Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 16:53:09 (7716)

2001-05-14 16:53:09# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Mér finnst við hæfi að hæstv. félmrh. sé viðstaddur þessa umræðu og undirbúi sig undir málflutninginn hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni þegar þetta makalausa frv. kemur þar til umræðu því að það er ekki nokkur einasti vafi á því að þetta mál verður kært þangað.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir rakti í ítarlegu máli mjög vel hvernig þetta stæðist ekki alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafa gert.

Í þingræðum hafa menn fjallað um aðdraganda þessa máls á ítarlegan hátt og ætla ég ekki að endurtaka það hér, hvorki samskiptin innan þingsins á milli stjórnar þingsins og stjórnarandstöðunnar né samskiptamátann sem ríkisstjórnin hefur haft gagnvart stjórnarandstöðunni og það fullkomna virðingarleysi sem hún hefur sýnt henni í þessu máli. Ég ætla að víkja strax að efnisatriðum þessa máls.

Enginn deilir um það að hálfs annars mánaðar verkfall á íslenska fiskiskipaflotanum er alvarlegt hvernig sem á það mál er litið. Það er alvarlegt fyrir þjóðarbúið og það er alvarlegt fyrir sjómenn og fjölskyldur sjómanna. Hér geta menn litið í eigin barm og skoðað hvað það þýðir fyrir þá og fjölskyldufjárhaginn þegar þeir verða af tekjum í hálfan annan mánuð. Við þetta hafa íslenskir sjómenn þurft að búa í sex vikur, tekjuleysi. Þeir hafa átt innhlaup í verkfallssjóði, ekki mjög burðuga verifallssjóði. Þaðan hafa þeir verið að fá 15--20 þús. kr. á mánuði. Það ríður því mjög á fyrir þá sérstaklega, og hefur alla tíð legið ljóst fyrir, að ná niðurstöðu í þetta mál, í þessa harðvítugu deilu sem allra fyrst.

Hvers vegna gripu sjómenn til verkfallsvopnsins í marsmánuði sl.? Þeir höfðu þá verið án samninga í á annað ár, 13 eða 14 mánuði og þeir óttuðust að hið sama væri að endurtaka sig og gerst hefur á liðnum hálfum öðrum áratug, en frá árinu 1987 hafa sjómenn verið án samninga í sex og hálft ár. Og þeir óttuðust að útvegsmenn ætluðu að leika sama leikinn aftur, að engin alvara væri þar að baki, að þeir vildu ekki semja. Sjómönnum var fullljóst að í samningunum var teflt fram ýmsum málum sem torvelt yrði að ná samkomulagi um, um verðmyndunarkerfi og um mönnunarákvæði í samningum og ýmis önnur slík mál. Mönnum var ljóst að þetta yrði erfitt viðfangs og þess vegna var sett fram sú tillaga í upphafi þessa árs að menn freistuðu þess að ná bráðabirgðasamkomulagi sem skyldi gilda út þetta ár. Hvað var það sem menn vildu semja um? Hvað var það sem samtök sjómanna lögðu áherslu á að reynt yrði að ná bráðabirgðasamkomulagi um í skammtímasamningi?

Í fyrsta lagi vildu þeir taka á tekjutryggingu sjómanna, þ.e. lágmarkslaunum sem þeir hefðu, þeirri fjárhæð sem þeim væri tryggð í mánuði hverjum óháð því sem aflaðist. Hver skyldi vera tekjutrygging háseta á skipi? Hún er 86 þús. kr. Þeir vildu fá hana færða upp í 120 þús. Finnst mönnum það hátt? Það finnst mér ekki.

Hvað var það annað sem þeir vildu ræða í skammtímasamningum? Þeir vildu ræða ýmis öryggismál og hlífðarfatnað. Þeir vildu einnig taka á slysatryggingum sjómanna þannig að þeir yrðu ekki að sýna fram á hver væri valdur að slysinu, hver bæri ábyrgð á því til þess að þeim bæri réttmæt greiðsla vegna slyssins. Þetta vildu sjómenn ræða í skammtímasamningi.

Þeir vildu líka ræða lífeyrismál. Þeir vildu semja um samsvarandi greiðslur sjómönnum til handa og aðrar stéttir hafa verið að semja um. Er þetta ósanngjarnt? Er þetta óeðlilegt? Nei, það finnst mér ekki. Þeir vildu einnig ræða lífeyrismálin almennt. Er sérstök ástæða til að ræða lífeyrismál sjómanna sérstaklega? Já, einfaldlega vegna þess að Lífeyrissjóður sjómanna hefur verið eins konar viðlagasjóður útgerðarinnar. Skyldu menn gera sér grein fyrir því að 40% af öllu því fjármagni sem rennur út úr lífeyrissjóði sjómanna er vegna slysa. Það eru örorkugreiðslur. Þetta er miklu hærra hlutfall en þekkist í nokkrum öðrum lífeyrissjóði. Af þessum sökum hefur Lífeyrissjóður sjómanna aftur og ítrekað skert lífeyriskjör sjómanna sem komnir eru á eftirlaun. Þetta er staðreynd. Þessi mál öll vildu sjómenn ræða í skammtímasamningi.

[17:00]

Útgerðin var ekki reiðubúin að gera þetta. Hún var ekki reiðubúin að setjast af neinni alvöru að samningaborði. Hver skyldi meginskýringin vera á því? Meginskýringuna er dagsdaglega að finna í þessum sætum mér til sitt hvorrar handar, ríkisstjórn Íslands, vegna þess að hún er vön að hlýða kalli og skipunum húsbænda sinna í LÍÚ, skera þá niður úr snörunni þegar á þarf að halda og það gerði hún svo sannarlega.

Þegar verkfall sjómanna hafði staðið í þrjá sólarhringa í marsmánuði komu lögin um frestun, fyrst til 1. apríl. Þá skall verkfall á að sönnu og hefur núna staðið fram í miðjan maímánuð. Þá aftur er látið til skarar skríða. Hvers vegna? Hvers vegna núna? Vegna þess að fyrir liggur kjarasamningur sem hugnast LÍÚ. Núna liggur hann fyrir. Hvað er þá gert? Þá eru sett lög sem banna verkfall sjómanna og málið jafnframt sett í þann farveg að þeim skuli sköpuð sömu kjör, sambærilegur samningur eða sambærilegur kjararammi, kjaraumgerð, því að um samning verður ekki að ræða, og vélstjórar hafa þegar samið um. Um það snýst þetta mál og vil ég nú beina fyrirspurn til hæstv. forseta þingsins. Er það misskilningur af minni hálfu að til hafi staðið að kalla saman þingflokka kl. 5 og fundir þingflokka stæðu á milli 5 og 6?

(Forseti (GuðjG): Það er ekki misskilningur. Gert hefur verið gert ráð fyrir þingflokksfundum kl. 5. En það er stefnt að því að nú verði blásið til þingflokksfunda og forseti spyr hv. þm. hvort hann vilji gera hlé á máli sínu eða hvort hann sé kominn að lokum ræðu sinnar.)

Ég er langt frá því að vera kominn að lokum ræðu minnar. Ég skal gera hlé á minni ræðu til kl. 6.