Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:07:24 (7712)

2001-05-14 16:07:24# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Árni Johnsen (andsvar):

Herra forseti. Ég held að öll þau atriði sem hv. síðasti ræðumaður vék að eigi hér einhvern þátt og líklega fleiri atriði einnig. Það er auðvitað þannig að uppsafnaður vandi þeirra mörgu ára sem ekki hafa náðst samningar hefur gert málið mjög margslungið og hagsmunir hafa alltaf verið að aukast meira og meira til ýmissa átta í þessum efnum, hvort sem það er hjá sjómönnum eða útgerðarmönnum. Samflot stéttarfélaga sjómanna, samtaka sjómanna um árabil sem eru nú rofin hafa á margan hátt speglað að menn vildu reyna að ná þarna einhverri leið í heild en sá möguleiki var brotinn niður og öll fordæmi fyrri samninga og uppstokkunar eins og hefur átt sér stað í þessari samningalotu sem nú hefur verið hafi verið á þá leið að út frá þeim póstum hefur verið gengið hjá þeim sem fyrst samdi, a.m.k. að einhverju leyti.

En þó er það mat mitt að vandi gerðardóms sé óvenjumikill í þessari stöðu vegna þess að ekki er samræmi á milli margra þátta í réttindum og kjaramálum, annars vegar vélstjóra, farmanna og fiskimanna og síst sjómanna, sem hafa á margan hátt setið eftir í dæminu miðað við þá þrjá aðila sem ég nefni.