Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:11:47 (7715)

2001-05-14 16:11:47# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:11]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég held að óhjákvæmilegt sé að fara aðeins í aðdraganda þessa máls í upphafi ræðu minnar og þá í rauninni í tvíþættum tilgangi, bæði til að fara yfir þann tíma sem sjómenn hafa meira og minna verið samningslausir og einnig aðdraganda þess að við erum nú að takast á við frv. sem á að binda enda á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna.

Menn hafa nokkuð rætt það í dag hvaða starfsumhverfi sjómönnum er boðið upp á og velt vöngum yfir því hvenær sjómannadeilan byrjaði. Sjómenn sjálfir hafa talað um að hún ætti um þessar mundir 10 ára afmæli vegna þess að árið 1991 hafi þess verið farið að gæta að sjómenn væru látnir taka þátt í kvótakaupum. Ég held, herra forseti, að við eigum að fara aðeins aftar. Ég held að við eigum að fara aftur til þess tíma þegar fiskverð var gefið frjálst vegna þess að fram til þess tíma þurftu sjómenn í sjálfu sér ekki að hafa miklar áhyggjur af því hvernig þess kvóta var aflað sem veiddur var vegna þess að fiskverðið var ákvarðað af verðlagsráði eins og menn þekkja, oftast með atkvæði oddamanns. Menn náðu ekki samkomulagi heldur var tekin ákvörðun sem ríkið bar síðan ábyrgð á í sjálfu sér varðandi það hvert framhaldið yrði, hvert fiskverðið væri og þessi ákvörðun var síðan það sem lagði grundvöllinn að efnahagsstjórninni næstu mánuði á eftir.

Þegar það hafði gerst, herra forseti, að fiskverðið var gefið frjálst og var ekki lengur ákvarðað af nefnd, þá höfðu skapast allt önnur skilyrði hér. Þar með var það ákvæði kjarasamnings og laga um það að útgerðarmaður skyldi ávallt leita hæsta gangverðs fyrir þann afla sem hans skip aflaði orðið visst. Herra forseti. Þá hlutu auðvitað að skapast ákveðnar deilur vegna þess að á sama tíma og þetta gerist taka fiskmarkaðir til starfa og þar með er orðið til þetta viðmið sem gefur mönnum hugmyndir um hvert hæsta gangverð er. Þegar sjómenn horfðu til þess að annars vegar var verið að selja afla á fiskmarkaði við verði sem sannanlega var þá markaðsverð og hins vegar það sem þeir voru að fá í sinn hlut ef um það var að ræða að skipið var að selja til eigin vinnslu, þá hlutu menn að fara að horfa til þess hvernig þetta verð myndaðist. Hvernig myndaðist verðið þar sem menn voru ýmist að selja skyldum aðila yfir beinum viðskiptum?

[16:15]

Þannig var upphaf þessarar sjómannadeilu, herra forseti, sem enn er í gangi vegna þess að enn hafa útvegsmenn ekki fengist til að samþykkja að markaðurinn eigi að ráða fiskverði. Enn er verið að leita leiða fram hjá því, enn er verið að búa til nefndir, enn er verið að búa til aðferðir, enn er verið að búa til skálkaskjól fyrir það sem menn hafa oft og einatt kallað kvótabrask, sem það verður þegar farið er að brjóta á sjómönnum. Þetta er hluti aðdraganda þeirrar deilu sem enn stendur og mér sýnist ætla að taka heldur óvænta og vonda stefnu verði þetta frv. að lögum óbreytt.

Herra forseti. Á þessu tíu ára tímabili hafa sjómenn margsinnis farið í verkföll og reynt að ná samningum og verðlagsmálin hafa verið stærsta málið á öllum tímum. Þegar menn koma hér og tala um að e.t.v. sé ekki hægt að ætlast til þess að sjómenn og útvegsmenn, eða þeir sem sitja við borðið, ráði við þá deilu sem stendur yfir þá hljóta menn að eiga við að starfsumhverfið sé þannig. Alþingi hefur ekki verið tilbúið til að takast á við breytingar á þessu starfsumhverfi, það þekkjum við jafnaðarmenn sem höfum lagt fram tillögur um að allur afli yrði seldur yfir fiskmarkaði og höfum tekið þátt í tillöguflutningi þess efnis að fjárhagslegur aðskilnaður eigi sér stað á milli veiða og vinnslu. Þau mál hafa ekki hlotið mikinn hljómgrunn á Alþingi, herra forseti, a.m.k. ekki hjá þeim sem mynda ríkisstjórnarmeirihlutann.

