Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:39:46 (7722)

2001-05-14 18:39:46# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Fyrst varðandi þetta síðasta. Ég er ekki fulltrúi Sjálfstfl. frekar en endranær. Ég er fulltrúi sjálfs míns hér á Alþingi og þó að hv. þm. tali alltaf um Vinstri græna sem eina persónu og eina sál er það ekki svo í Sjálfstfl. (HBl: En þetta er kannski þingmaður Sjálfstfl.) Já, ég er að sjálfsögðu þingmaður Sjálfstfl. og styð hann í velflestum góðum málum.

Varðandi það hvort ég vilji banna verkföll. Já, ég vil fara að skoða virkilega hvort verkföll gegni því hlutverki sem þau upprunalega gerðu, að þau séu neyðarbrauð fólks sem á við bágar aðstæður að etja og er að berjast fyrir réttindum sínum. Þau eru núna orðin barátta hátekjumanna fyrir enn meiri tekjum. (ÖJ: Sem eru svona 100 þús. kr. á mánuði?)