Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:40:43 (7723)

2001-05-14 18:40:43# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:40]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að segja að ég skil ekki alveg þá sýn sem hv. þm. Pétur H. Blöndal er alltaf að draga hér upp. Hann segir alltaf að fjármagnið hafi ekki hlut í hlutaskiptakerfi sem sjómenn búa við og að dýr skip, slík fjárfesting, fái engan hlut. Ef dýrt skip er keypt til landsins og segjum að þetta sé toppfrystiskip og að fiska eigi fyrir 1 milljarð, þá fær fjármagnð hvorki meira né minna en 200 millj. í hlut. Fyrstu 200 millj. af þessum 1 milljarði, ef skipið fiskar fyrir milljarð, fara í hlut fjármagnsins. Næstu 100 millj. fara í olíuna. 300 millj. fara frá áður en kemur til hlutaskipta sjómanna. Þegar þangað er komið, að 700 millj. eru eftir af þessu mikla aflaverðmæti dýra skipsins, þá fara sjómenn að reikna sinn hlut sem er yfirleitt um 28--30% úr 70%, úr 700 millj. sem eftir voru. Þannig er það nú, hv. þm.

Ég tek undir að hlutaskiptakerfið er snjallt hlutakerfi og mikill vilji hefur verið hjá sjómönnum að viðhalda því. Þess vegna buðu þeir fram þessa sátt í janúar, að semja um þrjú tiltekin atriði og fresta öðrum erfiðum málum eða leysa þau á þessu ári fram til 31. desember. Því var hafnað og síðan beittu þeir verkfallsvopninu og þá á að setja lög. Þetta eru vinnubrögðin sem verið er að framkvæma.