Ég vil líka, herra forseti, vegna þess að ég var hér á laugardaginn þegar útbýtingarfundur var boðaður, láta í ljósi óánægju með hvernig staðið var að málum. Og ekki bara óánægju. Ég vil, herra forseti, fara fram á að okkur þingmönnum og sjómönnum verði ekki oftar sýnd sú lítilsvirðing sem þar kom fram.

Hér var boðað til útbýtingarfundar sem eins margoft hefur komið fram er hefðbundinn til að dreifa málum sem stjórnarandstaðan og stjórnin vita þá jafnan bæði um hvernig eru vaxin. Ef um er að ræða nefndarálit eða breytingartillögur þá er það jafnan ljóst í nefnd hvernig þau mál eru vaxin. En ég held, herra forseti, að engum hafi komið til hugar að ríkisstjórnin kæmi inn þegjandi og hljóðalaust, með mál, nýtt þingmál löngu eftir að frestur var liðinn og þar að auki mál sem ljóst var að þingmenn stjórnarandstöðunnar töldu mjög mikilvægt að fá að vita um hvort væru í farvatninu eður ei. Það mátti hæstv. sjútvrh. vera ljóst og allri ríkisstjórninni vegna fyrri umræðna um þessi mál á hinu háa Alþingi.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir kom upp í andsvari í dag og gerði ágætlega grein fyrir viðhorfi sínu, sem ég geri að mínu, til þess hvernig staðið var að þessum útbýtingarfundi og þess sem þar fór fram. Ég hef ekki þá reynslu að ég treysti mér til að segja að það hafi verið einsdæmi en ég er viss um að fá dæmi finnast um það að menn hafi á þessum tíma, þegar komið er fram undir þinglok og löngu eftir að allir frestir eru liðnir, læðst inn í þingið þegjandi og hljóðalaust með mál af þessari stærðargráðu.

Hér hefur, herra forseti, verið rætt nokkuð um vilja og viljaleysi sjómanna og útvegsmanna til samninga. Menn hafa talað um að útvegsmenn hafi í sjálfu sér aldrei þurft að sýna neinn vilja vegna þess að þeir hafi ávallt getað treyst því að þeir héldu þessu samningsumhverfi sem þeir vilja hafa og þess vegna hafi samningsvilji þeirra ávallt tekið mið af því að á endanum tæki Alþingi í taumana.

Þá hafa menn litið til þess hvort sama viljaleysi hafi verið hjá sjómönnum. Ég vil fara aðeins yfir það, herra forseti, vegna þess að mér hefur fundist það býsna áberandi í umræðunni í dag að menn haldi því fram að sjómenn beri ábyrgð á því hvernig komið er. Ég ætla að hafna því. Þetta er í rauninni fráleitt og einungis til þess gert, af þeim sem þannig tala, að taka þátt í því með útvegsmönnum að gera einstöku forustumenn sjómanna tortryggilega. Ég minni á að í janúar voru öll samtök sjómanna sammála um að gera útvegsmönnum það tilboð að gerður yrði samningur um þau atriði sem við getum kallað hefðbundin og klassísk kjarasamningsatriði en að stóru ágreiningsmálin, verðmyndunarmálið og mönnunarmálin, yrðu sett í ákveðinn farveg í eitt ár og menn leituðust við að leysa þau þar. Þessu tilboði var hafnað af hálfu útvegsmanna. Menn geta svo velt því fyrir sér hverjir sýndu samningsvilja.

