, að menn eru ekki að tala um bindingu í fjögur og hálft ár eins og gert er ráð fyrir hér í þessu máli. Þetta gengur út yfir öll mörk, herra forseti.

Það var síðan niðurstaða nefndarinnar varðandi þessi lög árið 1988 að á heildina litið hafi borið brýna þjóðarnauðsyn til að setja slíkar hömlur. Það var með tilvísan til þess að efnahagsástand þjóðarinnar á þeim tíma hafi verið svo bágborið að nauðsynlegt hafi verið að grípa inn í. Það er líka sagt að þær takmarkanir hafi verið settar á þessum tíma að því marki sem nauðsynlegt var. Þá minnir mig að það hafi verið að setja gerðardóm til þess að semja í u.þ.b. árstíma minnir mig. Og þá skiptir máli að þær hafi aðeins verið í gildi um eðlilegan tíma og það er það sem nefndin byggir mjög niðurstöðu sína á og er í raun algerlega í andstöðu við það sem við erum að tala um hér.

Síðan þá hafa fleiri lög verið sett á vinnudeilur. Ég vil nefna eitt dæmi til viðbótar. Sett voru lög á deilu manna sem störfuðu hjá Herjólfi. Þau lög voru sett á 116. löggjafarþingi 1992--1993. Það voru tiltölulega einföld lög þar sem 1. gr. hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Verkfall Stýrimannafélags Íslands á ms. Herjólfi, svo og verkbönn, verkföll og aðrar aðgerðir sem ætlað er að knýja fram aðra skipan kjaramála en lög þessi ákveða, er óheimilt.``

Síðan var kveðið á um að tiltekin félög sem ekki hefðu samið hefðu frest í skamman tíma til þess að komast að samkomulagi. Það er svipað fyrirkomulag og hér er gert ráð fyrir. En síðan skyldi setja gerðardóm ef ekki hefði náðst samkomulag. En gerðardómnum eru settar ákveðnar hömlur í 3. gr. þeirra laga. Þær eru þó ekkert í líkingu við það sem þessum ágæta gerðardómi í þessu frv. er fyrirskipað. Gerðardómurinn í Herjólfsdeilunni skyldi við ákvörðun vinnutilhögunar, kaups og kjara samkvæmt þeim lögum hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu. Ekki var nú meiri binding ákveðin þar í lögunum. Eigi að síður, herra forseti, taldi félagafrelsisnefnd Alþjóðavinnumálastofnunarinnar að þarna hefði gerðardómnum verið settar of miklar skorður í sínum störfum og það er þó ekkert í líkingu við það, herra forseti, sem við erum að sjá í þessu frv.

Í þessari deilu kemst félagafrelsisnefndin að þeirri niðurstöðu að nefndin viðurkenni eins og sérfræðinganefndin um beitingu alþjóðasamþykkta og tilmæla að svo kunni að fara í samningaviðræðum að stjórnvöld verði réttlætt í því að loknum langvinnum og árangurslausum samningaviðræðum að grípa í taumana þegar augljóst er orðið að ekki reynist unnt að koma viðræðunum úr sjálfheldu án afskipta þeirra. Þetta er það sama og var í fyrri kærunni, þ.e. það er alltaf tekið fram að þau tilvik geti verið uppi að réttlætanlegt sé að það beri að grípa inn í, en það beri að túlka mjög þröngt. Síðan segir, með leyfi forseta, í niðurstöðu nefndarinnar:

,,Nefndin hefur auk þess áhyggjur af því að í 3. gr. laganna er ákvæði þess efnis að gerðardómurinn skuli við ákvörðun kaups og kjara samkvæmt lögum þessum hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu. Ríkisstjórnin segir að þetta ákvæði hafi verið sett í lögin í samræmi við þjóðarsáttarsamningana frá 1990 en með þeim náðist víðtæk samstaða á Íslandi um markvissar aðgerðir til að sigrast á þrálátri verðbólgu sem hafði þjakað efnhagslíf Íslands í marga áratugi. Nefndin gefur einnig gaum að því að Hæstiréttur tilnefndi gerðardómsmennina þrjá. Nefndin kemst hins vegar ekki hjá því að veita því athygli að orðalag ákvæðisins veitir gerðardómnum ekki neinn sveigjanleika til túlkunar.``

Herra forseti. Eigi að síður er þetta ákvæði í lögunum um Herjólfsdeiluna mun rýmra og mun minna takmarkandi fyrir gerðardóminn en það sem við erum að tala um í dag.

