Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:03:14 (7717)

2001-05-14 18:03:14# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Ögmundur Jónasson (frh.):

Herra forseti. Eins og fram kom í máli hæstv. forseta Alþingis er verið að dreifa á borð þingmanna þinggögnum, nefndarálitum og nýjum þingmálum en öll slík mál hafa verið látin víkja fyrir því máli einu sem ríkisstjórnin hefur nú sett í forgang, frv. til laga um kjaramál fiskimanna o.fl.

Þetta frv. er ekki mikið að vöxtum en þeim mun meira að innihaldi. Í 1. gr. þessa frv. er kveðið á um bann við verkfalli Sjómannasambands Íslands og Farmanna- og fiskimannasambands Íslands.

Í 2. gr. frv. segir að þrátt fyrir þetta bann sé aðilum heimilt að freista þess að ná kjarasamningum fyrir 1. júní nk. Náist það ekki, komist samningsaðilar ekki að niðurstöðu fyrir þennan tíma segir löggjafinn hvað skuli gert. Hæstiréttur Íslands skal skipa kjaradóm, gerðardóm kallar hann það, en kjaradóm í þeim skilningi að kveða upp úr um það hver kjör sjómönnum og farmönnum skuli búin.

Sá gerðardómur sem Hæstiréttur skipar skal taka á eftirfarandi atriðum: Hann skal kveða upp úr um atriði sem tengjast markmiðum varðandi verð til viðmiðunar í hlutaskiptum í þorski, ýsu og karfa í beinum viðskiptum skyldra aðila. Hann skal taka á atriðum sem varða þau áhrif sem breyting á fjölda í áhöfn hefur á skiptakjör. Hann skal taka á atriðum er varða kauptryggingu og launaliði samninga. Hann skal taka á atriðum er varða slysatryggingu. Hann skal taka á atriðum er varða afmörkun á helgarfríi fiskimanna á netaveiðum. Hann skal taka á atriðum er varða mótframlag útvegsmanna vegna viðbótarlífeyrissparnaðar fiskimanna. Hann skal taka á öðrum atriðum sem nauðsynlegt er að taka á varðandi kjaramál. Hann fær sjálfdæmi um allt sem lýtur að kjörum íslenskra sjómanna. Þriggja manna nefnd sem Hæstiréttur Íslands skipar á að fá sjálfdæmi um kjör íslenskra sjómanna en ekki alveg vegna þess að þessum gerðardómi eru settar ákveðnar skorður. Honum er sagt á hvern hátt og á hvaða forsendum hann á að komast að niðurstöðu. Hann á að byggja niðurstöðu sína á nýgerðum kjarasamningi Vélstjórafélags Íslands við LÍÚ.

Með öðrum orðum er verið að lögfesta kjarasamning vélstjóra fyrir alla íslensku sjómannastéttina og menn staðhæfa, menn hafa staðhæft úr röðum sjómanna að þessi samningur, verði hann settur yfir, muni leiða til stórfelldrar kjararýrnunar fyrir stóra hópa, kjararýrnunar sem nemur í sumum tilvikum mörg hundruð þús. kr. á ári.

,,Gerðardómurinn``, segir, með leyfi forseta, í 3. gr., ,,skal við ákvörðun sína samkvæmt lögum þessum taka mið af samningi um breytingar á kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001 ...`` --- Síðar í greininni er vikið að gildistímanum. Niðurstaða gerðardóms, niðurstaða fulltrúa Hæstaréttar Íslands á að gilda í 41/2 ár, í tæpan hálfan áratug. Það væri mjög fróðlegt að heyra hæstv. félmrh. lýsa því fyrir Alþingi og fyrir alþjóð hvernig hann ætlar að halda á málum í vörninni við Alþjóðavinnumálastofnunina, ILO, eða aðrar þær stofnanir sem munu vafalaust þurfa að fjalla um þetta frv. vegna þess að án nokkurs vafa brýtur það í bága við alþjóðlegar skuldbindingar sem við höfum undirgengist. Á því leikur enginn vafi.