Herra forseti. Mér er kunnugt um að þegar sjómönnum var ljóst að þeim stóð ekki annað til boða og mundi ekki standa annað til boða en kjarasamningur sá er þá hafði verið gerður af hálfu LÍÚ eða samtaka atvinnulífsins við vélstjóra, þá fóru þeir fram á eða buðust til að gera þann samning að sínum með breytingum sem væru nær þeim kröfum sem samtök þeirra höfðu sett fram, t.d. breytingum á mönnunarmálum þar sem sjómenn vildu eðlilega koma í veg fyrir að sú regla sem smíðuð er inn í vélstjórasamninginn hefði þau áhrif sem hún mun hafa á samninga sjómanna ef hún er óbreytt gagnvart þeim. Farmanna- og fiskimannasambandið segir að þar sé um að ræða kjararýrnun upp á 14%, sjómannasamtökin upp á 12%. Auðvitað vildu menn slá varnagla gagnvart slíkum launalækkunum í samningnum.

Sjómenn vildu líka fá ákveðin ákvæði inn varðandi viðbótarlífeyrissparnaðinn, að þar væri ekki bara farið eftir kauptryggingu --- það er geysilegur munur á kauptryggingum aðila --- heldur væri um ákveðna upphæð að ræða og jafnræði með aðilum þegar kæmi að viðbótarlífeyrissparnaði. Menn vildu láta skoða slysatryggingar með öðrum hætti og uppsagnarfrest. Þetta voru, herra forseti, ef ég hef skilið málið rétt, allt atriði sem einstakir útvegsmenn voru áður búnir að lýsa yfir vilja til að taka inn í kjarasamninginn. En þegar þeir höfðu vélstjórasamninginn í hendi og þau ákvæði sem þar eru höfðu þeir auðvitað engan áhuga á að standa við það sem þeir höfðu áður sagt í prívatviðtölum. Auðvitað ekki, herra forseti. Það var búið að búa til þetta fína umhverfi fyrir þá áfram.

Hvernig dettur mönnum í hug að bjóða upp á það í því frv. sem hér liggur fyrir að gerður verði kjarasamningur næsta hálfa mánuðinn? Það er ekki aðeins að menn hafi vélstjórasamninginn inni í þessu frv. --- ég er með útgáfuna sem ég eignaðist á laugardaginn en ekki frv. eins og það lítur út núna í hinni snotru útgáfu þingsins --- herra forseti, það kemur ekki nokkrum manni til hugar að hægt sé að gera kjarasamning undir þessum kringumstæðum. Í frv. er ekki aðeins gengið út frá vélstjórasamningnum sem útvegsmenn stóðu stífir á gagnvart sjómönnum. Hér inni eru fleiri ákvæði sem útvegsmenn eru væntanlega tiltölulega hamingjusamir með. Hvernig ætti þeim þá að detta í hug að fara að gera kjarasamning við sjómenn um eitthvað annað?

Það er svo mikið hneyksli, herra forseti, að hafa þetta í frv., að láta sér detta það í hug, og slík háðung að þetta hlýtur að vera eitt af því sem stingur hvað mest í augun og gerir sjómönnum hvað erfiðast fyrir að horfa á þetta plagg. Svo koma menn hér og segja, t.d. hv. þm. Kristján Pálsson: Menn hafa hálfan mánuð til að semja, ef þeir vilja. Um hvað eiga þeir að semja, herra forseti?

Það er búið að sníða sjómönnum afar þröngan stakk, jafnvel þrengri en þann sem vélstjórarnir voru tilbúnir að fara í. Ég ætla ekki að gera að umræðuefni hér, herra forseti, hvaða munur er á starfsaðstæðum vélstjóra annars vegar og hins vegar sjómanna í Farmanna- og fiskimannasambandinu og Sjómannasambandi Íslands. Ég ætla ekki að fara yfir það hér en það vita það allir sem vilja að þarna er nokkur munur á. Eða þekkja menn til þess að algengt sé að stýrimenn eða óbreyttir hásetar séu með verktakasamninga við útgerðirnar? Þekkja menn til þess? Af hverju halda menn að það hafi verið jafnlítill áhugi á kjarasamningi vélstjóra og raun ber vitni? Ætli það hafi ekki verið 15 eða 16% starfandi vélstjóra sem samþykktu þennan samning, þessir 163 sem nú hafa lagt línuna algerlega, fyrir alla sjómenn í landinu ef vilji ríkisstjórnarinnar nær fram að ganga.