[14:30]

Gerðardómurinn sjálfur viðurkennir þetta þar eð hann bendir á í úrskurði sínum að þetta ákvæði takmarki mjög frelsi hans til að leysa málið því að prinsippið, herra forseti, er í rauninni það að ef menn viðurkenna að rétturinn sé fyrir hendi til að grípa inn í og til að setja gerðardóm í deilu þá er það meginhugsunin, herra forseti, að sá gerðardómur eigi að vera frjáls að því hvernig hann leysir þá deilu. Þessu verður hæstv. ríkisstjórn Íslands að átta sig á. Hún er ekkert hafin yfir þá alþjóðasamninga sem við erum skuldbundin af, stjórnarskrána eða önnur ákvæði sem hafa komið þessu svona fyrir. Og það er ekki okkar hér að ákveða það jafnvel þó að okkur væri heimilt að grípa inn í þessa deilu, sem ég leyfi mér að efast stórlega um, það er bara ekki í okkar valdi að ákveða hvernig þessi gerðardómur kemst að niðurstöðu ætli ríkisstjórnin að fela honum að leysa þessa deilu. Það er ekki hennar að segja honum fyrir verkum með það. Ekki frekar en að það er ekki hæstv. ríkisstjórnar að segja t.d. dómstólum fyrir verkum, hvernig þeir komist að niðurstöðu. (SvH: Það er nú það sem þeir hafa tekið að sér samt.) Það er nú það sem þeir hafa tekið að sér, kallar hv. þm. fram í, og margt til í því.

Einnig er sagt í niðurstöðu félagafrelsisnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar varðandi Herjólfsmálið, með leyfi forseta:

,,Í þessu sambandi minnir nefndin ríkisstjórnina á að til þess að öðlast og halda tiltrú málsaðila er nauðsynlegt að hvers konar gerðardómskerfi sé raunverulega sjálfstætt og að niðurstaða gerðardóms skuli ekki fyrir fram ákveðin með lögum. Af þessum ástæðum telur nefndin að lögin eins og þeim er beitt gegn stéttarfélagi sem átti ekki beina aðild að umræddri deilu sé íhlutun sem takmarkar rétt stéttarfélaga til að ganga til frjálsra samninga við atvinnurekendur en slíkt er brot á þeirri meginreglu að aðilar skuli ganga óheftir til almennra kjarasamninga. Nefndin biður því ríkisstjórnina að forðast í framtíðinni að grípa til slíkrar íhlutunar með lagasetningu.``

Herra forseti. Vakin var athygli á þessum tilmælum félagafrelsisnefndar ILO hér í morgun af hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni og ég sé ástæðu til þess, herra forseti, að ítreka það að hæstv. ríkisstjórn sé minnt á þessi tilmæli félagafrelsisnefndar ILO, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem eru ekki eldri en frá 1995, ég held að niðurstaðan hafi fengist þá. Og í kjölfar þessarar umfjöllunar eru tilmæli nefndarinnar þau að hún vekur athygli kærenda og ríkisstjórnarinnar á þeirri meginreglu að jafnt atvinnurekendur sem og stéttarfélög skuli ganga til samninga í góðri trú og leggja sig fram um að ná samningi og að viðunandi samskipti aðila vinnumarkaðarins verði fyrst og fremst háð afstöðu aðila hvors til annars og gagnkvæmu trausti.

Í öðru lagi minnir nefndin ríkisstjórnina á að til þess að öðlast og halda tiltrú málsaðila er nauðsynlegt að hvers konar gerðardómskerfi sé raunverulega sjálfstætt og niðurstaða gerðardóms skuli ekki fyrir fram ákveðin með lagaákvæðum og síðan segir í þriðja lagi að að teknu tilliti til þess að lögin á Herjólfsdeiluna, eins og þeim er beitt gegn stéttarfélagi sem átti ekki beina aðild að umræddri deilu, sé íhlutun sem takmarkar rétt stéttarfélaga til að ganga til frjálsra samninga við atvinnurekendur en slíkt er brot á þeirri meginreglu að aðilar skuli ganga óheftir til almennra kjarasamninga. Og nefndin fer þess á leit við ríkisstjórnina að hún forðist í framtíðinni að grípa til slíkrar íhlutunar með lögum.