Ég rakti áðan hvað hefði vakað fyrir sjómannasamtökunum í upphafi árs. Það væri að ná skammtímasamningi sem gilti fram í desember um þau atriði sem menn töldu brýnust, tekjutryggingu sjómanna sem er 86 þús. kr. á mánuði fyrir háseta, slysatryggingar sem eru algerlega óaðgengilegar. Sjómaður þarf að sýna fram á hver ber ábyrgð á slysi sem hann verður fyrir til þess að honum beri réttmætar greiðslur. Taka ætti á lífeyrismálum, að sjómenn fái samsvarandi greiðslur og aðrar stéttir hafa samið um, flestar stéttir í landinu, að tekið verði á lífeyrismálum þeirra í heild sinni. Ég gat um það að úr Lífeyrissjóði sjómanna fara 40% allra þeirra peninga sem þaðan renna í slysabætur eða örorkubætur, sem er miklu hærra hlutfall en í nokkrum öðrum sjóði og er ein meginástæðan fyrir því að lífeyrissjóðsstjórnin hefur skert lífeyriskjör sjómanna. Nú hristir hv. þm. Pétur H. Blöndal höfuðið. Það væri fróðlegt að heyra hann útlista fyrir okkur hverjar ástæður eru þar að baki, en þetta mun vera ein forsenda þess að þetta hefur gerst. Ef það er misskilningur hjá mér, sem ég held að sé ekki, væri fróðlegt að heyra útlistanir hv. þm. sem jafnframt er tryggingastærðfræðingur. Gegn öllum þessum kröfum stóðu útgerðarmenn fast vitandi að þeir gætu reiknað með því að ríkisstjórnin mundi hlýða húsbændum sínum í LÍÚ og setja á lög af því tagi sem við erum að ræða núna.

Það sem ég velti svolítið fyrir mér er hvort ríkisstjórnin hafi grundað hvort hún kæmist upp með þetta gagnvart alþjóðlegum stofnunum og alþjóðlegum skuldbindingum sem við eigum aðild að og væri fróðlegt að heyra hæstv. félmrh. skýra okkur frá þessu. Ég vil líka spyrja þá sem eru ábyrgir fyrir þessum lögum og m.a. annarra orða langar mig til að beina þeirri fyrirspurn til forseta þingsins hvar hæstv. sjútvrh. er niður kominn, hvort hann ætlar ekki að vera viðstaddur þessa umræðu.

(Forseti (GuðjG): Ef hv. þm. vill fá svar við því veit forseti ekki hvort ráðherrann ætlar að vera viðstaddur eða ekki. Hann er í húsinu en það er sjálfsagt að senda honum skilaboð ef hv. þm. óskar þess.)

Ég óska eftir því.

(Forseti (GuðjG): Þá sendi ég honum skilaboð.)

[18:15]

Hæstv. sjútvrh. hefur látið svo lítið að heiðra Alþingi með nærveru sinni meðan rædd eru lög sem banna verkföll íslenskra sjómanna, verkfall sem staðið hefur í sex vikur og valdið kannski fyrst og fremst íslenskum sjómönnum miklum búsifjum. Það er alvarlegur hlutur þegar þannig er kippt grundvellinum undan kjarabaráttu sjómanna. Auðvelt er að færa rök fyrir því að þeir hafi orðið fyrir óbætanlegu tjóni og þá er ég að horfa til sjómanna og fjölskyldna þeirra. Maður veltir því fyrir sér hvort ríkisstjórnin hafi íhugað hvernig hún ætlaði að axla ábyrgð sína gagnvart þeim, gagnvart þeim mönnum sem sáu sig knúna til að leggja niður störf til þess að þrýsta á um kjarabætur, á hvern hátt ríkisstjórnin ætlar að axla ábyrgð sína gagnvart þessum mönnum.

Sú spurning sem ég vildi einnig beina til hæstv. sjútvrh. er þessi: Hefur ríkisstjórnin látið fara fram könnun á því hvort það lagafrv. sem hér liggur fyrir þinginu standist alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga? Margir þingmenn hafa komið og fært lagaleg rök fyrir því að þessi lög standist ekki skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist, t.d. á grundvelli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, ILO. Auk þess hefur verið vitnað í aðra samninga og aðrar skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist.