Herra forseti. Ég hef ekki tíma til að fara í þetta. Ég ætla að fara í önnur mál hér en þetta skiptir auðvitað máli þegar horft er til kjarasamnings vélstjóra sem lagður er til grundvallar og hins vegar aðstæðna annarra samtaka sjómanna en skýrir að hluta að leiðir gat skilið eftir að hæstv. samgrh. hafði fallist á að mönnunarákvæðin færu út úr því frv. sem hér lá fyrir. Sú sem hér stendur var reyndar ítrekað búin að fara fram á að það yrði gert. Eins og við sjáum liggur hér fyrir málið um áhafnir íslenskra fiskiskipa, eins og það kemur frá hv. samgn., eftir að búið er að taka mönnunarkafla fiskiskipanna út.

Herra forseti. Þetta þingmál er sem sé tvíþætt. Annars vegar eru gerðardómsákvæði, ákvæði sem sett eru inn til að taka á þeim samtökum sjómanna sem ekki hafa samið. Hins vegar eru sett inn ákvæði sem að því er virðist eiga að bakka upp kjarasamning vélstjóra og munu þá í raun taka til kjarasamninga vélstjóra hvort sem sjómenn kjósa að aflýsa verkfalli eða ekki. En hæstv. sjútvrh. sagði fyrr í dag að þótt sjómenn aflýsi þá séu ákveðin ákvæði í þessu frv. sem áfram mundu verða til staðar í frv. sem lagt yrði fram samhliða. Til að tryggja að samningur vélstjóra geti virkað eins og hann á að virka þá þarf að breyta t.d. lögunum um Verðlagsstofu skiptaverðs og fleira.

Það sem mig langar til þess að nefna, herra forseti, næst í máli mínu eru einmitt ákvæðin sem snúa að gerðardómnum. Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir fór ágætlega yfir það í dag hvaða möguleika íslensk stjórnvöld eiga til að grípa inn í kjaradeilur aðila á frjálsum markaði, hvaða möguleika stjórnvöld eiga á hverjum tíma til að skipta sér af félögum sem hér hafa starfsréttindi, bæði samkvæmt íslensku stjórnarskránni og lögum og vegna ákvæða sem við erum bundin af í alþjóðlegum samningum. Hv. þm. tilgreindi hvaða starfsréttindi, hvaða starfsreglur og starfsumhverfi þau eiga rétt á að starfa við.

Hv. þm. fór yfir það sem gæti réttlætt að stjórnvöld gripu inn í kjaraviðræður eða hefðu bein afskipti af því sem er að gerast milli samningsaðila. Eftir að hafa farið mjög vandlega yfir málið var niðurstaða hennar sú að þó að helstu réttlætingarrök hæstv. ríkisstjórnar fyrir frv. séu að efnahagslegu áhrifin séu einhver þá nægir það ekki. Ef stjórnvöld ætluðu með beinum hætti að hafa áhrif á það sem viðsemjendur eru að gera þá yrði alltaf að túlka það mjög þröngt.

[16:30]

Herra forseti. En það var ekki bara að túlka yrði mjög þröngt það mat hvenær eða undir hvaða kringumstæðum stjórnvöld gætu farið að skipta sér af deilu, heldur kom það líka fram í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur að ef menn kjósa að setja lög sem innibera það að gerðardómur takist á við deiluna, þá mega menn ekki setja gerðardómi þær skorður sem settar eru í því frv. sem liggur fyrir.

