Kjaramál fiskimanna og fleira

Mánudaginn 14. maí 2001, kl. 18:50:25 (7731)

2001-05-14 18:50:25# 126. lþ. 122.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 126. lþ.

[18:50]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hér erum við að ræða um frv. sem er ekki orðið að lögum, þ.e. frv. sem er ætlað að verða að lögum en Alþingi hefur á valdi sínu að breyta. Þetta frv. fjallar um gerðardóm sem er skipaður þremur mönnum völdum af Hæstarétti og gerðardómur hefur eðli málsins samkvæmt sjálfstæði. Hann er óháður og honum er ætlað að ákvarða kjör þeirra sjómanna sem lögin koma til með að taka til.

3. gr. frv. ber að skoða vandlega með tilliti til þess hvort hún haldi gagnvart alþjóðasamningum. Ég hef verið spurður að því í þessari umræðu hvort ég telji að þetta frv. brjóti í bága við stjórnarskrána varðandi félagafrelsi. Það tel ég að sé mjög ólíklegt að gæti orðið niðurstaðan.

Ég hef líka verið spurður um hvort hér væri um brot á alþjóðaskuldbindingum að ræða og ég vonast eftir því að svo verði gengið frá því í þinginu að lögfesting þess brjóti ekki í bága við þær alþjóðaskuldbindingar sem við erum aðilar að.

Ég tel að leiða megi afar sterkar líkur að því að heimilt sé að setja lög á þessa kjaradeilu. Ég vitna til niðurstöðu sérfræðinganefndar ILO sem hefur aðeins borið á góma í dag út af lagasetningu á kjaradeilu sjómanna 1998 þegar lögfest var miðlunartillaga sem sjómenn höfðu samþykkt en útgerðarmenn fellt. Þá hljóðaði niðurstaða eða hluti af niðurstöðu sérfræðinganefndarinnar þannig, með leyfi forseta:

,,Nefndin álítur að lögin hafi vísað til almenns kjarasamnings sem hafi verið laus til endurskoðunar í nær 13 mánuði, að þau hefðu verið sett að loknum nær tveggja mánaða verkfallsaðgerðum þótt hlé væri gert á og það hefði verið að loknum langdregnum og hörðum samningaviðræðum deiluaðila, m.a. að tilhlutan ríkissáttasemjara. Allar líkur voru á því að verkfallið mundi standa lengi og hafa alvarlegar afleiðingar fyrir efnahag landsins og atvinnu manna í fiskvinnslu.

Við slíkar aðstæður telur nefndin að íhlutun í almenna kjarasamninga með samþykkt laga um kjarasamninga sjómanna, nr. 10/1998, hinn 27. mars 1998, hafi ekki verið brot á ákvæðum 4. mgr. 6. gr., sbr. 31. gr. félagsmálasáttmálans. Hún er þeirrar skoðunar að íhlutunin falli innan valdsviðs ríkisstjórnar Íslands þegar um er að ræða til hvaða ráðstafana er nauðsynlegt að grípa við sérstakar aðstæður í lýðræðisríki til að vernda rétt og frelsi annarra og í almannaþágu. Við mat sitt hefur nefndin haft hliðsjón af þeirri staðreynd að almennur kjarasamningur var framlengdur til 15. febr. 2000 sem hún telur að kunni að vera réttlætanlegt við slíkar aðstæður, einkum vegna þess að samningar höfðu þá verið lausir til endurskoðunar í verulega langan tíma án þess að aðilar næðu árangri.``

Ég tel að því ástandi sem þarna er lýst megi jafna til þess ástands sem er í þjóðfélaginu núna. Hér er um verulega harða kjaradeilu að ræða, hún hefur staðið lengi og ég tel engan vafa að réttlætanlegt sé að setja lög til þess að ljúka kjaradeilunni, þ.e. setja lög um gerðardóm og að ljúka þannig kjaradeilunni.

Hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir spurði mig hvort ég liti svo á að hér væri um árás á samtök sjómanna að ræða. Ég tel að flutningur þessa frv. sé ekki liður í því og engan veginn liður í því að brjóta niður samtök sjómanna eða samtök útvegsmanna því að lögin taka líka til þeirra. Það er ekki eins og hér sé eingöngu verið að setja lög á sjómenn. Það er líka verið að setja lög á útvegsmenn.

Herjólfsmálið er hins vegar ekki fyllilega sambærilegt við þetta mál. Herjólfsmálið var að vissu leyti öðruvísi. Þar var um að ræða að það var ekki einungis að yfirmenn væru í verkfalli, það voru ekki bara þeir sem voru í verkfalli. Gerðardómurinn tók ekki bara á þeim sem verkfallið höfðu boðað heldur líka á félagsmönnum í Jötni og þar var kjörum þeirra breytt og þeirra kjör rýrð í gerðardómi. Um það tilvik segir í ILO-skýrslu frá þeim tíma:

,,Í niðurstöðu sinni vísaði gerðardómurinn hins vegar til 3. gr. laga nr. 15/1993 þar sem segir að þegar gerðardómurinn ákveður kaup og kjör samkvæmt lögum skuli hann hafa til hliðsjónar gildandi kjarasamninga á kaupskipum og almenna launaþróun í landinu. Dómurinn var þeirrar skoðunar að yfirvinnugreiðslur þær sem undirmenn höfðu fengið í tólf ár væru umfram það sem almennt gilti á kaupskipum og skyldu því felldar niður. ASÍ telur að úrskurður gerðardómsins lækki laun undirmanna um 10% og valdi því verulegri skerðingu á kaupi og kjörum undirmanna. ASÍ mótmælti meðferð málsins þar sem laun félaga eins stéttarfélags voru lækkuð í því skyni að leysa deilu atvinnurekenda og annars stéttarfélags. Auk þess sagði gerðardómurinn í niðurstöðu sinni að rekja mætti deiluna að miklu leyti til innri ágreinings milli stéttarfélaga, einkum hvað snerti launahlutföll. ASÍ er þeirrar skoðunar að það sé ekki hlutverk stéttarfélaga að komast að samkomulagi sín á milli um launahlutföll.``

Þetta mál nú er ekki sambærilegt við Herjólfsmálið á sínum tíma. Menn hafa haft á orði tekjutap sjómanna og víst er það mikið, en menn hafa ekki fjölyrt eins um tekjutap fiskverkafólks sem er verulega sárt og fiskverkafólk þolir miklu verr kjaradeiluna en sjómennirnir því að sjómennirnir eru sem betur fer yfirleitt betur launaðir en fiskverkafólkið. Síðan er tekjutap þjóðarbúsins sem allir sjá og réttlætir að gripið sé inn í deiluna eins og hér er gert.

Við í félmrn. höfum í dag athugað þetta mál vandlega hvað lagasetninguna varðar og ég vænti þess að niðurstaða lagasetningarinnar og gerðardómsins verði þannig að það verði auðvelt að verja það á alþjóðavettvangi. Ég heiti hv. sjútvn. liðsinni okkar í ráðuneytinu ef nefndin kynni að leita eftir því við frágang frv.