Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:43:49 (7725)

2001-05-14 18:43:49# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir því að síðasta hugmynd sem hv. þm. Pétur H. Blöndal ræddi um gæti verið til umræðu varðandi dýr skip að því gefnu að verðmyndunarþættir allir saman væru í lagi og menn seldu aflann á því verði sem hægt er að fá fyrir hann, en útgerðarmenn væru ekki að berjast við það alla tíð, ár og síð að tryggja að þeir geti haft nógu lágt fiskverð svo þeir geti stungið einhverju undan fram hjá eðlilegum kaupsamningum og eðlilegum kjörum. En þá yrðu þeir jafnframt að semja um það að á eldri skipum sem búið er að afskrifa væri annar kostnaðarhlutur en 20% dreginn frá skiptum. Það hlyti þá að vera sanngirni ef menn ætla að ræða það.

Færeyingar fóru þá leið að semja um sérstakan frádrátt til útgerðar af dýrum skipum fyrstu 4--5 árin, en síðan breyttist það. Hér hefur aldrei verið hægt að ræða neinar svona skynsemistillögur við útgerðarmenn.