Herra forseti. Vegna þess að mér finnst þetta vera mikilvægt atriði og hæstv. félmrh. er í salnum óska ég eftir því að hann komi hér á eftir og segi álit sitt og svari spurningum mínum varðandi þetta atriði. Ég vil, herra forseti, rétt fara yfir þau skilaboð sem íslensk stjórnvöld hafa áður fengið vegna afskipta af kjarasamningum. Ég vil í fyrsta lagi, herra forseti, nefna svokallað Herjólfsmál. Þar fóru stjórnvöld inn og nefndin, félagafrelsisnefnd ILO, leit til þess að umrædd deila, Herjólfsdeila, hafi verið komin í sjálfheldu. Í því tilfelli voru deiluaðilum veittir tveir mánuðir í viðbót til að ná samkomulagi með samningaviðræðum. Úr því varð ekki og þá var skipaður gerðardómur. ILO-nefndin gaf því gaum að Hæstiréttur tilnefndi gerðardómsmennina þrjá. Og nú vitna ég beint, með leyfi forseta:

,,Nefndin komst ekki hjá því að veita því athygli að orðalag ákvæðisins veitti gerðardómnum ekki neinn sveigjanleika til túlkunar. Gerðardómurinn sjálfur viðurkennir þetta þar eð hann bendir á í úrskurði sínum að þetta ákvæði takmarki mjög frelsi hans til að leysa málið. Í þessu sambandi minnir nefndin ríkisstjórnina á að til þess að öðlast og halda tiltrú málsaðila sé nauðsynlegt að hvers konar gerðardómskerfi sé raunverulega sjálfstætt og að niðurstaða gerðardóms skuli ekki fyrir fram ákveðin með lögum.``

Síðar segir, með leyfi forseta:

,,Nefndin biður því ríkisstjórnina að forðast í framtíðinni að grípa til slíkrar íhlutunar með lagasetningu.``

Herra forseti. Þetta Herjólfsmál er frá árinu 1993. Hér er hins vegar annað mál frá 1998 þar sem við fáum líka skilaboð af því að íslensk stjórnvöld höfðu haft afskipti af kjarasamningum. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hins vegar gefur nefndin gaum að því að upphaflega var lögunum aðeins ætlað að gilda í 11 mánuði en sá tími var styttur síðan.`` --- Hér eru menn að tala um fjögur og hálft ár.

,,Að kauphækkanir samkvæmt 1. gr. laganna voru mjög svipaðar þeim sem þegar hafði verið samið um með frjálsum kjarasamningum og með lögunum hafði verið unnið markvisst að því að hafa hömlur á verðlagi og í sumum tilvikum vöxtum.

Nefndin tekur engu að síður undir það sjónarmið sóknaraðila að endurtekin beiting laga til að breyta gildandi kjarasamningum eða til að hafa stjórn á efni samninga í framtíðinni grefur undan trú launafólks á gildi aðildar að verkalýðsfélögum. Félagar þeirra eða mögulegir félagar þeirra geti talið að það sé lítið gagn að því að styðja eða ganga í samtök sem hafa þann megintilgang að vera fulltrúi fyrir félaga sína í kjarasamningum við atvinnurekendur ef löggjafinn nemur það úr gildi hvað eftir annað.``

Herra forseti. Það sem mig langar til að spyrja hæstv. félmrh. um er í fyrsta lagi: Telur hann að þær orðsendingar sem íslensk ríkisstjórn fær í Herjólfsmálinu þar sem nefndin biður ríkisstjórnina að forðast í framtíðinni að grípa til slíkra íhlutana með lagasetningu, og þar er verið að fjalla um gerðardóm og hvernig honum er sett fyrir með lögum, telur hæstv. félmrh. að það ákvæði sem er hér í frv. sem hæstv. ríkisstjórn virðist hafa samþykkt að lagt væri fyrir Alþingi, mundi standast sambærilega skoðun og það ákvæði fékk sem hér er til skoðunar í svokölluðu Herjólfsmáli? Þar var, ég vil endurtaka það, gengið mun skemur en gert er í þessu frv. Telur hæstv. félmrh. að íslensk stjórnvöld geti staðið á þessu ákvæði?