Þetta er virðingin og alvaran sem ríkisstjórnin sýnir Alþingi, að menn eru í spjalli, þeir nenna ekki einu sinni að hlusta á umræður, þeir nenna ekki að hlusta á spurningar sem beint er til þeirra. Ég var að beina þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvort fram hefði farið athugun á því áður en þessu frv. var slengt framan í þingið hvort það stæðist alþjóðlegar skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist. Hér voru færð fram mjög ítarleg rök, m.a. í máli hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur, að svo væri ekki, að það stæðist ekki þessar skuldbindingar. Ég beini þeirri spurningu til hæstv. sjútvrh. hvernig hann svarar þessum röksemdum. Var látin fara fram athugun á þessu? Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. félmrh. og ítreka hana: Hafa sérfræðingar félmrn. kannað þau mál til hlítar, hvort þau standist skuldbindingar sem Íslendingar hafa undirgengist? Hverju svarar hæstv. sjútvrh. þeim staðhæfingum sem fram hafa komið frá hendi sjómanna að þeir mundu verða fyrir umtalsverðum kjaraskerðingum verði vélstjórasamningnum þröngvað upp á þá eins og til stendur að gera með þessu frv.? Hverju svarar hæstv. sjútvrh.? Og þingið. Maður skyldi ætla að jafnvel stjórnarsinnar, þingmenn á borð við hv. þm. Pétur H. Blöndal sem á eftir að tjá sig um þetta mál og mun gera það á eftir, muni vilja vita hver svörin eru við slíkum spurningum.

Ég á erfitt með að trúa því að jafnvel þingmenn sem fylgja þessari ríkisstjórn að málum og hafa látið hafa sig til ýmissa verka, m.a. að brjóta stjórnarskrá Íslands á öryrkjum, muni vísvitandi samþykkja lög sem skerða kjör íslenskra sjómanna.

(Forseti (GuðjG): Forseti biður hv. þm. að virða að það er einn fundur í gangi í einu í þingsalnum og að þingmenn fari þá í hliðarsal ef þeir þurfa að spjalla saman.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir þetta. Þetta voru hæstv. sjútvrh. og formaður þingflokks Sjálfstfl. sem er mikið mál að ræða og spjalla um hlutina en mega ekki vera að því að hlusta á umræðu sem fram fer um lög sem eiga að banna verkfall íslenskra sjómanna, sem eiga að skerða samningsfrelsi íslenskra sjómanna og banna það verkfall sem hefur nú staðið í hálfan annan mánuð. Ég ætlast til þess að áður en þessari umræðu lýkur svari hæstv. sjútvrh. því hvernig hann ætli að axla ábyrgð ...

(Forseti (GuðjG): Forseti verður að ítreka að það er óskað eftir að það sé einn fundur í gangi í salnum í einu. Þeir hv. þm. sem sitja í horni salarins verða að víkja í hliðarsal ef þeir geta ekki setið á sér á meðan hv. þm. heldur ræðu sína.)

... hvernig hann ætli að axla ábyrgð gagnvart sjómönnum sem staðið hafa í verkfalli í hálfan annan mánuð tekjulausir til að knýja á um niðurstöðu í kjaraviðræðum sem er allt önnur en sú sem ríkisstjórnin ætlar síðan að lögþvinga upp á þá. Hvernig ætlar hæstv. sjútvrh. og hvernig ætlar ríkisstjórnin að axla fjárhagslega ábyrgð gagnvart þessu fólki? Ég óska eftir að fá svör við því. Svo að ég endurtaki spurningar mínar: Hvernig svarar hæstv. sjútvrh. ásökunum sem fram hafa komið og fullyrðingum um að þeir samningar eða sú kjaraumgerð sem á að búa íslenskum sjómönnum muni leiða til kjararýrnunar hjá stórum hópum þeirra? Hvernig svarar hæstv. sjútvrh. þessum fullyrðingum? Ég endurtek að ég trúi ekki öðru en jafnvel stjórnarþingmenn vilji fá að vita svör við þessum spurningum.

Í þriðja lagi ítreka ég fyrri spurningar mínar um lögmæti þessa gernings. Við vitum að hann er siðlaus en hvað um lögmætið?

Það hefur verið ömurlegt að hlusta á umræðurnar í dag af hálfu stjórnarþingmanna, á sjálfsvorkunnarvælið þegar verið er að ganga til þessa verks, staðhæfandi að þeir séu sérstakir vinir sjómanna. Hér hafa þeir komið hver á fætur öðrum og lýst því yfir um leið og þeir réttlæta þennan gjörning í óþökk sjómanna og samtaka þeirra.