Herra forseti. Ég hef rakið nokkur tilvik sem ég tel renna stoðum undir þá kenningu mína að þessi lagasetning eins og hún er úr garði gerð, sama hvernig á hana er litið, geti ekki staðist alþjóðasamninga, félagafrelsisákvæði stjórnarskrárinnar og samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem Ísland er bundið af og vísa þar til 74. gr. stjórnarskrárinnar, 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 87 og 98, og það má reyndar rekja fleiri ákvæði eins og ég gerði fyrr í máli mínu, m.a. í félagsmálasáttmála Evrópu og í samningnum um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og í samningnum um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi. Það er að mínu mati algjörlega augljóst að 3. gr. eins langt og hún nær, jafnvel þó að fallist yrði á að inngripið hafi verið heimilt, varðandi gildistíma og það hvernig hún í raun og veru bindur --- við getum sett þetta þannig upp að 163 menn í Vélstjórafélaginu hafa samþykkt kjarasamning sem á að binda 6 þúsund manna hóp. Það segir sig sjálft, herra forseti, og ekki aðeins á þessi litli hópur manna að binda 6 þúsund manna hóp sem er í öðrum stéttarfélögum og í öðrum stéttarfélagasamböndum heldur á þessi binding að vara í fjögur og hálft ár. Það er því alveg augljóst af minni hálfu, herra forseti, að þessi íhlutun nær allt of langt jafnvel þó svo að einhver mundi telja hana heimila. Eins og ég hef rakið í máli mínu gengur þessi íhlutun lengra en brýna nauðsyn ber til, hún getur ekki fallið undir undantekningarákvæði 11. gr. mannréttindasáttmálans sem gæti heimilað slíka íhlutun, gildistíminn er lengri en nauðsyn ber til og síðast en ekki síst er gerðardómurinn ekki frjáls að niðurstöðu sinni, sem ég tel ekki standast þessi sömu ákvæði. Ég held að mjög mikilvægt sé að hið háa Alþingi hafi það í huga þegar við erum að fjalla um þetta mál hér hvaða eftirmála slík lagasetning gæti haft í för með sér.

Herra forseti. Ég rakti tilmæli félagafrelsisnefndar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem er ekki svo ýkja gömul, nokkurra ára gömul, en eigi að síður gengur ríkisstjórnin mun lengra í þessu frv. Það má kannski draga þá ályktun, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn taki ekki mikið mark á slíkum tilmælum frá alþjóðlegum stofnunum eða öðrum sem fjalla um þessi mál. Ég tel hins vegar mjög mikilvægt að við gerum það, herra forseti, og að við berum virðingu fyrir þeim alþjóðlegu samþykktum sem við höfum skuldbundið okkur til að hlíta og ég vil a.m.k. velta því upp hvaða þýðingu það mundi hafa fyrir Ísland og fyrir hróður íslenskra stjórnvalda út á við ef kæra mundi koma í kjölfar þessarar lagasetningar og fara fyrir Alþjóðavinnumálastofnunina eða jafnvel Mannréttindadómstól Evrópu og hún færi á þann veg sem ég mundi spá að hún gerði, ef 3. gr. fer óbreytt í gegn á hinu háa Alþingi. Ég er ekki í nokkrum vafa um það, herra forseti, að sú niðurstaða mundi verða okkur til lítils sóma, og tel mjög mikilvægt að við höfum það í huga þó að það sé ekki okkar hér að taka ákvörðun um það hvort slík lagasetning yrði kærð, það eru væntanlega sjómannasamtökin sem velta því fyrir sér hvort þau vilji gera það. En, herra forseti, skömmin yrði stjórnvalda og Alþingis að samþykkja svo mikla íhlutun í félagafrelsi og frjálsan samningsrétt sem þetta frv. ber með sér og ég ætla rétt að vona, herra forseti, að við berum gæfu til þess að koma í veg fyrir að það verði gert.