Í öðru lagi. Hver er skoðun hæstv. félmrh. á þeirri niðurstöðu nefndarinnar að ítrekuð afskipti rýri tiltrú manna á gildi þess að vera í verkalýðsfélögum? Hér hefur því verið haldið fram m.a. af hv. þm. Kristjáni Pálssyni stjórnarþingmanni, sem ætlar að styðja þetta frv., að það sem hér er að gerast sé hluti af niðurbroti á þeim samtökum sem sjómenn hafa myndað með sér. Er hæstv. félmrh. sammála því að ítrekuð afskipti ríkisstjórnarinnar og það tvisvar, bara af þessari deilu, séu liður í því að brjóta niður samtök sjómanna? Ég held að það sé mjög mikilvægt, herra forseti, að hæstv. félmrh., sem er vinnumarkaðs- og vinnumálaráðherra, komi hér og segi Alþingi hver viðhorf hans eru til þeirra ákvæða sem ætlunin er að lögbinda varðandi gerðardóminn vegna þess að ég fæ ekki betur séð og þeir aðrir sem hér hafa talað og gert þetta atriði að umtalsefni, og vísa ég þá aftur í orð hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, en verið sé að ganga lengra en áður hefur verið gert í því að binda menn við kjarasamning sem aðrir hafa gert og að binda menn til lengri tíma en áður hefur þekkst. Menn velta því fyrir sér hvað hafi orðið um þau skilaboð sem ILO-nefndin sendi ríkisstjórninni að ef menn fyndu þann flöt að gerlegt væri að fara inn í viðræður samningsaðila, að aðgerðir væru þá eins takmarkaðar og mögulegt væri. En hér er ítrekað, herra forseti, tekið fram að ákvarðanir gerðardómsins skuli hafa hliðsjón af gildistíma samnings um breytingar á kjarasamningi milli samtaka atvinnulífsins og Vélstjórafélags Íslands, þ.e. fjögur og hálft ár. Þetta er síðan aftur ítrekað í greinargerðinni, herra forseti.

Það er alveg ljóst hvað menn ætla sér hér. Það er verið að senda gerðardómnum ákveðin skilaboð um hvað hann eigi að gera. Hann á að horfa á vélstjórasamninginn, ekki bara að efni heldur líka varðandi tímalengd þess samnings. Ég ítreka því, herra forseti, fyrirspurn mína til hæstv. félmrh. um hvort hann telji að þetta ákvæði mundi standast sambærilega skoðun hjá Vinnumálastofnuninni og það ákvæði sem íslensk stjórnvöld fengu skammir í hattinn fyrir varðandi Herjólfsmálið. Getur þetta staðist, hæstv. félmrh.?

Ég ætla þá aðeins, herra forseti, að fara yfir þau efnisatriði sem vikið er að í 2. gr. frv., að gerðardómurinn eigi að fara inn í. Í a-lið, þetta eru liðir frá a--g, er talað um að gerðardómur eigi að ákveða eftirfarandi um kjaramál fiskimanna: ,,a. atriði er tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum á þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila.`` Verð til viðmiðunar, herra forseti. Við þetta hljótum við að staldra og við hljótum að velta því fyrir okkur, herra forseti, hvort hér sé komið algerlega nýtt hugtak í það lagaumhverfi sem sjómenn eiga að búa við. Þeir eru núna með í kjarasamningum sínum ákvæði, eins og ég gat um áðan, þar sem segir að útgerðarmaður skuli tryggja skipverjum hæsta gangverð. Um það hefur styrinn staðið, herra forseti, af því að menn vita að í mörgum tilfellum eru útgerðarmenn ekki að tryggja sjómönnum hæsta gangverð en lögin um Verðlagsstofu skiptaverðs ganga eigi að síður út frá því að viðleitnin sé í þá átt að verið sé að tryggja sjómönnum hæsta gangverð og menn séu sameiginlega að leita leiða til þess með ákveðnum skilgreiningum.

Hins vegar virðist hér vera gengið lengra. Búið er til alveg nýtt hugtak, verð til viðmiðunar. Hvað merkir það, herra forseti? Hvert á það eftir að leiða okkur? Nú vitum við að þær breytingar sem gerðar eru á þessu starfsumhverfi hafa oft og einatt skipt öðru og miklu meira máli og stundum allt öðru heldur en löggjafinn ætlaðist til þegar þær voru settar. Minn ótti og grunur er sá, herra forseti, að hér séum við að lögleiða nokkuð sem eigi eftir að leiða menn annað og lengra en e.t.v. er hugsunin þegar ákvæðið var sett, eða er það kannski hugsunin? Ég fjallaði áðan um að það væri ákvörðun um frjálst fiskverð og síðan stofnun fiskmarkaða sem í rauninni væri rótin að þeirri deilu sem sjómenn eiga enn í við útvegsmenn, þ.e. það frelsi sem varð hér og markaðsvæðing í umhverfinu er undirrótin því að útvegsmenn hafa ekki verið tilbúnir til að umgangast það frelsi markaðarins sem þar er á ferðinni.

Hér er hins vegar e.t.v. verið að loka hringnum, herra forseti, með því að búa til nýtt verðlagsráðsverð, verð til viðmiðunar. Og það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni eftir þær ræður sem við höfum hlýtt á og eigum eftir að heyra í kvöld ef spá mín er rétt --- mér skilst að hv. þm. Pétur Blöndal sé á mælendaskrá --- að verið sé að búa til aðferð til þess að kapítalið fái stærri hlut, þ.e. þeir sem áður hafa selt á fiskmarkaði, það verði freisting fyrir þá að fara að nota verð til viðmiðunar sem eins og menn þekkja á að reiknast út úr meðalverði í beinum viðskiptum um það hvernig meðalverð í beinum viðskiptum nálgast vegið meðaltal fiskmarkaða og meðalverð í beinum viðskiptum. Þetta hljómar ekki vel skiljanlegt þegar það er lesið svona en formúlan er til og þegar hún er komin, herra forseti, þá er það spurningin hvort við erum komin með nýtt verðlagsráðsverð og hvernig þetta muni virka áfram. Ég held að það sé mjög mikilvægt að því sé svarað og að hæstv. sjútvrh. geri betur grein fyrir því hvað hann er að leggja fyrir hv. Alþingi.

Mér fannst satt að segja framsöguræða hæstv. ráðherra í morgun vera alveg ótrúlega efnisrýr. Það var nánast að hæstv. ráðherra henti þessu frv. framan í þingið og tók aðeins á því sem hann vildi meina að væri efnahagsleg nauðsyn en öðru voru tæpast gerð skil. Það er þó verið að lögfesta ákveðin atriði ef vilji hæstv. ráðherra gengur fram og mér finnst að við, ekki síst þeir þingmenn sem eiga að takast á við málið í þingnefnd, eigum rétt á því að fá aðeins meiri skýringar en hæstv. ráðherra gaf þegar hann reifaði málið og flutti framsögu sína.

Í frv. eru líka ákvæði þess efnis að taka eigi Kvótaþingið af. Kvótaþing verður ekki lengur til. Um leið og þessi lög taka gildi, ef þetta frv. verður að lögum, þá er Kvótaþingið fokið. En ég minnist þess ekki, herra forseti, að hæstv. ráðherra hafi nefnt Kvótaþingið einu orði í framsöguræðu sinni. A.m.k. kom enginn rökstuðningur fyrir því af hverju það ætti að fylgja með í þessum pakka.

[16:45]

Ég sé að hæstv. ráðherra er að ganga í salinn þannig að það er kannski von til þess að hann fari aðeins betur yfir málið og útskýri fyrir okkur hvað verð til viðmiðunar í a-lið 2. mgr. 1. gr. getur þýtt og í öðru lagi að hann fari svolítið betur yfir efnisatriði þessa frv. vegna þess að efnisatriði frv. eru ekki bara gerðardómurinn, eru ekki bara þau efnisatriði sem hér eru í 2. gr. frv. Það er fleira, m.a. þetta að Kvótaþingið er slegið af.

Nú veit ég mætavel að Kvótaþingið er hluti af því starfsumhverfi sem sjómenn búa við núna. Það byggir á lögum sem hér voru sett árið 1998. Um það hefur staðið styr. Útvegsmenn hafa verið ákafir fylgjendur þess að Kvótaþingið væri tekið af og undir það hafa ýmsir tekið vegna þess að menn voru ýmsir fyrir fram nokkuð vissir um að þarna væri verið að búa til fyrirkomulag sem e.t.v. væri ekki það æskilegasta. En eigi að síður er ekki óeðlilegt að menn kalli eftir því að hér séu sett fram rök fyrir því að það sé tekið út bara sisvona.

Herra forseti. Sjómönnum finnst eðlilega erfitt að þurfa að horfast í augu við það að hér séu sett á þá lög eftir að þeim finnst sjálfum að þeir séu búnir að teygja sig býsna langt í þá átt að ná samningum við útvegsmenn. Þá vísa ég til þess sem ég fór yfir í upphafi máls míns varðandi það hvaða í rauninni tilboð eða vilja sjómenn sýndu eftir að þeim varð ljóst að þeim stæði aldrei til boða annað en sá rammi sem vélstjórar voru búnir að leggja.

Rétt til að fara yfir þær samningsaðstæður sem þessum aðilum hafa verið búnar, herra forseti, þá vil ég víkja að þessu tíu ára afmæli aftur sem ég gerði að umræðuefni í upphafi ræðu minnar. Sjómenn hafa verið með lausa samninga órúlega oft og ótrúlega lengi í senn á undanförnum áratug. Málið og deilan hefur snúist um verðlagsmálin. Hún hefur snúist um það að sjómenn gætu setið við sama borð, að þeir sætu allir við það sama borð að markaðurinn ákveði verðið fyrir þann afla sem þeir koma með að landi. En menn hafa verið að fara ýmsar leiðir, sumir mundu segja krókaleiðir, til þess í rauninni að komast hjá því að það yrði. Gagnrýnin hefur eðlilega staðið á það, herra forseti, að hér býr stór hluti sjómannastéttarinnar við það að útgerðin sem þeir starfa hjá er í raun að selja sjálfri sér aflann. Það eru viðskipti á milli skyldra aðila eins og tekið er fram í frv. Enn er verið að takast á við viðskipti á milli skyldra aðila. Það væri fróðlegt, herra forseti, og ég hef hugsað mér að kalla eftir því í hv. sjútvn., að við fáum lista yfir þessa skyldu aðila. Ég held að það sé gott að hafa það til hliðsjónar hverjir séu þessir skyldu aðilar sem í rauninni hafa ráðið hér gangi mála meira og minna allan síðasta áratug hvað varðar samningsmöguleika sjómanna og útvegsmanna vegna þess að eins og hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson kom inn á áðan er það svo að þegar útvegsmenn eru að semja þá bera þeir kápuna jafnan á báðum öxlum því að þar má segja að fiskvinnslan sé að semja ekki síður en útgerðin og kannski þó öllu fremur. Eða hvernig má það vera að útvegsmenn og sjómenn sem í fljótu bragði virðist að ættu að hafa nákvæmlega sömu hagsmuni í því að fá sem hæst verð fyrir aflann skuli sitja og þrefa um fiskverð rétt eins og um væri að ræða samninga við fiskvinnsluna í landinu. Þetta hefur ýmsum fundist erfitt að skilja, herra forseti, og skyldi engan undra því þetta er í rauninni óskiljanlegt öðrum en þeim sem áttar sig á þessu tvíeðli hluta LÍÚ, þess hluta þar sem um er að ræða hina skyldu aðila.

Það hefur verið nefnt bæði nú og fyrr að frændur okkar Færeyingar hafa kosið að fara aðra leið. Færeysku sjómannasamtökin sáu aumur á félögum sínum á Íslandi þegar kjaradeila sjómanna og útgerðarmanna var komin í hnút og sendu bæði sjómannasamtökunum og forsrh. bréf þar sem þau greindu frá því hver reynslan væri af því að breyta til og láta allan afla fara um fiskmarkað og, herra forseti, við gátum ekki séð annað en það væri mjög til eftirbreytni og ætti að skoðast. Það er spurning hvort það verður ekki að vera hlutverk Alþingis að takast nú á við það að breyta þessu starfsumhverfi þannig að sjómenn og útvegsmenn geti samið um það sem við getum kallað hefðbundin kjarasamnings\-atriði vegna þess að starfsumhverfi þeirra sé þá orðið eðlilegt, eðlilegt í þeim skilningi að Alþingi sé búið að vinna sitt verk.